Verkmenntun

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:56:36 (4684)

1997-03-19 15:56:36# 121. lþ. 93.10 fundur 428. mál: #A verkmenntun# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:56]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Fyrri spurningin er: ,,Telur ráðherra að þarfir verkmenntagreina í námi til kennararéttinda í uppeldis- og kennslufræðum í framhaldsskólum séu vanmetnar? Ef svo er, til hvaða úrbóta hyggst ráðherra grípa?`` Svarið er á þessa leið: Ég treysti mér ekki til að fullyrða um hvort þarfir verkmenntagreina í kennsluréttindanámi séu vanmetnar, en hitt er víst að ávallt má bæta menntun verkmenntakennara með hliðsjón af sérkennum hverrar starfsgreinar fyrir sig og þeim kröfum sem gerðar eru til náms og kennslu á hverjum tíma. Framhaldsskólar er bjóða upp á starfsnám þurfa að hafa yfir að ráða kennurum sem eru bæði góðir fagmenn og geta um leið miðlað þekkingu sinni áreynslulaust þannig að hún skili sér sem best til nemenda. Hér hafa verkmenntagreinar mikla sérstöðu og því er nauðsynlegt að hlúa að alhliða menntun og færni verkmenntakennara, bæði í upphafi og í endurmenntun.

Nú er unnið að því að undirbúa stofnun uppeldisháskóla. Á síðara stigi þeirrar vinnu er líklegt að fjallað verði um inntak kennaramenntunar og eðlilegt að þarfir verkmenntagreina í námi til kennararéttinda í uppeldis- og kennslufræðum komi til umfjöllunar í því sambandi.

Einnig má benda á að samkvæmt lögum nr. 80/1996 getur menntmrh. gert framhaldsskóla eða deild í framhaldsskóla að kjarnaskóla fyrir tiltekna iðngreinaflokka og kemur vel til greina að þörfum verkmenntakennara fyrir endurmenntun verði að einhverju leyti sinnt í slíkum skólum.

Síðari spurningin er á þessa leið: ,,Mun ráðherra beita sér fyrir því að tæknimennt verði gerð að skyldunámsgrein í efstu bekkjum grunnskóla?``

Ég verð að viðurkenna að fyrir mér er ekki alveg ljóst hvað fyrirspyrjandi á við með hugtakinu ,,tæknimennt``. Hægt er að fella mjög ólík viðfangsefni undir þetta hugtak og því erfitt að tala um tæknimenntir sem eina námsgrein. Í endurskoðun námskráa fyrir grunn- og framhaldsskóla, sem nú stendur yfir, verður lögð sérstök áhersla á tækni, bæði með því að gefa öllum nemendum kost á að kynnast tækni, ekki síst tölvutækninni, af eigin raun í námi og sem sérstakt viðfangsefni. Sérstakur hópur fæst við tæknimenntun og fræðslumál í þessari endurskoðun.

Þá hafa á undanförnum árum verið gerðar tilraunir með kennslu á tæknisviði og hefur ráðuneytið styrkt slík verkefni. Verkefni sem fela í sér tæknilegar þrautir eru vel til þess fallin að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn. Þær gefa nemendum einnig tækifæri til að uppgötva nýja hluti eða endurskapa hluti og fyrirbæri úr verkefni. Hlúa ber að tilraunum á þessu sviði og huga að því hvort tækni- og nýsköpun skuli gerð að föstum námsþætti í starfi grunnskóla.