Umhverfisáhrif frá álverinu í Straumsvík

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:09:08 (4337)

1997-03-12 14:09:08# 121. lþ. 88.3 fundur 392. mál: #A umhverfisáhrif frá álverinu í Straumsvík# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:09]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er ánægjuefni að hv. þingmenn Framsfl. eru farnir að kynna sér þessi efni og ganga eftir því með fyrirspurnum og ég gleðst yfir því. Varðandi vöntun á heildstæðri úttekt á þessum málum, þ.e. umhverfi stóriðjurekstrar, þá blasir við að því er varðar álbræðsluna í Straumsvík og einnig væntanlega stóriðjustarfsemi á Grundartanga að þar hefur verið haldið á málum þannig að heildstæða náttúrufarslega úttekt vantar, grunn til samanburðar, grunn sem þarf auðvitað að leggja áður en byggt er upp þannig að menn geti fylgst skynsamlega og tryggilega með breytingum og áhrifum á umhverfið. Eins og menn sjá af þessari rannsókn sem er 12 ára gömul, var um mjög verulegar breytingar að ræða og ég hlýt að nefna það vegna þeirra talna sem hæstv. umhvrh. fór með að þær eru ekki miðaðar við starfsleyfi heldur sumpart við annað þannig að það er dálítið einkennilega fram sett. En alveg sérstaklega þurfa menn að hafa í huga (Forseti hringir.) að þó það sé reynt að herða á kröfu um losun á hvert framleitt tonn þá skilar mengunin sér í vaxandi mæli þegar aukið (Forseti hringir.) er við framleiðsluna eins og gert hefur verið í Straumsvík og það getur endað í hinu sama ... (Forseti hringir.)

(Forseti (GÁS): Tíminn er búinn.)

... hvað varðar áhrif.