Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 19:21:29 (4323)

1997-03-11 19:21:29# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., SK
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[19:21]

Svanhildur Kaaber:

Hæstv. forseti. Í umræðum um frv. til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands sem hér er til umræðu mun ég fjalla um þrjár hliðar málsins sérstaklega. Í fyrsta lagi þá ákvörðun að breyta rekstrarformi Landsbankans og Búnaðarbankans í hlutafélagsform. Í öðru lagi þá hlið málsins sem snýr að sölu hlutabréfa í Landsbankanum hf. og Búnaðarbankanum hf. Í þriðja lagi þær áhyggjur sem hugsandi menn hljóta að hafa af starfsfólki því sem þessi mál óhjákvæmilega varða, réttindum þess og starfskjörum.

Ég sný mér að fyrsta atriðinu sem nefnt var, breytingu á rekstrarformi Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands í hlutafélög. Ég hlýt að spyrja: Af hverju? Hvað er það sem gerir það svo nauðsynlegt að breyta rekstrarformi þessara ríkisstofnana? Í athugasemdum með frv. finn ég þau rök helst að það sé í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar að breyta í hlutafélag þeim ríkisfyrirtækjum sem starfa á samkeppnismarkaði þannig að þau geti starfað á sama grundvelli og samkeppnisfyrirtæki. Þessi rök tel ég léttvæg, enda ósammála stefnu ríkisstjórnarinnar í flestum málum og líka þessu.

Ég tel fullkomlega óraunhæft að stefna sífellt í blindni að samkeppni á öllum sviðum í rauninni af því bara, eins og börnin segja eða af því að aðrar þjóðir, milljónaþjóðir, hafa talið slíkt heppilegt og þó reyndar sumar lært af biturri reynslu að svo var ekki. Í því sambandi má vísa til Norðmanna, en á níunda áratugnum var rekstrarformi norskra ríkisbanka breytt með þeim afleiðingum, eins og nefnt hefur verið í þessari umræðu, að Norðmenn hafa orðið að dæla 40--50 milljörðum norskra króna inn í bankakerfið til að halda því á réttum kili og norska ríkið á núna um 60% hlutafjár í bönkunum sem áður átti að henda út í hina frjálsu samkeppni. Jafnvel norskir bankar sem gerðir voru að hreinum hlutafélagabönkum réðu nefnilega ekki við samkeppnina og því hlýtur það að verða áleitin spurning hvort íslenskir bankar muni gera það. Núna hafa þeir tryggingu í því að vera ríkisbankar. Eftir þá breytingu sem hér er lögð til verða þeir ekki bara litlir heldur agnarsmáir hlutafélagabankar. Ég sé ekkert tilefni til að ætla að þessar, mér liggur við að segja örverur, muni standa sig í samkeppni við erlenda risa eins og títt nefndan Chase Manhattan banka eða svo nær sé litið Den Danske Bank sem þrátt fyrir stærð sína --- en hann er langstærsti banki í Danmörku --- verður að leita samstarfs við bankastofnanir í Evrópu til að ráða við hinn tiltölulega litla markað í Danmörku.

Í athugasemdum við frv. kemur einnig fram að Eftirlitsstofnun EFTA hafi þrýst á úrbætur að því er varði rekstur ríkisviðskiptabanka hér á landi þegar kemur að því sem kallað er eðlileg samkeppnisskilyrði. Nú kann vel að vera að nauðsynlegt sé að koma til móts við slíkar ábendingar en ég hlýt að velta því fyrir mér hvort sú leið sem hér er farin sé sú eina sem fær er til að koma til móts við ábendingar EFTA og vísa aftur til þess sem áður var sagt um norska banka. Ég dreg það í efa á sama hátt og ég dreg í efa að það sé rétt og hagkvæmt og verði til aukinnar hagræðingar fyrir landsmenn og fyrir almenn fyrirtæki í landinu. Ég dreg það í efa, eins og ég efast stórlega um að það auki áhrif fólksins í landinu á bankaumsvifin eða lækki vextina sem eru að sliga menn, að breyta rekstrarformi ríkisbankanna úr því formi sem nú er yfir í hlutafélagaform. Og ég dreg það í efa á sama hátt að ég efast um að það verði til þess að bæta bankaþjónustuna í landinu.

Hér má t.d. spyrja hvort þessir hlutafélagabankar eigi að hafa einhverjar skyldur við landsmenn hvar sem þeir búa hvað þjónustu varðar. Nú rekur Landsbankinn rúmlega 60 útibú um land allt. Á hinn bóginn er t.d. ekkert útibú Íslandsbanka hf. sem eðlilegt má telja að nefna í þessu sambandi, á öllu svæðinu frá Húsavík, austur og suður um land til Selfoss.

