Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 21:13:48 (4470)

1997-03-13 21:13:48# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[21:13]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ég tel að hér hafi orðið nokkur tíðindi sem kalli á það að staða þessara mála verði metin dálítið og þar sem merkilegast er við niðurstöðuna eins og fram hefur komið hér á síðustu mínútum er að meiri hluti efh.- og viðskiptanefndarmanna er þeirrar skoðunar að það þurfi að laga þetta mál mjög mikið. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði: ,,Ég er á móti málinu``, eins og þingmaðurinn orðaði að nákvæmlega og hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson fór þeim orðum um þetta frv. að ekki var hægt að heyra annað en hann væri andvígur málinu líka. Þess vegna er staðan þannig að maður hlýtur að velta því fyrir sér að því er varðar frv. um fjárfestingarbankann hvort það eru möguleikar til þess að skapa í því máli nýjan þingmeirihluta. Eru möguleikar til þess að skapa í því máli nýjan þingmeirihluta? Það hlýtur efh.- og viðskn. að láta kanna. Hún hlýtur, og ég segi það við þá sem hér eru úr nefndinni, þeir hljóta að gera tilraun til þess að ná samstöðu um málið sem hugsanlega er hægt að ná samstöðu um í þinginu. Og eins og hv. þm. Pétur Blöndal sagði hér áðan: ,,Þingmenn eru frjálsir að því.``

Þingmönnum er ekki bara skylt að gagnrýna hluti. Þingmönnum er skylt að reyna að leiða þingviljann í ljós eins og segir í öllum ritum um stjórnarskipunarlög. Þingmönnum er skylt að leiða þingviljann í ljós. Og í þessu máli vill þannig til að það er ástæða til að ætla að það sé annar þingmeirihluti í þessu máli heldur en birtist í því frv. sem er hér verið að ræða aðallega, þ.e. frv. um fjárfestingarbankann. Og af hverju segi ég það? Ég segi það í fyrsta lagi með hliðsjón af þeim orðum sem fallið hafa t.d. frá þingmönnum jafnaðarmanna sem hafa talað margir í þessu máli. Ég dæmi það einnig út frá þeim orðum sem fallið hafa frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem talaði hér fyrr í kvöld í þessu máli og ég dæmi það einnig frá þeim tveimur stjórnarþingmönnum úr efh.- og viðskn. sem talað hafa í þessu máli. Frammi fyrir þessu geri ég ráð fyrir því að staðan geti verið þannig að ráðherrann hrökkvi við, að hann sé kannski bara að missa þetta allt saman út úr höndunum á sér og það er það sérkennilega við kúgun meirihlutavaldsins sem er aðalvandi þingræðisins á Íslandi, að ráðherrarnir vilja ráða málunum í einstökum atriðum.

Í þingum grannlanda okkar á Norðurlöndum, t.d. í Noregi, Danmörku og einnig Svíþjóð er það þannig að þingin ná samstöðu um mál, að þingin leiða mál til lykta. Ég segi í þessu máli: Það er einstakt tækifæri til þess að leiða þetta mál til lykta og ég tel að lausnin í því eigi ekki að felast í því að menn svæfi málið. Ég vil sjá að menn takist eðlilega á um málin með rökum í umræðum í þessari stofnun og kanni hvaða leið er til. Þá vil ég leyfa mér að spyrja hv. þm. Gunnlaug M. Sigmundsson sem hér talaði í kvöld: Hvað sér hann fyrir sér sem hugsanlega bestu leiðina í þessu máli? Ég er algerlega sannfærður um að þeir þingmenn aðrir sem hafa talað með gagnrýnum hætti um þetta frv. eru tilbúnir til að hlýða á þær hugmyndir sem hann kann að hafa, hv. þm., og einnig hv. þm. Pétur H. Blöndal, í þessu máli.

