Lánasjóður landbúnaðarins

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 22:29:22 (4486)

1997-03-13 22:29:22# 121. lþ. 90.5 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[22:29]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Í umræðum hér um bankana, fjárfestingarbanka og nýsköpunarsjóð hefur mönnum orðið mjög tíðrætt um svokölluð helmingaskipti Sjálfstfl. og Framsfl. og þarf það út af fyrir sig ekki að koma á óvart því að þessi frv. endurspegla frekar en flest annað þessi raunverulegu helmingaskipti og valdahlutföll í samfélaginu. Og líklega er það þetta frv., frv. til laga um Lánasjóð landbúnaðarins, sem gengur hvað lengst á þessu sviði því það er alveg ljóst að lengra varð ekki komist í pólitískri málamiðlun og er því ætlunin að Lánasjóður landbúnaðarins heyri áfram undir landbrh. Saga ríkisrekins fjármagnsmarkaðar er vörðuð bautasteinum pólitískrar spillingar. Og það er alveg ljóst að það á áfram að halda á þeirri braut með þeim sjóði sem hér er verið að búa til.

[22:30]

Því hljótum við að spyrja okkur eftirfarandi spurningar þegar við förum yfir frv. eins og það sem hér liggur fyrir: Hvers vegna er landbúnaðinum líkt og áður ætíð ætlað að standa utan við þann fjármagnsmarkað eða fjármagnsaðgang sem aðrar atvinnugreinar geta leitað til? Hvers vegna er landbúnaðinum ætíð haldið utan við aðrar greinar? Landbúnaðurinn er líkt og einhvers konar hreppsómagi. Það má líkja honum við hreppsómaga. Við hljótum að spyrja hæstv. landbrh. hvers vegna þessi sjóður er ekki settur undir fjárfestingarbanka líkt og aðrir sjóðir atvinnuveganna. Það hlýtur að vera grundvallarspurning í þessu máli og það hlýtur að vera spurning hvenær landbúnaðurinn fær að starfa líkt og aðrar greinar í þessu landi. Hvers vegna þarf hann ætíð að sitja á einhverjum óæðri bás?

Önnur spurning sem við hljótum að velta fyrir okkur er hvers konar sjóður hér er á ferðinni. Jú, hér á ferðinni sjóður sem er fjármagnaður með skattlagningu bænda, fjármagnaður með skattlagningu sem síðan er notuð til að veita fjárfestingarlán á niðurgreiddum vöxtum. Við hljótum því að spyrja hvaða nauðsyn sé á þessu. Hver eru rökin fyrir þessu? Hver eru rökin fyrir því að við skulum vera með niðurgreidda vexti í fjárfestingarlánasjóði í grein þar sem offjárfesting er fyrir? Það hlýtur að vera grundvallarspurning hver þörfin sé á því að vera með sérstakan fjárfestingarlánasjóð með niðurgreiddum vöxtum í grein þar sem fyrir er offjárfesting. Hér er á ferðinni forræðishyggja í anda liðins tíma, forræðishyggja sem virðist koma aftur og aftur í hvert sinn sem Framsfl. er falið það verkefni að koma á nýrri skipan í hverju máli sem honum er falið.

Virðulegi forseti. Ég get greint frá því að við lestur á frv. kannaði ég sérstaklega hjá starfsmönnum þingsins hvort ekki vantaði eitthvað inn í þetta frv., hvort hér væri allt á ferðinni sem hæstv. landbrh. ætlaði að leggja fram. Eftir könnun reyndist svo vera. Það eru ekki frekari skýringar á þessu frv. en sem greinir hér í athugasemdunum við þetta lagafrv., þ.e. á um það bil hálfri síðu þar sem markmið frv. koma fram. Síðunni er meira og minna eytt í að greina frá því hverjir sátu í nefndinni og við hverja nefndin talaði. Það er að finna einar þrjár, fjórar línur um hvert markmið sjóðsins er, annað ekki. Fátæklegra getur það ekki verið. Það kemur ekki einu sinni fram í frv. eða greinargerð með því hvert eigið fé sjóðsins er. Það kemur ekki einu sinni fram hversu stór sjóður hér er á ferðinni. Í raun og veru kemur bókstaflega ekkert fram, ekki nokkur skapaður hlutur enda er þetta frv. þannig úr garði gert að ég á erfitt með að sjá að hv. þm. Sjálfstfl. láti þetta rúlla í gegnum þingið án athugasemda. Þó má finna ýmislegt spaugilegt í þeim fáu línum sem fjalla um hvert markmiðið sé. Það verður ekki hjá því komist að benda á setningu í þessari litlu greinargerð þar sem segir að ætlunin hafi verið að undirbúa lagafrumvarp um sjálfstæðan og óháðan lánasjóð til að sinna þörfum landbúnaðarins og um leið taka yfir Stofnlánadeild landbúnaðarins, sjálfstæðan og óháðan lánasjóð.

3. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Landbúnaðarráðherra skipar fimm menn í stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins til fjögurra ára í senn.`` Þ.e. þennan sjálfstæða, óháða lánasjóð landbúnaðarins. ,,Bændasamtök Íslands skulu tilnefna tvo menn í stjórnina en þrír skulu skipaðir af landbúnaðarráðherra án tilnefningar.``

Ekki kemur reyndar fram hvort þeir þurfi að vera úr Þingeyjarsýslunni. (Landbrh.: Það væri nú ekki verra.) Að bera það fram hér, virðulegi forseti, að hér sé á ferðinni sjálfstæður, óháður lánasjóður sem heyri undir landbrh., sjóður sem er fjármagnaður með skattlagningu á greininni, þ.e. tilfærslur frá bændum til einhverra vildarvina þeirra sem ráða ferðinni í þessum sjóði. Hér er ekki verið að gera neitt annað, virðulegi forseti, en að viðhalda því gamla kerfi að núverandi yfirstjórn landbúnaðarmála hafi áfram með það að gera hverjir arki í þeirri skrúðgöngu sem bændur hafa þurft að arka núna um langt skeið, göngunni sem hefur leitt til þess að bændur hafa sennilega aldrei staðið frammi fyrir verri vandamálum en einmitt nú. Þessu kerfi á að viðhalda, virðulegi forseti, með þessu frv. og menn virðast ekki sjá neinar aðrar leiðir út úr þessu en að búa til nýjan lánasjóð, Lánasjóð landbúnaðarins, skipaðan fimm mönnum af hæstv. landbrh. Mér virðist sem hér sé enn á ferðinni ein framsóknarlausnin sem er nú kannski ekki vænleg til árangurs í nútímaatvinnurekstri frekar en í fortíðinni.

Herra forseti. Það er nú víða að finna broslegri hluti en að þetta sé sjálfstæður og óháður lánasjóður, því hér segir í greinargerðinni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Markmiðið var að aðlaga reksturinn breyttum tímum, endurskoða sjóðagjöld og útlánavexti, tryggja lágmarksrekstrarkostnað og viðhalda sterkri eiginfjárstöðu.``

Með öðrum orðum: Markmiðið með því ,,biksi`` sem hér er á ferðinni er að aðlaga sjóðina að nýjum tímum og það eru hinir nýju tímar, virðulegi forseti, sem Framsfl. boðar.

Um einstakar greinar frv., virðulegi forseti, er kannski lítið að segja. Grundvallaratriðið er að hér er á ferðinni forræðishyggja. Hér er á ferðinni það að tryggja á að landbúnaðurinn verði áfram fastur í þeim fjötrum sem hann hefur verið um langt skeið, fjötrum helmingaskiptanna þar sem Framsfl. ræður ferðinni. Frv. er aðeins ætlað að tryggja að völdin í þessari grein haldist áfram þar sem þau hafa verið.

Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. vakti athygli á því áðan að í 6. gr. frv. þar sem fjallað er um hverjar tekjur Lánasjóðs landbúnaðarins skuli vera, kemur fram að þær skuli m.a. vera 1,1% af stofni búnaðargjalds. En það er nú svo að enginn veit hvað þetta búnaðargjald er. Það er hvergi til í núgildandi lögum og því er erfitt að fjalla frekar um það hér. Hæstv. landbrh. gerði líka grein fyrir því að frv. um þetta búnaðargjald væri á leiðinni. Þar sem ég sit í hv. landbn. mun ég fá tækifæri til að fjalla um það gjald í nefndinni.

Í 11. gr. frv., virðulegi forseti, ef frv. hægt er að kalla, segir m.a., ja, segir í raun og veru ekki annað en að það skuli fara vel með peninga. Í athugasemdum við frv. segir, með leyfi forseta:

,,Eitt af meginmarkmiðunum er að viðhalda sterkri eiginfjárstöðu Lánasjóðs landbúnaðarins þrátt fyrir brottfall neytendagjalds.``

Í raun og veru segir ekkert annað en að í þessum sjóði skuli fara vel með peninga. Og það eru þó talsverð tíðindi, virðulegi forseti, þegar þessi grein samfélagsins er höfð undir.

Reyndar er það svo, virðulegi forseti, að það er kannski óskaplega lítið til viðbótar um þetta að segja. Þetta frv. er hvorki fugl né fiskur. Það er ekki ætlað til annars en að viðhalda óbreyttu valdakerfi í landbúnaðargeiranum og verði það að lögum þá tekst það. Hér er ekki á ferðinni neitt nýtt. Hér er á ferðinni að allt skuli áfram vera óbreytt í þessum geira samfélagsins, að þessi atvinnugrein skuli ekki fá að vaxa og dafna af eigin verðleikum.

Litlu er við þetta að bæta, virðulegi forseti. Þingflokkur jafnaðarmanna mun leggjast eindregið gegn þessu frv.