Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 14:55:35 (4739)

1997-03-20 14:55:35# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[14:55]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Með þessu frv. fer hæstv. iðnrh. fram á heimild Alþingis til að semja um byggingu og rekstur álvers á Grundartanga. En að því hefur verið unnið kappsamlega að undanförnu. Hér er þá komið enn eitt dæmið og staðfesting þess að stóriðjustefna stjórnvalda er síður en svo á undanhaldi. Áhersla á mengandi stóriðju er áhersluatriði númer eitt, tvö og þrjú. Til þess að auka mengandi stóriðju hér á landi eru stjórnvöld tilbúin til að verja miklum fjármunum og fyrirhöfn og þau eru reiðubúin til að slá af kröfum um mengunarvarnir og það er það alvarlegasta í málinu.

Það sem hér um ræðir. þ.e. álver á Grundartanga, er aðeins einn af þeim kostum sem verið hafa í undirbúningi og athugun síðustu ár og sem hafa fengið byr undir báða vængi nú á síðustu mánuðum. Eftir áralangt þóf og margvíslegar misheppnaðar tilraunir til þess að reka endahnút á samninga við erlend fyrirtæki, jafnvel með formlegum undirskriftum undir eitt og annað sem fæstir skildu nú hvaða þýðingu höfðu, er nú eins og brostið hafi stífla. Stækkun álbræðslu í Straumsvík er staðreynd, stækkun járnblendiverksmiðju á Grundartanga blasir við. Nýtt álver á Grundartanga virðist sömuleiðis vera nálægt ákvörðunarstigi. Fréttir herma að enn sé unnið að samningum um álver á Keilisnesi og undirbúningur að magnesíumverksmiðju á Reykjanesi er á fullri ferð. Öll þessi stóriðja og stóriðjuáform kalla svo á miklar virkjanir, mannvirki og spjöll á hálendinu og með þessu öllu saman er unnið af alefli að aukinni losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Og þar með er unnið gegn þeirri stefnu sem flestar þjóðir heims vilja vinna að, þ.e. að draga svo sem frekast er unnt úr losun slíkra lofttegunda og vinna með því gegn þeim loftslagsbreytingum sem margir vísindamenn og stjórnmálamenn telja eina alvarlegustu ógnun við framtíð mannkyns. Það er mikið áhyggjuefni hversu kæruleysislega íslensk stjórnvöld taka á því máli þrátt fyrir undirskriftir á erlendri grundu um hið gagnstæða. Hér þarf algjörlega að snúa við blaðinu. Það þarf viðhorfsbreytingu og skilning á nauðsyn þess að breyta um stefnu í umhverfis- og atvinnumálum, framtíðarhagsmunir eru í veði.

Kvennalistinn hefur alla tíð verið andsnúin mengandi stóriðju og lagt áherslu á atvinnustefnu sem byggist á hreinu og ómenguðu umhverfi svo og á virkjun hugvits og þekkingar. Möguleikar á þessum sviðum eru miklir þótt mér heyrðist að hv. síðasti ræðumaður þekkti ekki neitt til slíkra möguleika. Þeir eru í raun einstakir í heiminum þegar horft er til íslenskrar náttúru og umhverfis ef við berum gæfu til að ganga ekki nær þeirri auðlind í fyrirhyggjuleysi og sókn eftir stundargróða.

Það má því ljóst vera að þingflokkur Kvennalistans styður ekki þetta frv. um heimild til handa iðnrh. að semja um byggingu og reksturs álvers á Grundartanga. Og sú afstaða hefur raunar komið fram á ýmsum stigum þessa máls.

Í janúar 1996 gerðum við miklar athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum þegar sú skýrsla var til umfjöllunar hjá Skipulagi ríkisins og við gerðum einnig í janúar á þessu ári miklar athugasemdir við tillögur Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi. Og enn má minna á umræðu utan dagskrár hér á Alþingi 28. janúar sl. sem sú sem hér stendur átti frumkvæði að þar sem afstaða okkar og gagnrýnisatriði komu skýrt fram.