Mér er sagt að reikna megi með því að stofnun eins meðalbankaútibús kosti um 100 millj. kr. Það verður aldeilis hagræði í því fyrir Landsbankann hf. að fækka útibúum sínum, setja hugsanlega upp hraðbankakassa á einhverju götuhorni í stærstu plássunum og vísa viðskiptavinum annars upp á heiðina eða yfir fjallvegina til að sækja aðra þjónustu en þá sem tölvustýrðu kassarnir geta veitt. Sú hefur nefnilega orðið reyndin t.d. í Danmörku, en það ber þó að athuga að munurinn er allnokkur þar sem ekki er yfir fjallvegi og heiðar að fara þar á milli byggðarlaga og kvarta þó danskir notendur engu að síður undan bankaþjónustunni og yfir því hvað þjónusta hefur dregist saman við einkavæðingu banka þar.

Að öðru leyti en því sem hér hefur verið nefnt er látið að því liggja í frv. þessu og athugasemdum með því að í rauninni sé ekkert verið að gera svo afskaplega mikla breytingu aðra en þá að láta Landsbanka Íslands heita Landsbankann hf. og Búnaðarbankann heita Búnaðarbankann hf. Á bls. 6 í athugasemdum segir m.a., með leyfi forseta:

,,Þótt ekki sé ráðist í sölu á fjármálastofnunum í eigu ríkisins mælir margt með því að slík starfsemi sé rekin í formi hlutafélaga. Þetta á við jafnvel þótt ríkið sé eini eigandi viðkomandi hlutafélags eins og gert ráð fyrir í þessu frumvarpi.`` --- Þetta er reyndar atriði sem ég mun koma að aftur á eftir. Og áfram, með leyfi forseta: --- ,,Starfsemi hlutafélaga er í vandlega skilgreindu formi og hefur löggjafinn sett ítarlegar reglur þar um, m.a. um starfssvið stjórnar, framkvæmdastjórnar og aðalfundar. Nefna má að í hlutafélagalögum eru ákvæði sem vernda rétt minnihlutaeigenda.``

Á hinn bóginn segir í 7. gr. frv. að ýmis ákvæði annars vegar bankalaga og hins vegar hlutafélagalaga eigi ekki að gilda um Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Og ég hlýt að spyrja: Af hverju er annars vegar vísað í þessi lög sem rökstuðning fyrir rekstrarformsbreytingu og hins vegar tekið fram að ákvæði í þeim lögum eigi ekki að gilda í þessu tilviki? Er verið að komast fram hjá einhverjum ákvæðum laganna?

Þá gerir frv. ráð fyrir alræðisvaldi hæstv. viðskrh. á flestum sviðum. Sem dæmi má nefna að viðskrh. á að skipa undirbúningsnefndir, viðskrh. á að fara með eignarhlut ríkisins, viðskrh. getur ákveðið skiptingu hlutafjár í hluti o.s.frv. Með þessum ákvæðum og öðrum í frv. tel ég að enn sé verið að draga úr almannavaldi og möguleikum fólksins til að hafa áhrif í gegnum sína kjörnu fulltrúa á Alþingi og færa þau völd til eins manns, hæstv. viðskrh. og almáttugs í þessu tilviki. Það tel ég vonda ráðstöfun og í fullkominni andstöðu við þá lýðræðishugsjón sem hingað til hefur verið í hávegum höfð, a.m.k. sums staðar.

[19:30]

Næst vil ég koma að því sem ég nefndi áðan, því sem fram kemur í athugasemdum við frv., þ.e. að ríkið eigi að vera eini eigandi hlutafélagsins um bankana og vísast þá til bls. 6 og 7 í frv. Ég vil líka vísa til bréfs hæstv. iðn.- og viðskrh. sem hann skrifaði starfsmönnum banka og er dagsett 30. september sl. Fyrst er í bréfinu fjallað um áðurnefnda stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og síðan óskað eftir samstarfi við starfsmenn bankanna. Þar á eftir segir, með leyfi forseta:

,,Ég vil einnig undirstrika að breytingin á rekstrarformi banka annars vegar og hins vegar sala á bönkunum að hluta til eða öllu leyti eru algerlega aðskilin mál. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að það verði Alþingis að taka ákvörðun um sölu á eignarhlutum ríkisins í einstökum fyrirtækjum eða stofnunum.``

En hvað segir svo í frv. sjálfu? Það segir reyndar í 6. gr. að sala á hlutafé í eigu ríkissjóðs í þessum bönkum verði háð samþykki Alþingis en, og það er stórt en, það segir einnig, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir 2. mgr.`` --- sem sé þá að sala sé óheimil nema með samþykki Alþingis --- ,,getur ráðherra, til að styrkja eiginfjárstöðu hlutafélagsbankanna, heimilað útboð á nýju hlutafé.``

Þetta get ég ekki skilið öðruvísi en sem svo að það á ekki að selja en það á samt sem áður að selja. Haltu mér, slepptu mér.

