Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 16:25:38 (4428)

1997-03-13 16:25:38# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[16:25]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vildi koma hér og víkja að nokkrum atriðum sem fram komu í svörum hæstv. viðskrh. fyrr í dag í þessum umræðum við spurningum mínum og annarra um efni þessa frv. og umgjörð málsins, en áður en ég kem að því langar mig til að rifja það upp til glöggvunar með hliðsjón af því hvað málið er í raun og veru stórt að Alþb. hefur sem flokkur fjallað sérstaklega um þessi bankamál aftur og aftur á undanförnum árum. Ég hygg að nýjustu heildarsamþykktir Alþb. varðandi bankamálin birtist í riti sem gefið var út fyrir kosningarnar 1995 og kallaðist Útflutningsleiðin, en þar segir svo um bankamál, með leyfi forseta, því að mér finnst að það eigi heima í þessum umræðum:

,,Auk nauðsynlegra skipulagsbreytinga er mikilvægt að nýr hugsunarháttur, nýtt gildismat, aðhald og sparnaður í rekstri setji svip á starfsemi og stjórnendur peningastofnana landsins. Bankarnir mega ekki vera dæmi um flottræfilshátt, lúxus og ofurlaun. Bankastjórar og forstjórar lánasjóða verða að sýna gott fordæmi. Þeir mega ekki verða yfirstétt sem býr við lífsstíl sem er ofan og utan við allt sem fólkið í landinu þekkir af eigin raun. Mikilvæg skref til að ná þeim markmiðum sem hér er lýst eru þessi:

1. Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka í öflugan, alhliða þjóðbanka verði könnuð sérstaklega. Athugað verði hvort hún stuðlar að því að á hagkvæmari og ódýrari hátt sé veitt víðtæk þjónusta sem stenst alþjóðlega samkeppni.

2. Fækkun hinna ýmsu lánasjóða sem merktir eru atvinnugreinum eða sérstökum verkefnum með því að láta þá renna inn í hinn sameiginlega banka. Þar með næðist sameining bankastarfsemi og atvinnuvega og veruleg hagræðing og sparnaður í rekstri.

3. Bankar og sparisjóðir taki í auknum mæli við því verkefni að þjónusta lánveitingar til húsnæðiskaupa.

4. Sett verði þak á launakjör bankastjóra og stjórnenda annarra fjármálastofnana í almenningseign og afnumin margvísleg fríðindi sem þeir nú njóta.

5. Skipulagi Seðlabankans verði breytt á þann veg að einn bankastjóri komi í stað þriggja. Þríeykið í stjórn Seðlabankans er afleiðing úrelts pólitísks lénsskipulags.

6. Settar verði skorður við möguleikum Seðlabankans til að starfa á sviðum sem á engan hátt snerta hlutverk bankans.``

Þetta voru tilvitnanir í samþykktir Alþb. sem voru hluti af Útflutningsleiðinni og voru kynntar sérstaklega fyrir kosningarnar 1995. Hvaða erindi átti þessi texti í bók sem hét Útflutningsleiðin? Þessi texti átti það erindi í bókina Útflutningsleiðin að við höfum lengi verið þeirrar skoðunar að einn aðalvandi íslenska atvinnulífsins sé allt of dýrt peningakerfi. Það er ekki aðeins aðalvandi atvinnulífsins vegna þess að peningakerfið sé dýrt til skemmri tíma litið, heldur er það kannski fyrst og fremst aðalvandi atvinnulífsins vegna þess að með því að búa við svona dýrt peningakerfi, þá getur atvinnulífið ekki borgað nægilega góð laun. Við töldum líka að ef íslenskt atvinnulíf ætlaði að vera samkeppnisfært við það atvinnulíf sem um er að ræða í grannlöndum okkar almennt séð og einnig í launagreiðslum, þá yrði að ná niður kostnaði við bankakerfið.