Ég held að þetta mál, eins og hv. þm. Ágúst Einarsson lýsti því, sé orðið til upp úr dálitlum hrossakaupum, að menn séu kannski hér fyrst og fremst að hagræða valdapóstum frekar en að menn hafi hugsað sér að hagræða efni málsins. Ég ætla ekkert að vera með getsakir hliðstæðar þeim sem fram komu hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni í þessum efnum. Ég hef ekki vit á þessu valdakerfi satt að segja eins og hv. þm. Ágúst Einarsson virtist hafa. Hann virtist satt að segja kunna þetta kerfi alveg ótrúlega vel og ég dáðist að því hvað hann virtist hafa það á valdi sínu. (Gripið fram í: Hann þekkir sitt ...) Hann þekkir sitt heimafólk, enda sagði hann sjálfur að hann hefði verið í stjórnum eiginlega allra svona samtaka sem þarna koma að máli þannig að það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt við það, en ég játa það að hann tekur mér langt fram í þeim fræðum. Það væri fróðlegt að vita í umræðunni hvort eitthvað mætti hugsanlega gera, eða segja eða stuðla að í áframhaldandi meðferð málsins sem gæti orðið til þess að leiða annan þingvilja í ljós.

Ég hlýddi á ræðu hv. þm. Gunnlaugs M. Sigmundssonar og ég segi alveg eins og er að mér fannst þar margt athyglisvert. Mér fannst sérstaklega athyglisvert að hann leiddi að því eiginlega alveg óyggjandi rök að mér fannst, en það getur auðvitað verið misskilningur, en mér fannst það vera trúverðugt, að þessi banki gæti ekki lifað mjög lengi, að þessi fjárfestingarbanki gæti ekki lifað mjög lengi. Hann talaði um rúmlega hálfan áratug eða svo og hann studdi það margvíslegum rökum. Hann talaði um að hér væri að ræða um afturhvarf aftur í tímann, 15 ára aftur í tímann og hann minntist þeirra sælu daga þegar menn mótmæltu lokun mjólkurbúða sem sumir menn hér í salnum, án þess að ég fari nánar út í það, gætu farið mjög ítarlega yfir og kallaði þetta mjólkurbúðastefnuna sem hér væri uppi. Ég held að ég átti mig á því hvað hv. þm. var að segja með þessu. Hann var að segja að verið væri að reyna að loka tiltekinn hluta lánastarfseminnar í landinu inni í ákveðinni tegund af búð, í þessu tilviki fjárfestingarlánabúð sem hann líkir við mjólkurbúðirnar eins og þær voru í gamla daga. Þó að ég geti ekki sagt að ég sé sérfróður í þessum málum þá hygg ég að það sé nokkuð til í því að þessi almenni peningamarkaður, viðskiptabankakerfið, þetta þjónustukerfi peningamála yfirleitt, þurfi að vera samþætt og það eigi ekki að vera þannig að menn hólfi peningana af til þess að sinna tilteknum afmörkuðum verkefnum, afmörkuðum atvinnugreinum, afmörkuðum hópum heldur eigi að reyna að láta fjármunina vinna þannig að þar hjálpist áherslurnar að eins og kostur er nema þegar um það er að ræða að tekin sé lagaleg ákvörðun um eitthvað allt annað eins og nýsköpunarsjóð eða áhættulánasjóð sem hv. þm. Pétur Blöndal kallar skrýtna starfsemi. Hann segir að hann kannist ekki við það að opinberir starfsmenn geti stundað mikla nýsköpun, en þá finnst mér nú illa fjarri góðu gamni á þessu kvöldi hv. 17. þm. Reykv. sem gæti frætt okkur eitt og annað um opinbera starfsmenn þannig að mér þótti það athyglisvert sem hv. þm. þarna sagði. Er hann þá að segja að eðlilegt væri að þetta væri þarna tekið inn í þessa banka, þ.e. viðskiptabankana? Og í framhaldi af því, af því að hann talaði ekki í viðskiptamálinu, ég held að hann hafi ekki talað í viðskiptabankamálinu, þá vildi ég inna hann eftir því hvernig hann gæti séð fyrir sér viðskiptabankamálin þróast líka vegna þess að það skiptir einnig máli í þessu samhengi hvort hann er að horfa á það að þessir tveir ríkisbankar verði gerðir að hlutafélögum eins og ætlast er til eða hvort hann er með eitthvað annað í huga.