Hér er einnig rétt að fram komi að aðalfundir starfsmanna beggja bankanna ályktuðu um einmitt þetta mál. Í ályktun starfsfólks í Búnaðarbankanum segir, með leyfi forseta:

,,Í bréfi viðskrh. Finns Ingólfssonar, dagsettu 30. september 1995, sem sent var öllum starfsmönnum Búnaðarbanka Íslands, er fjallað um áform ríkisstjórnarinnar um að breyta rekstrarformi ríkisbankanna. Þar kemur fram að breyting á rekstrarformi annars vegar og sala bankanna hins vegar séu algerlega aðskilin mál. Alþingi eitt geti tekið ákvörðun um sölu á hlutafé bankanna og að ráðherra leggi áherslu á að undirbúningsvinna vegna breytinganna fari fram í samvinnu við þá sem málið snertir.

Á þessum forsendum hóf formaður stjórnar Starfsmannafélags Búnaðarbanka Íslands samstarf við ráðherra þar sem það var álitinn vænlegri kostur til þess að tryggja stöðu starfsmanna við rekstrarformsbreytinguna. Í frumvarpsdrögum dagsettum 17. febrúar 1997 er hins vegar ákvæði þess efnis að ráðherra einn hafi heimild til að auka hlutafé bankans um allt að 49% til utanaðkomandi aðila.`` --- Því hefur nú eins og okkur er kunnugt verið breytt í 35% í fyrirliggjandi frv. Og áfram segir í ályktuninni, með leyfi forseta:

,,Aðalfundur Starfsmannafélags Búnaðarbanka Íslands mótmælir því harðlega að svo veigamikil breyting hafi verið gerð á frv. án samráðs þar sem ekki hafði áður verið rætt um aukningu eða sölu hlutafjár heldur einungis samruna við önnur fjármálafyrirtæki.``

Þess ber líka að geta, virðulegi forseti, að ályktun sama efnis kom fram og var samþykkt samhljóða á aðalfundi Starfsmannafélags Landsbanka Íslands.

Næst ætla ég að nefna nokkur atriði sem varða réttindi starfsmanna en um þau er fjallað í III. kafla frv. Í 8. gr. frv. er talað um að starfsmenn Landsbanka Íslands annars vegar og Búnaðarbankans hins vegar skuli eiga kost á sambærilegu starfi hjá Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. við yfirtöku þeirra á viðskiptabönkunum. Hér hlýtur maður að spyrja: Af hverju sambærilegt starf en ekki sama starf? Ef ekki á að gera aðra breytingu en þá að skella einu hf. aftan við nafn bankanna hlýtur að mega tryggja fólkinu sem þar starfar sama starf áfram. Það getur ekki hjá því farið að menn gruni þá um græsku sem ekki eru tilbúnir til að viðurkenna það og láta það koma fram í frv., gruni þá um að hér eigi að gera einhverjar þær breytingar sem gætu komið sér illa fyrir starfsmennina og rýrt kjör þeirra.

Í 8. gr. segir einnig að starfsmaður skuli njóta sömu réttinda og hann hafði áður, en það segir ekkert um kjör hans. Það hlýtur að vera grundvallarskilyrði að tryggja að kjör starfsfólksins rýrni ekki við breytingu af þessu tagi, enda hafa samtök bankamanna gert ítrekaðar athugasemdir við einmitt þessa grein frv. og lagt á það áherslu að skýlaust verði tryggt að starfsfólk eigi kost á sama starfi hjá Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og að þeir njóti þar sömu launa og réttinda og þeir höfðu áður.

Í 10. gr. frv. er fjallað um biðlaunarétt sem, eins og það er orðað í greininni með leyfi forseta:

,,... kann að hafa fylgt störfum í ríkisviðskiptabönkunum ...``

Ég hlýt að spyrja: Ríkir einhver vafi á því að slíkur réttur hafi verið fyrir hendi? Sá efi er alla vega ekki til í hugum starfsmanna bankanna og þeir telja þessa grein óþarfa ef 8. gr. sem áður var fjallað um verður breytt á þann hátt sem augljóslega er sanngjarnt og réttmætt að verði.

Í 11. gr. frv. er fjallað um lífeyrismál bankastarfsmanna. Í því sambandi er rétt að fram komi að í tillögum að breytingu á reglugerðum lífeyrissjóða starfsmanna Landsbanka og Búnaðarbanka er gert ráð fyrir að ríkisábyrgð og ábyrgð bankanna á eftirlaunum falli niður. Þessi atriði hafa valdið mikilli umræðu og deilum meðal starfsmannanna. Það er því ástæða til að ítreka að mjög nauðsynlegt er að strax verði gengið til þess verks að ganga frá samningum um tilhögun lífeyrismála við bankamenn.

