Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 12:43:36 (4826)

1997-03-21 12:43:36# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[12:43]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom inn á vandamál sem er tengt verktöku. Það er því miður að verða síaukið vandamál og mun aukast mikið með aukinni tölvuvæðingu þar sem fólk getur farið að vinna heima fjarri vinnustaðnum. Að sjálfsögðu þurfum við að taka á þessu vandamáli. Við þurfum að leysa það vandamál að það er fjöldi fólks sem velur að vera verktakar og dettur þar af leiðandi út úr tryggingakerfinu að meiru og minna leyti. Við þurfum að laga það. En við þurfum jafnframt að spyrja okkur af hverju fólk velur að detta út úr tryggingakerfinu. Getur verið að tryggingakerfið sé orðið of sterkt, of dýrt og of þunglamalegt fyrir einstaklinginn þannig að menn velji frekar að vera verktakar og fá allan peninginn í vasann sjálfir í staðinn fyrir að vera tryggðir? Vantar kannski skilning fólks á eðli og gildi trygginganna? Hafa tryggingarnar ekki sama gildi fyrir fólk og það borgar fyrir þær? Þetta þurfum við að hugleiða.

Varðandi hugljómunina, þá koma allar hugmyndir einhvers staðar frá. Ég er ekkert að segja að þetta sé endilega mín hugmynd en samt sem áður er það mín hugljómun og með fjöldamörgum öðrum, að það mætti koma svona fyrirkomulagi á. Og það er ekkert sem bannar það að verktakar gætu verið þátttakendur í því og verktakar eiga að sjálfsögðu að vera tryggðir eins og aðrir þó þeir oft á tíðum sinni ekki þeirri tryggingaskyldu.