Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 18:28:20 (4783)

1997-03-20 18:28:20# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[18:28]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú kannski aðeins til að undirstrika að það er vissulega rétt hjá hv. þm. að úrskurðurinn felur í sér að töluliður 3 í úrskurði skipulagsstjóra er felldur niður. Hann er felldur út af því og með þeim rökum að ég tel að í öllum þeim 9 liðum sem eru undir tölulið 3 og segir í yfirskrift, með leyfi forseta: ,,Í starfsleyfi verði`` --- ég ætla ekki að lesa upp þá níu töluliði --- að þessi atriði sem á að fjalla um í starfsleyfi komi þar fram en eiga ekki heima í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum og því segir í niðurstöðu ráðuneytisins sem ráðherra hefur síðan undirritað, með leyfi forseta: ,,Því er töluliður 3 í úrskurði skipulagsstjóra felldur brott.`` Það er út af fyrir sig rétt og ég taldi mig skýra það áðan og af hverju. Okkur greinir bara á um það að við tökum á þeim atriðum sem varða verksmiðjuna sem slíka og þann þáttinn sem hér er lagður fyrir til umhverfismats og töldum ekki rétt að taka með í þetta mat á umhverfisáhrifum eða að hinir þættirnir skyldu koma til mats samhliða enda koma þeir sjálfstætt til mats á umhverfisáhrifum hver fyrir sig þegar kemur að þeim framkvæmdum sem slíkum.

Það er alveg skýr og klár skoðun mín í sambandi við kæruferlið að þegar stjórn Hollustuverndar hefur sent ráðherra úrskurð sinn, niðurstöðu sína á þeim kærum og athugasemdum (Forseti hringir.) sem höfðu borist áður og sendir ráðherra síðan tillögu að starfsleyfi og gerir þeim jafnframt sem gerðu athugasemdir til stjórnar Hollustuverndar grein fyrir sínum athugasemdum þá hefjist þetta kæruferli til úrskurðarnefndarinnar.