Enn er hér ótalin í þessum kafla laganna ein grein um starfsmenn en það er greinin um bankastjóra. Nú hafa bankastjórar og laun þeirra verið mikið til umræðu að undanförnu. Ekki er að sjá á greininni sem er 9. gr. frv. að sérstaklega eigi að hagræða eða spara í sambandi við þessa ofurlaunamenn í bönkunum, en væri þó augljóst hagræði að því að fækka þeim t.d. eins og um 2/3 í hvorum banka fyrir sig. Þannig mætti líka bæta verulega kjör almennra starfsmanna bankanna. Og nú langar mig til að vitna í grein í blaði SÍB, Sambands ísl. bankamanna frá því í febrúar 1997 þar sem fjallað var um launahækkun þriggja seðlabankastjóra. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Það er eðlileg krafa starfsmanna að sú 37% hækkun sem átt hefur sér stað á launum bankastjóranna frá árinu 1993 skili sér að öllu leyti líka til annarra starfsmanna bankans. Til þess að varpa skýru ljósi á þessar miklu launahækkanir bankastjóra Seðlabankans má benda á að ef sú krónutala launahækkana, tæplega 4,7 millj. kr. á ári, sem þessir þrír menn hafa fengið frá árinu 1993 til ársins 1996 hefði verið notuð til þess að hækka laun allra starfsmanna bankans hefði mátt hækka laun hvers og eins hinna rúmlega 140 starfsmanna bankans um rúmlega 32 þús. kr. á ári.``

Enn eitt atriði sem varðar starfsmenn þó ekki sé það í starfsmannakafla frv. heldur í I. kaflanum og þá í 2. gr. Þar er ákvæði um tvær undirbúningsnefndir sem skulu þannig skipaðar að viðskrh. ákveður skipun þriggja manna í hvora nefnd. Ekkert er um tilnefningar. Ekkert er um hvaðan heppilegt væri að menn þessir kæmu. Þetta er sem sagt bara ákvörðun eins manns. Þetta er með ólíkindum.

Vegna þess hvað breytingar á rekstrarformi bankanna munu hafa afgerandi áhrif á starfsvettvang bankamanna og vegna þess líka að bankastarfsmennirnir eru náttúrlega sérfræðingar í málefnum banka og hafa menntun, reynslu og þjálfun á þeim vettvangi, er ekki óeðlilegt að ætlast til þess að starfsmenn banka fái fulltrúa í þessar undirbúningsnefndir. Í framhaldi af því er einnig eðlileg krafa að starfsmenn fái a.m.k. áheyrnarfulltrúa í bankaráð hinna nýju banka. Þar sem vinsælt er að vísa til útlanda má nefna að slíkt fyrirkomulag tíðkast á Norðurlöndunum og víða í löndum Evrópubandalagsins.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég segja þetta. Ég tel frv. sem hér liggur fyrir vont frv. Það byggir á einhvers konar ,,haltu mér, slepptu mér`` --- hugsun eða að ,,éta kökuna og geyma hana`` --- hugsun sem er lítilmótleg og lágkúruleg. Ég er ekki að mæla gegn því að gagnger endurskoðun verði gerð á bankakerfinu. Ég tel fulla ástæðu til skipulagsbreytinga, skipulagsbreytinga sem hefðu það að markmiði að gera starfsemi bankanna almenningi skiljanlegri og augljósari, auka áhrif fólksins á bankastarfsemina, bæta þjónustuna og lækka vextina svo eitthvað sé nefnt. Til þess væru ýmsar leiðir færar sem ekki eru nefndar í þessu frv. en nokkrir ræðumenn í dag hafa nefnt og ég ætla ekki að fara að tíunda hér frekar þegar liðið er svo langt á dag. Hér virðist miklu frekar eiga að gefa erlendum aðilum eða þessum fáu íslensku stórfyrirtækjum og stóreignafólki möguleika á að yfirtaka stjórn bankakerfisins líka.

Frv. sýnir kannski betur en margt annað hvers lags barningur það hefur nú verið fyrir núverandi ríkisstjórn að komast að sameiginlegri niðurstöðu um stefnumál sem sennilega hafa verið sett niður í hálfgerðu fljótræði í sigurvímunni eftir kosningarnar síðustu, án þess að báðir ríkisstjórnarflokkarnir hafi hugsað í kjölinn hvers konar samvinna yrði byggð upp í ríkisstjórnarsamstarfinu og hvernig ætti að vinna að málum og umfram allt að hvaða málum ætti að vinna.