Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 11:18:07 (4803)

1997-03-21 11:18:07# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[11:18]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessu frv. frá hæstv. heilbrrh. sem hér liggur fyrir og lýsi því strax yfir að ég mun leggja mitt af mörkum til þess að það nái sem fyrst fram að ganga og fái skjóta afgreiðslu í heilbr.- og trn. og tek undir með hv. formanni heilbr.- og trn. fyrr í umræðunni hvað það varðar.

Eitt af störfum mínum áður en ég kom á þing var að kynna réttinn til fæðingarorlofs samkvæmt almannatryggingunum. Ég þekki því vel hvar pottur er brotinn í þeim efnum og tel að verulega mikil réttarbót sé að þessu frv. svo langt sem það nær og ég fagna því, því það var ekki svo sjaldan sem maður stóð frammi fyrir því að sitja með mæðrum sem voru í þeirri aðstöðu sem við þekkjum að vera með fyrirburabörn eða fjölbura og veikindi og eiga ekki meiri rétt en var og er í lögunum nú.

Þar sem ég sé að vilji hæstv. ráðherra er eindreginn til að bæta úr þessu, þá langar mig til að spyrja ráðherrann að hvort hann hyggist koma með frekari réttarbætur og langar mig til að nefna sérstaklega tvennt. Það fyrra er hvort hæstv. ráðherra hyggst breyta ferðareglum Tryggingastofnunar. Þær eru þannig nú að foreldri á aðeins rétt á að fá eina ferð greidda í viku til að heimsækja barn sitt á sjúkrahús. Ég man í fljótu bragði eftir a.m.k. tveimur dæmum um mæður með fyrirbura eða mæður með fjölbura sem bjuggu annars vegar í Keflavík og í hinu dæminu var það einhvers staðar álíka langt frá höfuðborginni því að auðvitað eru ekki allir foreldrar í Reykjavík. Tvíburamóðir sem þurfti að keyra frá Keflavík á hverjum degi til þess að gefa börnunum sínum brjóst uppi á vökudeild og fékk aðeins greidda eina ferð í viku. Þetta er mál sem verður að taka á og ég vonast til að hæstv. ráðherra muni taka á því því þetta er reglugerðaratriði og hægt að leiðrétta með reglugerð. Ég tel mikla þörf á því sérstaklega vegna foreldra sem búa utan Reykjavíkursvæðisins og geta ekki sinnt börnum sínum sem þurfa að vera á vökudeildinni í langan tíma og hafa jafnvel ekki tök á því að flytja búferlum hingað eins og er með marga. Ég held að þetta sé eitt atriði sem virkilega þarf að laga.

Annað sem mig langar til að nefna, og sé að er ekki er tekið á í þessu frv. þó svo að tekið sé á mörgum hlutum, er réttur mæðra sem eru veikar eftir fæðingu. Það er ekki rétturinn til þess að lengja fæðingarorlofið vegna veikinda, er það svo? Ef svo er þá fagna ég því. Eins og lögin eru í dag þá er það svo að móðir sem hefur e.t.v. gengið í gegnum mjög erfiða fæðingu og hefur þess vegna jafnvel verið lengi frá vinnu, hefur ekki átt rétt á lengingu fæðingarorlofs og hefur þurft að taka sjúkradagpeninga. Ég vil gera að umtalsefni smánarlegar sjúkradagpeningagreiðslur úr almannatryggingunum. Þeir sem þurfa að framfæra sig á sjúkradagpeningum fá greiddar 582 kr. á dag sem eru rúmar 17.500 kr. á mánuði og ýmsir af þeim sem þurfa á þessari aðstoð að halda sem eru frá vinnu vegna veikinda eiga jafnvel ekki rétt á sjúkradagpeningagreiðslum eða lítinn rétt frá verkalýðsfélögum. Þetta eru náttúrlega smánargreiðslur og í raun eru fæðingarorlofsgreiðslurnar frá Tryggingastofnun staðfesting á því að sjúkradagpeningagreiðslurnar eru smánargreiðslur því að fæðingarorlofsgreiðslurnar miðast við tvöfalda sjúkradagpeninga. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Stendur til að leiðrétta þessar smánargreiðslur sem sjúkradagpeningarnir eru? Það er ekki hægt að búast við því að manneskja sem er sjúk geti framfært sig á 582 kr. á dag eða 17.500 kr. á mánuði, hvað þá að hún framfleyti barni sínu á 158 kr. á dag eins og ætlast er til samkvæmt sjúkradagpeningareglunum. Ég tel því mikilvægt að það komi hér fram hvort áform eru uppi um að leiðrétta þetta og einnig að hæstv. ráðherra staðfesti það að mæður sem eru veikar --- ég rakst ekki á það hér. Jú, það er hér í frv. Ég fagna því að alvarleg veikindi móður eftir fæðingu gefa rétt til framlengingar og ég fagna því.

Af því að ég sé að vilji ráðherrans er mjög mikill til að leiðrétta þá vankanta sem eru á frv. þá kalla ég a.m.k. eftir því hvort áform séu uppi um leiðréttingu á ferðareglunum, þ.e. þetta með eina ferð í viku sem fæst greidd.

Ég get tekið undir hjá þeim sem hafa rætt frv. á undan mér að auðvitað ber okkur að gera ýmsa aðra réttarbót á fæðingarorlofsreglunum og ættum þar að taka Norðurlöndin okkur til fyrirmyndar. Nauðsynlegt er að við fáum inn í lögin sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. Ég ætla ekki að fara að rekja reglurnar á Norðurlöndunum en ég tel að þar sé fyrirmynd sem við ættum að líta til.

Ég vil líka fagna því að hér skuli vera leiðréttur rétturinn til fæðingarorlofs vegna andvana fæðingar og fósturláts, en nú gilda þær reglur að ef kona missir fóstur þá á hún rétt á fæðingarorlofsgreiðslum í tvo mánuði eftir 20 vikna meðgöngu og eftir andvana fæðingu eftir 28 vikna meðgöngu. Þarna er breyting til samræmis við þær reglur sem gilda hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og ég fagna því vissulega. Ég tel að þar sé um mikla réttarbót að ræða.

Ég fagna þessu frv. og ætla ekkert að orðlengja það frekar og vil gjarnan flýta afgreiðslur þess. Ég fagna því einnig að það skuli vera bráðabirgðaákvæði í frv. um að það skuli gilda um foreldra sem voru á fæðingarorlofi 1. janúar sl. Ég mun vissulega styðja alla þá réttarbót sem í þessu frv. hæstv. heilbrrh. er en óska eftir svari um hvort til standi að breyta ferðareglunum fyrir þessa foreldra.