[16:30]

Það er mjög mikilvægt líka að hafa það í huga sem fram kemur í þessari ályktun Alþb. frá því fyrir kosningarnar 1995 að það er hinn alþjóðlegi vinkill sem verður að hafa í huga, það er hinn alþjóðlegi vinkill. Og mér finnst satt að segja að þetta frv. og umbúnaður þess gleymi hinum alþjóðlega vinkli, að hérna séu menn lokaðir inni í tiltölulega þröngum valdahagsmunum stjórnarflokkanna frekar en að hér sé um að ræða tillögur um róttækar breytingar sem geri íslenskt efnahagslíf samkeppnisfærara við efnahagslíf grannlanda okkar á komandi árum og áratugum.

Ég óttast með öðrum orðum að menn séu að stíga hér svo lítil skref í áttina til endurbóta á bankakerfinu að það gæti hrunið, íslenska bankakerfið, um leið og aðrir aðilar létu sér detta í hug að koma til sögunnar á einn eða annan hátt. Þetta var um samþykktir Alþb. sem mér fannst nauðsynlegt að koma á framfæri í þessari umræðu til að þær upplýsingar lægju fyrir.

Í öðru lagi ætla ég aðeins að nefna, herra forseti, varðandi sparnaðinn af rekstri bankanna og það sem hæstv. ráðherra sagði um að ég hefði gerst svo djarfur að telja hér upp nokkur útibú. Ég gerði það en vil bara ítreka í tilefni af orðum ráðherrans að öll þessi útibú eru á stöðum þar sem tvö útibú eru, sitt frá hvorum ríkisbanka, Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Þegar ég segi: Það má leggja niður eitt útibú á hverjum þessara staða, þá þýðir það að eitt stendur eftir frá öðrum hvorum bankanum eftir því sem aðstæður leyfa.

Þegar Landsbankinn fékk ákveðna fyrirgreiðslu á vegum ríkisins fyrir fáeinum árum þá voru honum sett skilyrði í sambandi við rekstrarkostnað sinn og ég verð að segja alveg eins og er að ég hef ekki mjög sterka tilfinningu fyrir því að menn hafi gengið lengra en krafist var í þá veru að taka niður rekstrarkostnað Landsbankans. Ég hefði getað hugsað mér að menn gengju þar allmiklu lengra að því er það varðar heldur en raun hefur á orðið. En ég vil endurtaka að þessar hugmyndir sem ég taldi upp um að loka níu útibúum á níu stöðum og að loka níu útibúum í Reykjavík þýða ekki að einhverjir staðir yrðu skildir eftir bankaþjónustulausir því að alls staðar er um að ræða tvöföldun á þjónustukerfi ríkisbankanna. Þetta var um það atriði.

Varðandi í öðru lagi það mál sem hæstv. viðskrh. kom að í sambandi við launakjör bankastjóra þá verð ég að taka undir það með hv. þm. Ágústi Einarssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur að ég heyrði ekki betur en viðskrh. og iðnrh. hafi allt aðra skoðun á þessu máli heldur en samgrh. Ég held að það sé mjög æskilegt að draga það fram að á meðan hæstv. samgrh., Halldór Blöndal, neitar að gefa upplýsingar um launakjör yfirmanna Pósts og síma af því að þar sé um að ræða atriði sem leynt eigi að fara, þá vísar hæstv. viðskrh. til laga um ársreikninga. Í rauninni er ekki hægt að skilja ráðherrann öðruvísi en svo að hann sé að gagnrýna hæstv. samgrh. Og ég held að það sé dálítið athyglisvert og umhugsunarvert ef málið er þannig að hæstv. samgrh. veður í villu og svíma í þessu máli af því að ég treysti því betur að hæstv. viðskrh. kunni að lesa ársreikningalög en hæstv. samgrh. með fullri virðingu fyrir þeim síðarnefnda. Mér sýnist því að hér sé komin upp ansi harkaleg deila, túlkunardeila, og ansi harkalegur túlkunarmismunur hjá þessum tveimur hæstv. ráðherrum sem er algerlega óhjákvæmilegt að við stöldrum við í umræðunni og höldun þá til haga í frekari umræðum um þessi mál eða önnur því að það er auðvitað spurning hvort ekki sé nauðsynlegt að taka þessi mál upp á almennum grundvelli (JóhS: Forsrh. fær að skera úr um þetta.) þannig að annaðhvort verði forsrh. látinn skera úr um þetta sem almennt atriði eða þá að flutt verði almennt þingmál sem taki á því að það sé algerlega tvímælalaust að túlkun hæstv. viðskrh. sé í samræmi við lagasetningarvilja Alþingis.

