Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 18:54:09 (4451)

1997-03-13 18:54:09# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[18:54]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Með þessu frv. er verið að stíga risaskref að mínu viti í nýsköpun í atvinnulífinu. Það er verið að setja meiri peninga í þennan þátt fjárfestingarstarfseminnar en áður hefur verið gert. Stofnfé eða eigið fé Nýsköpunarsjóðs verða 4 milljarðar kr. Það er rangt hjá hv. þm. að það séu bara tveimur atvinnugreinum tryggður aðgangur að þessum sjóði. Mér heyrðist líka þegar hv. þm. fór að bera saman hvernig stjórn nýsköpunarsjóðs sem Alþb. hefði lagt fyrir Alþingi er skipuð og í þessu frv. að þær séu skipaðar með mjög sambærilegum hætti. Vegna þess að í stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er gert ráð fyrir að verði fulltrúar iðnaðar, fulltrúar sjávarútvegs, fulltrúar launafólks í landinu í gegnum ASÍ. Síðan eru tveir fulltrúar skipaðir, annar af sjútvrh. og hinn af iðnrh. Það segir ekkert um það úr hvaða greinum atvinnulífsins þeir skuli koma. Þannig að þarna er um misskilning að ræða, hv. þm.