[15:00]

Við gagnrýndum vinnubrögð við umhverfismatið og ýmsar fullyrðingar í þeirri skýrslu sem byggjast ekki á nægilegum rannsóknum og sumar reyndar á alls engum rannsóknum. Við bentum sérstaklega á hættuna af loftslagsbreytingum og við bentum á neikvæð áhrif á ímynd landsins og á þann atvinnurekstur sem byggist á hreinu og ómenguðu umhverfi. Við mótmæltum því að í tillögu Hollustuverndar að starfsleyfi væri miðað við allt að 180 þús. tonna álframleiðslu þegar allt væri óljóst um annað en fyrsta áfanga verksmiðjunnar sem miðast við 60 þúsund tonna framleiðslu. Við bentum á nauðsyn þess að setja skilyrði í starfsleyfi um útlit og ytra umhverfi verksmiðjunnar en vitaskuld skiptir mestu ef af framvæmdum og rekstri yrði, að þá væri miðað við bestu þekktar mengunarvarnir og m.a. töldum við og teljum enn að það beri að setja skilyrði um vothreinsun sem er besta ráðið til þess að draga úr mengun af völdum brennisteinstvíoxíðs og flúoríðs.

Í athugasemdum okkar kom fram hörð gagnrýni á stefnu stjórnvalda og hvernig staðið hefði verið að undirbúningi sem allur hefur miðað að því að gera sem minnst úr neikvæðum áhrifum framkvæmda og reksturs á náttúru og umhverfi og við minntum að sjálfsögðu á varúðarregluna sem felst í því að þegar vafi leikur á um áhrif framkvæmda og athafna á náttúru og umhverfi þá ber að túlka þann vafa náttúrunni í hag. Sú hugsun virðist því miður víðs fjarri þeim sem ferðinni ráða.

Í athugasemdum okkar við starfsleyfið bentum við sérstaklega á það sem okkur virtist ljóst af gögnum að engin tilraun hefði verið gerð til þess að meta áhrif stóriðjureksturs á aðra atvinnustarfsemi í nærliggjandi héruðum, svo sem lífræna ræktun, matvælavinnslu og ferðaþjónustu. En það er einmitt sú brotalöm sem í því birtist sem hvað mest hefur sætt gagnrýni á undanförnum vikum og orðið tilefni til margvíslegra andófsaðgerða og m.a. stofnun sérstakra samtaka gegn álveri í Hvafirði eða til stofnunar Samtaka um óspillt land í Hvalfirði eins og þau munu heita.

Sú harða andstaða sem myndast hefur gegn álveri á þessum stað markar nokkur tímamót í þessu efni og er að mínu mati blessunarlega til marks um aukinn skilning á nauðsyn umhverfisverndar og nauðsyn þess að breyta um áherslur í atvinnumálum með tilliti til umhverfissjónarmiða. Viðhorf og sjónarmið eru að breytast í þessum efnum. Fólk er að átta sig á afleiðingum þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið og ég trúi því að þróunin verði áfram á þann veg, hún verði aðeins á einn veg þrátt fyrir mikla eftirfylgni stjórnvalda. Hæstv. iðnrh. vitnaði í sinni ræðu m.a. til skoðanakannana, til stuðnings við sína stefnu en þær skoðanakannanir benda til þess að meiri hluti þjóðarinnar vilji álver og út frá því telur hann sig væntanlega vera að framkvæma vilja þjóðarinnar.