Um bankastjóralaunin og bankastjórana sérstaklega, þá verð ég að segja að mér fannst það nokkuð athyglisvert sem hæstv. ráðherra sagði um þau mál, þ.e. að bankastjórarnir geti ekki treyst því að hafa sömu kjör áfram. Var það ekki nokkurn veginn það sem ráðherrann sagði? Ég vek athygli á því að ég veit ekki betur en Landsbankinn hafi alveg nýlega gengið frá fimm ára ráðningarsamningi með öllu tilheyrandi við einn af sínum bankastjórum rétt um það leyti sem þessi einkavæðing eða hlutafélagavæðing bankanna er að hefjast. Og ég spyr hæstv. ráðherra af því tilefni: Var hann samþykkur því að ganga þannig frá þessari ráðningu, vegna þess að hún hlýtur að standa inn í tímann þó að um það verði að ræða að þessir bankar yrðu gerðir að hlutafélögum eins og hér er lagt til? Með þessum samningi er bersýnilega verið að binda Landsbankanum verulega bagga umfram það sem ella væri og ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi verið samþykkur því, því að hann hlýtur að hafa komið einhvern veginn að málinu, hvort hann var samþykkur því að ráðning þessa bankastjóra yrði framlengd um fimm ár með kaupi og ,,tilbehör`` eins og bankastjóralaunum hefur verið lýst hér að undanförnu.

Þessu næst vil ég spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í það sem ég kalla almenn stefnuatriði og ég hygg að hv. 4. þm. Norðurl. e. hafi rætt þau mál líka mjög ítarlega. Hver er hin almenna stefna ráðherrans í sambandi við þróun bankamála? Hvernig vill hann sjá fyrir sér þróun íslenska bankakerfisins? Vill hann sjá fyrir sér að hér séu tveir bankar eða þrír? Það er bersýnilegt að hann stefnir að fjórum bönkum eins og þetta er hér, a.m.k. til skemmri tíma, þ.e. Landsbankanum, Búnaðarbankanum, Íslandsbanka og Fjárfestingarbankanum til viðbótar svo við sparisjóðina þannig að hér er gert ráð fyrir því að áfram verði haldið með allviðamikið bankakerfi í landinu. Hvernig sér hæstv. viðskrh. framtíðina fyrir sér í þessu efni vegna þess að hans framtíðarsýn skiptir aðvitað máli í þessu dæmi. Svo lengi sem hann situr uppi í Stjórnarráði og hefur með viðskrn. að gera, þá hlýt ég að spyrja hann þeirrar spurningar.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra aðeins lítillega um það sem hér hefur verið rætt mjög mikið og kallað er dreifð eignaraðild. Ég tek eftir því að menn hafa þessi orð hver eftir öðrum, dreifð eignaraðild, og að það eigi að tryggja dreifða eignaraðild. Og ég heyri ekki betur en hv. þingmenn jafnaðarmanna séu margir að tala mikið um dreifða eignaraðild og að nauðsynlegt sé að setja reglur um það og ég er alveg sammála því. En ég skil ekki alveg hvernig menn ætla sér að framkvæma þetta. Ég segi alveg eins og er. Ég sé það ekki. Hvernig ætla menn sér að framkvæma eða tryggja það sem kalla má dreifða eignaraðild eftir að bréfin voru komin á markað? Markaður er markaður og hann tekur hlutina eins og þeir koma fyrir af skepnunni, ef svo mætti segja. Ég held að það sé óskaplega flókið að búa til fyrir fram forskrift að einhverju sem heitir dreifð eignaraðild nema þá að það sé beinlínis sagt í lögunum að bannað sé að selja hverjum einum aðila t.d. meira en 1% eða 2% í viðkomandi banka. Er það það sem hæstv. ráðherra er með í huga eða hvað þýðir þetta tal um dreifða eignaraðild? Mér sýnist að það sé meira og minna innihaldslaust satt að segja en ég tek eftir því að það étur þetta hver upp eftir öðrum svo að segja þannig að það væri kannski fróðlegt að fá upplýsingar um það hvernig hæstv. viðskrh. sér þetta mál fyrir sér.

