Lögræðislög

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 18:08:27 (4554)

1997-03-17 18:08:27# 121. lþ. 91.8 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[18:08]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austurl. segir að hér sé um stjfrv. að ræða en hann tekur fram að framsóknarmenn hafi fyrirvara um það atriði sem ég gerði sérstaklega að umtalsefni í máli mínu áðan, hækkun á sjálfræðisaldrinum. Ég vil fagna því að hv. framsóknarmenn eru ekki búnir að binda sig fyrir fram í þessu máli og við höfum þá tök á því að ræða það efnislega án þess að framsóknarmenn séu fyrir fram búnir að binda sig á niðurstöðu hæstv. dómsmrh. Það vekur þær vonir sem ég lét í ljós hér áðan, herra forseti, að margt bendir til þess að þetta ákvæði um að hækka sjálfræðisaldurinn hafi meiri hluta í þinginu og auðvitað verður að láta á það reyna, annaðhvort í þessu stjfrv. ef það verður afgreitt fyrir vorþing ef tími gefst til þess, þetta er mjög ítarlegt frv. og stór lagabálkur sem þarf að fara yfir, eða þá að við hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir munum knýja á um að frv. okkar verði tekið til atkvæðagreiðslu hér í þinginu.