Ég er ekki undrandi á þessum niðurstöðum skoðanakannana miðað við þær áherslur sem hafa verið. Íslensk þjóð hefur verið að kynnast því á undanförnum árum að atvinnuöryggi, sem menn voru farnir að líta á sem sjálfsagðan hlut, er ekki sjálfsagður hlutur. Atvinnuöryggið er brothætt og atvinnuleysisvofan er ekki bara fortíðardraugur heldur þarf að vinna stöðugt að því að halda henni frá en stjórnvöld hafa hins vegar ekki verið ýkja hugmyndarík í þeim efnum og hafa stöðugt hamrað á því sem lykilatriði hvílíkir möguleikar fælust í virkjun þeirrar orku sem í fallvötnum býr og nýtingu hennar sem fyrst og fremst tengist stóriðju. Því hefur verið haldið að almenningi að þar væri bjargræðið og hæstv. iðnrh. telur við hvert tækifæri upp störfin sem skapast við uppbyggingu stóriðju og þannig hefur mönnum nánast verið stillt upp við vegg og stillt frammi fyrir tveimur kostum: Annars vegar hvort þeir styðji það að atvinna verði aukin með uppbyggingu stóriðju eða hins vegar hvort menn vilja að atvinna verði ekki aukin með uppbyggingu stóriðju og fleiri kostir hafa nánast ekki verið í boði.

Það var sama hugsun og viðhorf sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni sem spurði hvernig menn héldu að við værum sett ef ekki hefði komið til álver í Straumsvík. Hann reiknar auðheyrilega ekki með því að við hefðum getað snúið okkur að nokkrum öðrum kostum, bara alls ekki, og það kom fram áfram í máli hans áðan, í þeim orðaskiptum sem áttu sér stað að hann þekkti engin önnur ráð. Þannig er þetta ekki. Og ég er ekki í nokkrum vafa um að allt annað kæmi á daginn ef fólki væri boðið að velja um uppbyggingu fleiri atvinnukosta. Þá yrði mengandi stóriðja ekki efst á blaði. Auðvitað vilja allir aukna atvinnu, enginn neitar því þegar hann er spurður á þann hátt hvort hann vilji stóriðju þegar það er sett upp þannig eins og það séu engir aðrir kostir. Þess vegna koma þessar niðurstöður.

Hitt er svo annað mál að margir sætta sig við stóriðju sem einn þátt í íslensku atvinnulífi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og það er mála sannast að andstaðan gegn fyrirhuguðu álveri í Hvalfirði byggist á mismunandi forsendum sem má skipta í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi eru þeir sem eru andvígir slíkri starfsemi yfirleitt hér á landi. Í öðru lagi þeir sem einkum andmæla staðsetningu álvers í Hvalfirði og telja það minna skaðlegt og betur komið á öðrum stað. Í þriðja hópnum eru svo þeir sem gagnrýna fyrst og fremst málsmeðferð, hvernig staðið var að undirbúningi og tillögugerð og telja kröfum um mengunarvarnir vera áfátt. Umfjöllun umhvn. laut einkum að síðasttöldu atriðunum. Sú umfjöllun var býsna yfirgripsmikil og gagnleg og ætti að geta nýst m.a. við endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum auk þess sem hún skýrir þann þátt þessa máls sem hér er til umræðu fyrir þeim sem um málið þurfa að fjalla.

Ég átti þess því miður ekki kost að taka eins mikinn þátt í þeirri vinnu og ég hefði viljað þar sem ég var utan þings meðan hún fór fram eða svona mestan part, en maður kemur ávallt í manns stað og Birna Sigurjónsdóttir, varaþingkona mín, tók að sjálfsögðu fullan þátt í störfum nefndarinnar og kom öllum gögnum til skila í mínar hendur. Afrakstur allrar þessarar vinnu og umfjöllunar hafa hv. þm. nú fengið í hendur í formi skýrslu á þskj. 796 sem hlýtur að verða nefndarmönnum í hv. iðnn. mikilvæg stoð í þeirri vinnu sem þeirra bíður nú og má segja að hér hafi verið unnin mikil forvinna vegna þess að ég reikna með því að hv. iðnn. hefði beðið um umsögn umhvn. þegar að henni kom að vinna að þessu.