Ég bar það fram við hæstv. ráðherra hvort hann teldi að orð Steingríms Hermannssonar væru enn í gildi eða ekki, en hann sagði á fundi í Framsóknarfélagi Reykjavíkur 27. júní 1991 að það þyrfti að athuga sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka. Ég spurði hæstv. ráðherra að því hvort hann væri sammála þessu. En Steingrímur Hermannsson sagði þá samkvæmt frétt Tímans frá 29. júní 1991, með leyfi forseta:

,,Sagði Steingrímur að mikilvægt væri að hafa í landinu sterkan íslenskan banka og athugandi væri að sameina Landsbanka og Búnaðarbanka í því skyni.``

Nú er ég út af fyrir sig sammála því hjá hæstv. iðnrh. og viðskrh. að hér er ekki mjög sterkt að orði kveðið og ég vek athygli á því að við alþýðubandalagsmenn sem höfum talað um sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans höfum heldur ekki kveðið sterkt að orði í þessu máli. Við höfum sagt að það eigi að kanna þessa hluti til þrautar. Okkur finnst freistandi að fara í verkið af því að það sparar þjóðinni milljarð á ári. Milljarður er stór tala. En við höfum hins vegar aldrei slegið því í sjálfu sér föstu og það er ekki gert í samþykkt Alþb. frá 1994 að skilyrðislaust eigi, hvað sem það kostar svo að segja, að sameina þessa banka. Hins vegar er greinilegt að Steingrímur Hermannsson, fyrrv. formaður Framsfl., var þeirrar skoðunar að þetta ætti að athuga og ég vil þess vegna spyrja hæstv. viðskrh.: Hefur hann látið athuga þetta sjálfur? Hann hefur ekki fært fram nein rök í umræðunum á móti því að spara þennan milljarð, engin rök. Hann hefur ýjað að því að það væri erfitt að finna leið til að loka þessum útibúum, að það væri svo erfitt að ná utan um það mál, að það þyrfti mikið afl og mikla krafta til þess og ég hugsa út af fyrir sig að það sé rétt. Ég hygg þó að í rauninni ættu menn að geta haldið utan um þetta mál og hæstv. ráðherra sagði hér áðan: ,,Menn geta út af fyrir sig sameinað bankana og tekið ákvörðun um það eftir að þetta frv. er orðið að lögum.`` Svo hygg að sé kannski ekki. Það yrði alla vega að breyta lögunum áður en það gerðist. En látum það vera. Menn gætu auðvitað stefnt á það. En þá verð ég að segja: Ég tel það ekki líklega leið. Mér sýnist að aðalgallinn við þetta frv. sé sá að kóngarnir, ég sagði ekki smákóngarnir heldur kóngarnir, í hvorum banka haldi öllu sínu. Og ég held að vandinn sé sá að Alþingi þarf að taka fram fyrir hendurnar á smákóngaveldinu í þessum ríkisbönkum ef það á að komast einhver vitræn niðurstaða í þeim efnum. Þess vegna verð ég að segja að mér finnst mikilvægt að í umræðunni um þetta mál hafi hæstv. viðskrh. haldið tiltölulega opið á málinu. Ég tel að hv. efh.- og viðskn. geti þar af leiðandi að sjálfsögðu komist að hvaða niðurstöðu sem henni sýnist um málið og að hæstv. viðskrh. hljóti að taka þeirri niðurstöðu jafnvel þó að niðurstaða nefndarinnar verði sú að leggja til að Landsbankinn og Búnaðarbankinn verði sameinaðir.