Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 16:49:49 (4432)

1997-03-13 16:49:49# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[16:49]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta geti ekki gengið fyrir sig svona vegna þess að í raun og veru stendur ekki í frv. að bankarnir eigi allir að fara á sama grunn. Það stendur að það eigi að fresta því í nokkur ár þannig að það er ekki verið að taka þá ákvörðun sem hæstv. ráðherra er hér að tala um og þess vegna finnst mér að þessir hlutir gangi ekki upp eins og hann setur þá hér fram.

Í annan stað vil ég svo bara vekja athygli á því, hæstv. forseti, að lokum að mér finnst það merkilegt sem fram kom hjá ráðherranum að það var ákveðið að framlengja ráðningu eins bankastjórans með öllum hlunnindum í fimm ár og þeirri hugmynd að hafa þá ráðningu með aðeins öðrum hætti, þ.e. að vera með uppsagnarfrest til sex mánaða var hafnað í bankaráðinu. Það er nokkuð athyglisvert að á sama tíma og menn þykjast vera að endurskipuleggja bankakerfið, þora menn ekki að taka á þeim sem eru með ofurlaunin efst í bönkunum.