En eins og við mátti búast skildust leiðir nefndarmanna þegar að lokaniðurstöðum kom þrátt fyrir að við séum að ýmsu leyti að mínu mati sammála um gagnrýnisatriði, a.m.k. um mörg þeirra. Þetta er fyrst og fremst spurning um áherslur og hvað menn eru tilbúnir að sætta sig við í þessum efnum. Ég ætla ekki að fara ítarlega út í þessi álit og niðurstöður og mismunandi áherslur. Þær eru handbærar í þessari skýrslu umhvn. Eins og ég hef áður sagt má ljóst vera að þingflokkur Kvennalistans styður ekki þetta frv. Við erum andvígar mengandi stóriðju og höfum verið það alla tíð vegna þess að henni fylgja umhverfisspjöll. Henni fylgir mengun lofts og umhverfis, henni fylgir sjónmengun og landspjöll og við erum andvígar henni vegna þess að hún vinnur gegn öðrum atvinnukostum, öðrum leiðum í þróun atvinnulífs hér á landi. Mengandi stóriðja hefur ómótmælanlega neikvæð áhrif, alveg burt séð frá öllum mengunarvörnum, á þá ímynd hreins og ómengaðs umhverfis sem önnur atvinnustarfsemi byggist á, svo sem ferðaþjónusta, lífræn ræktun og matvælavinnsla. Það er engin spurning að í þeim efnum höfum við sérstöðu. Við höfum enga sérstöðu í heiminum í framleiðslu áls, en við höfum sérstöðu sem við eigum að byggja á og getum byggt á í atvinnulífinu og þar af nefni ég þessa kosti.

Margir telja að þessar atvinnugreinar, ferðaþjónusta, lífræn ræktun og matvælavinnsla, og mengandi stóriðja geti farið saman og ég er ekki að halda því fram að öll ferðaþjónusta, lífræn ræktun og matvælavinnsla leggist af, falli bara niður en stóriðjan hefur sín áhrif. Hún hefur neikvæð áhrif á þróun þessara atvinnugreina. Hún er hinn sterki og yfirgangssami aðili í þeirra sambúð þar sem aftur á móti ferðaþjónusta, lífræn ræktun og matvælavinnsla hefur engin áhrif á álframleiðsluna. Þetta er okkar viðhorf í þessu efni og andstaða okkar við þessa atvinnustefnu sem byggir svo sterklega á uppbyggingu stóriðju, mengandi stóriðju, markast einnig af því að hún getur ekki talist byggðavæn, það væri nú synd að segja það, heldur steypir landinu nánast upp á rönd. Hún hefur í för með sér staðbundna og tímabundna þenslu á vinnumarkaði vegna framkvæmda og gríðarlegan kostnað að baki hverju starfi, meiri kostnað en í nokkurri annarri atvinnugrein og við leggjum þunga áherslu á aðild okkar að alþjóðlegum samningum um varnir gegn mengun.

Á bls. 7 í þeirri skýrslu sem hér hefur verið dreift, í áliti minni hluta nefndarinnar, sem ég undirritaði ásamt hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, eru dregnar saman í stuttu máli niðurstöður okkar. Þær eru síðan ítarlega rökstuddar og ýmislegt fleira reyndar tíundað í framhaldinu. Þar kemur fram sú skoðun okkar að afar illa hafi verið staðið að undirbúningi vegna álbræðslu, það vanti grunnrannsóknir á lífríki og fleiri umhverfisþáttum í Hvalfirði, málsmeðferð hafi verið slæm á flestum stigum undirbúnings. Það er drepið á hlut Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar og þátt umhvrn. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson rakti talsvert áðan. Það kemur fram að tillögurnar taki ekki mið af eðlilegum kröfum í umhverfisvernd. Við gagnrýnum það að starfsleyfi er miðað við þrjá ráðgerða byggingaráfanga og gildistími er mun lengri en hann ætti að vera, mörkin fyrir losun flúoríðs séu of rúm, engin hreinsun ráðgerð á brennisteinstvíoxíði. Það er minnst á aukna losun gróðurhúsalofttegunda sem er gífurlega mikil og aðstöðu Hollustuverndar til eftirlits sem er stórlega ábótavant og fleira er hér tínt til sem ég hef ekki tíma til að rekja nánar. Mörgum finnst kannski rökstuðningur vera of ítarlegur en hér er um mjög mikilvægt mál að ræða sem við verðum að gefa okkur ráðrúm til að skoða vel og vandlega og ég hvet hv. þm. til að gera það svikalaust.