Útilokun fyrirtækja frá markaði

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 14:45:19 (4657)

1997-03-19 14:45:19# 121. lþ. 93.4 fundur 420. mál: #A útilokun fyrirtækja frá markaði# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:45]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 722 hefur hv. þm. Svavar Gestsson lagt fyrir mig fyrirspurn um útilokun fyrirtækja frá markaði.

Í fyrsta lagi spyr hv. þm.: ,,Telur ráðherra að fyrirtæki hafi heimild til þess samkvæmt samkeppnislögum að útiloka önnur fyrirtæki frá markaði með sérstökum dreifingarsamningum eða hliðstæðum samningum?``

Ef dreifingarsamningar milli fyrirtækja hafa þau áhrif að önnur fyrirtæki eru útilokuð frá markaði þannig að það valdi skaða fyrir samkeppni á viðkomandi markaði, t.d. ef heildsali getur ekki lengur vegna ákvæða í samningi selt vöru sína til þeirra sem stunda smásölu á tilteknum markaði, yrði almennt að líta svo á að slíkur samningur fæli í sér samkeppnishömlur og færi því gegn ákvæðum samkeppnislaga. Af þessu má ráða að lögmæti dreifingarsamninga út frá ákvæðum samkeppnislaga ræðst af þeim áhrifum sem þeir hafa á viðkomandi markaði.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Eru þess dæmi að slíkir samningar hafi verið gerðir og hefur farið fram sérstök rannsókn á þeim?``

Samkvæmt upplýsingum Samkeppnisstofnunar hefur hún ekki fengið erindi um dreifingarsamninga sem hafa haft þau áhrif að fyrirtæki hafi verið útilokuð frá markaði. Hins vegar hefur í einu máli verið fjallað um samninga sem hindruðu heildsala í að selja vöru sína í tilteknum verslunum. Enn fremur tók samkeppnisráð ákvörðun vegna dreifingarsamnings Steinullarverksmiðjunnar hf. og Krókháls hf. sem útilokaði tiltekið smásölufyrirtæki frá því að dreifa vörum Steinullarverksmiðjunnar. Ákvörðunin fólst í því að lögð var söluskylda á Steinullarverkmsiðjuna. Það var niðurstaða samkeppnisráðs.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: ,,Hafi slíkir samningar verið gerðir, hvaða fyrirtæki hafa gert þá og hver hafa afskipti Samkeppnisstofnunar verið af þeim?``

Eins og fram kom í svari mínu við annarri spurningu hv. þm. er Samkeppnisstofnun ekki kunnugt um dreifingarsamninga sem hafa haft þau áhrif að fyrirtæki hafi með öllu útilokast frá viðkomandi markaði. Hins vegar var í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 6/1995, vegna kvörtunar frá fyrirtækinu Eddafoto, fjallað um dreifingarsamninga Pennans sf. við Hagkaup, Kaupfélag Skagfirðinga, Kaupfélag Húnvetninga og Kaupfélag Árnesinga. Taldi Eddafoto að umræddir samningar sem útilokuðu fyrirtækið frá því að selja vöru sína í umrædda verslun fælu í sér markaðshömlur sem hefðu verulega slæm áhrif á stöðu fyrirtækisins. Samkeppnisráð taldi að jákvæð áhrif samninganna vægju upp þau neikvæðu. Jafnframt var á það bent að Eddafoto hefði ýmsa valkosti aðra en að koma vöru sinni á markað og því leit ráðið svo á að í samningunum fælust óverulegar aðgangshindranir og voru þeir ekki taldir brjóta í bága við samkeppnislög. Ákvörðun samkeppnisráðs var staðfest með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 9/1995.

Mál Steinullarverksmiðjunnar er mál nr. 36/1995, en á það fyrirtæki var sett almenn söluskylda vegna þess að talið var að það bryti í bága við anda samkeppnislaga.

Í fjórða lagi spyr hv. þm.: ,,Hyggst Samkeppnisstofnun reyna að koma í veg fyrir að slíkir samningar verði gerðir og telur stofnunin að hún hafi lagaheimildir til að koma í veg fyrir þá?``

Samkeppnisstofnun tekur fram að ef hún verður þess áskynja að í gildi séu samningar sem útiloka fyrirtæki frá viðkomandi markaði og valda með því skaða fyrir samkeppni, mun stofnunin grípa til aðgerða til þess að eyða slíkum samkeppnishömlum. Samkeppnisstofnun telur að samkeppnislög feli í sér fullnægjandi heimildir til slíkra aðgerða.