Gerð björgunarsamninga

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:31:36 (4674)

1997-03-19 15:31:36# 121. lþ. 93.8 fundur 460. mál: #A gerð björgunarsamninga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:31]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Vissulega eigum við að fara að alþjóðasamningum og lögum. Samkvæmt íslenskum siglingalögum er beinlínis gert ráð fyrir björgunarsamningum. Það var leitað eftir því við Landhelgisgæsluna að gerður yrði ákveðinn samningur til þess að bjarga skipinu áður en það var komið í yfirvofandi hættu og menn eru sammála um það sem þekkja til að ef það hefði verið gert, þá hefði verið hægt að komast hjá ýmsu af því sem við stöndum frammi fyrir nú.

Hefði Landhelgisgæslan ekki gefið þau svör sem hún gaf, þá hefði sjálfsagt verið leitað frekar eftir slíkum samningi. En eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh. komu ákaflega neikvæð svör við fyrirspurn til Eimskipafélagsins eða fulltrúa hinnar þýsku útgerðar.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að það skiptir verulegum fjárhæðum hvenær gripið er inn í björgun. Þess vegna tel ég að ekki megi skipta máli hvað björgunin kosti eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh. Það var ekki fyrir séð hvað það mundi kosta að bjarga skipverjum. Eigum við að láta það ráða ferðinni þegar skip eru í nauðum stödd? Mér finnst ekki hægt að hugsa þessi mál þannig. Það er gert ráð fyrir því í lögum að björgunarsamningar séu gerðir og mér finnst við ekki geta látið það tefja framgang mála að ekki sé hægt að reikna það út hver kostnaðurinn sé. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til að hnykkja á því að farið verði út í björgunaraðgerðir um leið og menn óska eftir því án þess að draga það að finna út hversu mikið það muni kosta.