Ég held að það sé líka nauðsynlegt að rifja upp að við stöndum núna frammi fyrir býsna miklum tíðindum í okkar efnahags- og atvinnulífi. Sérstaklega eru það tíðindi vegna þess að auðvitað verðum við stöðugt með skýrari hætti greinilegur hluti af alþjóðlegu umhverfi og við verðum, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að reyna að laga okkur einhvern veginn að því. Ég get ímyndað mér það að ef við hefðum verið að tala t.d. um þessa fjárfestingarlánasjóði fyrir 15 árum þá hefðu menn nálgast þá kannski svipað og er í þessu frv. Þetta segi ég vegna þess að ég var hér fyrir 15 árum og ég man þessa tíma. Ég held líka að ef að menn hefðu verið að fjalla um þessa hluti fyrir 10 eða 15 árum, þá höfðu menn talið eðlilegt að einhverjir fulltrúar atvinnuveganna sem svo eru kallaðir t.d. stýrðu þessum nýsköpunarsjóði. Nú er það auðvitað bersýnilega fornöld vegna þess að atvinnuþróunin er ekki þannig að hún eigi sér stað í hólfum hún. Hún spyr ekki um tilteknar ,,addressur`` heldur getur hana borið hvarvetna niður. (PHB: Er þingmaðurinn orðinn frjálshyggjumaður?) Þingmaðurinn hefur aldrei verið frjálshyggjumaður í þeim skilningi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal þekkir nú vel og er örugglega minni frjálshyggjumaður en hv. þm. Pétur Blöndal er jafnaðarmaður svo að ég vitni til okkar umræðna á heimspekilegum grunni hér fyrr á þessu ári. Það er ekki það sem hér er um að ræða. Hins vegar eru hlutirnir þannig og það er sérstaklega brýnt fyrir sósíalista, það er sérstaklega brýnt fyrir vinstri menn eða jafnaðarmenn að menn horfist í augu við hlutina eins og þeir eru og að menn búi ekki um sig innan einhverra múra sem eru löngu, löngu hrundir. Menn verða að horfast í augu við veruleikann eins og hann er. (Gripið fram í.) Til dæmis.

Eitt af því sem er t.d. athyglisvert sem hv. þm. fór yfir og ég gæti farið um mörgum orðum vegna þess að ég hef aðeins verið að lesa pappíra um þessa hluti nú um nokkurt skeið og það bendir margt til þess, er að þessi, mér liggur við að segja steypubundna viðskiptategund, húsbundna viðskiptategund sem bankakerfið hefur verið að mörgu leyti, muni hverfa vegna þess að fleiri menn muni læra á tölvur en hv. þm. Pétur Blöndal og geta unnið þessa hluti heima hjá sér og aldrei þurft að koma í banka en þó átt mjög mikil viðskipti við banka af einhverju tagi. Mér finnst að þær ákvarðanir sem verið er að taka eða gera tillögu um að taka í þessum frv. hæstv. ráðherra miðist við tímann áður en tölvurnar voru fundnar upp sem almenningseign. Það má segja að hæstv. ráðherra sé svona á SKÝRR-stiginu en ekki því stigi sem hv. þm. Pétur Blöndal og fleiri snillingar eru á sem hafa flutt hér tillögur um að hvert einasta skólabarn geti setið við tölvu í klukkutíma á dag eða svo.

Ég held með öðrum orðum og það vil ég segja líka og taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að ef við reynum að múra þessi kerfi inni á forsendum gærdagsins þá hrynji þau og þá gerist það að þjóðin tapi peningunum sínum og geti a.m.k. ekki breytt þeim í þann kraft í framleiðslu- og verðmætasköpun sem þarf að vera til staðar. Það er mín skoðun og ég óttast að þær hugmyndir sem hér eru uppi séu fyrst og fremst tilkomnar vegna þess að menn hafi gefist upp við að ná þeim markmiðum sem við eigum að vinna að. Ég tel t.d. og er alveg sannfærður um það að hæstv. viðskrh. vill vel í málinu, að hann vill leggja sig fram, hann vill vanda sig. Það er engin spurning um það. Hann vill ná fram hagræðingu. Hann vill tryggja það að peningarnir skili sem mestum arði fyrir þjóðarbúið þannig að fyrirtækið geti borgað betri laun. Ég er viss um það. En hæstv. viðskrh. er hins vegar fangi aðstæðna sem hann á mjög erfitt með að brjótast út úr, fangi aðstæðna sem t.d. gera þá kröfu til hans að hann verji hluta kerfisins, helst óbreytt eins og það er. Ég gáði af vissum ástæðum hver væri hér að baki mér því að þar hefur stundum setið maður sem hefur komið við sögu Búnaðarbankans. Mér hefur dálítið fundist að í þessum málum öllum væru menn að reyna að semja um það að allir eins og héldu því sem þeir hafa haldið og þá er ekki hægt að gera neitt í þessu máli. Mér finnst dálítið að skynsemin sé í fjötrum vanans í þessu máli og t.d. að, ég segi það alveg eins og það er, mér finnst eins og Búnaðarbankinn ráði ákaflega miklu í þessu jukki eins og það lítur út, með leyfi hæstv. forseta. (Gripið fram í.) Í hinu málinu og þar af leiðandi í málinu í heild. En það er gott hjá hæstv. ráðherra að kalla fram í: ,,Ekki þessu``, því að þar með hjálpaði hann mér dálítið við að þoka þessu máli áfram því að hann þekkir það örugglega betur en ég hvernig það er að glíma við Búnaðarbankann. Það er örugglega ekkert grín og það þekkja því miður margir viðskiptamenn þess banka sem síst skyldi, bæði á landsbyggð og í þéttbýli.

