Svör við fyrirspurn

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:08:22 (4499)

1997-03-17 15:08:22# 121. lþ. 91.92 fundur 256#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:08]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. gerir mikið mál úr svari sem er 3. liður í svari á þskj. 744, en í svarinu segir að það liggi ekki fyrir ákveðnar upplýsingar. Nú er það svo að þegar ráðherrar svara hv. þingmönnum, þá er ávallt gerð tilraun til þess að svara því sem allra best og eins og upplýsingar liggja fyrir um. En því miður er það stundum þannig að ekki er á þeirri stundu sem svarið berst hægt að svara upplýsingum af því að þær liggja ekki fyrir.

Ég skal hins vegar af þessu tilefni bera þau boð til hæstv. forsrh. að þegar þær upplýsingar liggja fyrir, þá verði þeim komið til þingsins. Það kann nefnilega að vera þannig vegna bókhaldsreglna að þessar upplýsingar liggi ekki fyrir fyrr en eftir tiltekinn tíma. Ég veit að hv. þm. sem er fyrrv. ráðherra þekkir það að upplýsingar á borð við þessar þurfa ekki að berast endanlega til ráðuneyta eða stofnana jafnóðum. Til þess að svara þessu nákvæmlega hefði þá þurft að spyrja hverja einustu stofnun og hvert einasta opinbert fyrirtæki um hve mikið þeir hefðu greitt vegna þessarar ráðstefnu. Ég tel að svarið sé út af fyrir sig fullnægjandi því að það segir að þessar upplýsingar liggi ekki fyrir og þess vegna er ekki hægt að svara á þessari stundu. En ég skal koma boðum til forsrh. og væntanlega munu þá upplýsingarnar berast þegar þær liggja fyrir.