Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 22:03:29 (4478)

1997-03-13 22:03:29# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[22:03]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það getur vel verið að ég lifi í einhverri allt annarri veröld en hæstv. iðnrh. en ég hef ekki orðið var við þetta. Stöku loforð eru að komast í uppfyllingu á miðju kjörtímabili en ég fullyrði að allur obbi þeirra er enn óuppfylltur og svo mun verða vegna þess að flest þeirra er einfaldlega ekki hægt að uppfylla. Þau voru svo yfirdrifin.

Hins vegar kemur hæstv. iðnrh. og eiginlega skorar á mig að hefja hér umræður um kosningaloforð framsóknarmanna. Illt er að eggja óbilgjarnan. Það var einvörðungu af samúð og samhygð með Framsfl. og öðrum félögum mínum í þessum þingsal að ég hef nú látið af þeim ræðuflutningi sem ég iðkaði um tveggja ára skeið sem fólst í því að rifja upp þessi kosningaloforð. En ef hæstv. ráðherrar óska eftir því að ég taki það upp aftur, þá er ég til í það. (Gripið fram í: Geymdu það til mánudags.)