Þetta vildi ég segja, herra forseti, og segja líka um leið við hv. þm. Pétur Blöndal sem er alltaf kallandi hérna fram í sem betur fer og nefna það í leiðinni, hæstv. forseti, að það er rétt hjá honum að hér eiga menn ekki að stunda umræður sem byggjast á því að ,,pólarísera``. Það er alveg rétt hjá honum. Hann á heldur ekki að gera það. Það á að leyfa hinni frjálsu skynsemi að njóta sín í þinginu og komast að niðurstöðu. Um hvað? Um það sem má verða þjóðinni fyrir bestu því að að hérna erum við kosin --- til hvers? Til hvers erum við kosin hingað? Til þess að láta gott af okkur leiða eins og það heitir á afskaplega hversdagslegu íslensku máli og einskis annars en að láta gott af okkur leiða. Þess vegna, herra forseti, reynir ánægjulega á Alþingi og hinn lýðræðislega nýsköpunarkraft í þessari stofnun í framhaldi af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram.

Ég ætla þá aðeins að víkja, á þessum mínútum sem ég á eftir, að þessum nýsköpunarsjóði og segja að ég er heldur ánægður með að menn skuli reyna að taka á því máli. Ég viðurkenni að á því eru margir gallar og mér finnst aðalgallinn vera sá að það á að láta gamla hagsmunasamtakakerfið stjórna þessum sjóði. Í öðru lagi er gallinn við frv. eins og það er, að það eru engir peningar í því, það eru engir nýir peningar í því. Ég er afskaplega mikið tilbúinn til þess að hlusta á gagnrýni um það sem við alþýðubandalagsmenn flytjum. En ég verð þó að segja eins og er að ég held að 19. mál þingsins um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð sé betra en þetta frv. af þeim tveimur ástæðum að þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir peningum, dálitlum peningum, ekki miklum að vísu, en í öðru lagi er gert ráð fyrir því að skipað verði í stjórnina á mikið breiðari forsendum, þ.e. þeim að forsrh. skipi stjórnina og að þeir sem eru í stjórninni eigi að hafa þekkingu á uppbyggingu atvinnu- og efnahagsmála. Ég tel að þar séu ágætar hugmyndir sem ég fer fram á að hv. þingnefnd skoði vel.

Ég vil segja það líka, herra forseti, að þessu frv. okkar alþýðubandalagsmanna um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð var vísað til iðnn. og ég hugsa að hæstv. ráðherra vilji vísa þessum Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins til efh.- og viðskn. Ég hefði viljað fara fram á það, hæstv. forseti, að frv. okkar alþýðubandalagsmanna færi þangað líka, að það yrði tekið frá iðnn. þannig að þau yrðu meðhöndluð í sömu nefndinni. Ég held að það sé heppilegt að hafa það þannig. Næsta mál á dagskrá, herra forseti, er Lánasjóður landbúnaðarins. Ég geri ráð fyrir því að það komi tillaga um að vísa því máli til hv. landbn. Ég vil segja að ég er á móti því. Ég vil að sá sjóður fari til hv. efh.- og viðskn. Hún er vel mönnuð mannkosta-, hæfileika- og drengskaparmönnum eins og hv. þm. Geir H. Haarde hefur rakið svo skilmerkilega í þessum umræðum.