Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 11:51:29 (4816)

1997-03-21 11:51:29# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[11:51]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef þrátt fyrir allt talsverða trú á hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og ég held að henni og fleiri konum af hennar kalíber innan Framsfl. muni þegar tímar líða fram takast að brjóta niður múra þessa karlrembuhugsunarháttar sem mér finnst einkenna forustu Framsfl. og reyndar margra annarra flokka líka. En hv. þm. verður eigi að síður að vera reiðubúinn til þess að berjast fyrir því sem hann trúir á og því sem honum finnst vera rétt. Það sem hefur einkennt málflutning hennar síðan hún kom hér inn á þing er öðrum þræði áhersla á kvenfrelsi, kvenréttindi, bættan hag kvenna. Ég kem hérna upp og les úr texta sem er gefinn út af skrifstofu jafnréttismála og þegar ég spyr hana hvort hún sé sammála því að það sem þar segir um nauðsyn þess að auka hlut feðra í fæðingarorlofi sé mikilvægt fyrir kvennabaráttuna, þá svarar hún því ekki.

Hv. þm. ætti að taka sér til fyrirmyndar þau viðhorf sem varaþingmaður hennar, Drífa Sigfúsdóttir, sem er forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ, hefur beitt sér fyrir, þar sem er í gangi mjög lofsvert tilraunaverkefni einmitt á þessu sviði. Og hv. þm. ætti að draga þennan hæstv. félmrh. sem hún dásamaði svo áðan fyrir gríðarlegan áhuga á kvenfrelsisbaráttunni, sem er talsvert annað heldur en við höfum séð í þessum sölum, með sér til vinkonu sinnar í Reykjanesbæ og kenna honum hvernig á að gera þetta. Það er nefnilega ekki nóg að gera eins og þessir herrar gera. Þeir taka áhugasamar konur og gera þær að formönnum einhverra nefnda, svæfa þær þar. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir er þegar farin að dorma í formannsstóli þessarar nefndar. Við þurfum að gera meira heldur en bara að sitja og stýra nefndum. Það þarf að gera eitthvað. Nú er ég að miðla hv. þm. af reynslu minni úr þessum sölum.