Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 16:51:18 (4870)

1997-03-21 16:51:18# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:51]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég held að þær umræður sem hér hafa farið fram hafi á margan hátt verið góðar og gagnlegar og vonandi koma þær að einhverjum notum þegar við vinnum þetta mál áfram vegna þess að það er ljóst að það er margt sem þarf að gera varðandi biðlistana.

Hæstv. ráðherra hefur ekki svarað fyrirspurnum mínum sem hér komu fram og vænti ég þess að hún geri það áður en við ljúkum þessari umræðu. Þær snerust fyrst og fremst um það hvort ráðherrann væri tilbúinn að beita sér fyrir að settar yrðu reglur um hámarksbið eftir aðgerðum og eins um það hvernig hún hygðist vinna að því að styrkja úrræði vegna barnageðdeildarinnar.

Það er alveg ljóst að áhyggjur af geðdeildunum, ekki síst barnageðdeildinni, standa mjög upp úr í málflutningi þeirra sem hér hafa talað, þannig að það er mjög brýnt að við fáum skýrar upplýsingar hjá ráðherra til hvaða aðgerða hann ætli að grípa og ekki bara vegna geðdeildarinnar heldur almennt vegna biðlistanna og ekki síst á bæklunardeildinni.

Ég held að það sé alveg ljóst að ástæðan fyrir því að við erum með þessa löngu biðlista er ekki síst sá sparnaður og niðurskurður sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. Og af því að hv. 2. þm. Austurl. var að býsnast yfir því að hér lægi hæstv. heilbrrh. undir sífelldri skothríð af hálfu stjórnarnandstöðunnar og árásum eins og hann kallaði það og ég held að hann hafi notað orðin óyfirvegaðan æsing, þá held ég að hv. þm. ætti að muna það hvernig var á síðasta kjörtímabili þegar heilbrigðismálin komu til umfjöllunar. Ég minnist þess að bæði hann og hæstv. heilbrrh. höfðu mjög stór orð um aðgerðir sem þá voru uppi í heilbrigðismálunum en hæstv. heilbrrh. virðist hafa gleymt því og einnig hv. þm. Jón Kristjánsson.

Ég rakst á í fórum mínum hér um daginn eina slíka ræðu frá hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur þar sem hún réðist með óbótaskömmum á þáv. heilbr.- og trmrh. einmitt fyrir þau mál sem við erum að ræða hér í dag, hvernig að þeim væri staðið og hvernig niðurskurðurinn á sjúkrahúsunum hefði bitnað á sjúklingum. Það er auðvitað freistandi að vitna í þá ræðu, herra forseti. Hún kemur einmitt inn á ýmsa þá þætti sem eru afleiðingar af löngum biðlistum. Hæstv. ráðherra, þáv. þingmaður, sagði þá, með leyfi forseta, að hagræðingin á sjúkrahúsunum á Reykjavíkursvæðinu væri komin á algert hættustig. Það voru ekki spöruð stóru orðin, algert hættustig. Var það óyfirvegaður æsingur, herra forseti, þegar hún talaði um að þetta væri komið á algert hættustig? Og hv. þáv. þm., Ingibjörg Pálmadóttir, talaði einmitt um álag á sjúklingana sem ég gerði að umtalsefni í máli mínu hér áðan, að álagið hefði aukist á hjúkrunarfræðinga sem hv. þm. ætti að hafa skilning á, menntuð sjálf sem hjúkrunarfræðingur. Þá tók hún miklu dýpra í árinni heldur en ég gerði hér áðan, en hún sagði, með leyfi forseta:

,,Landlæknir segir að það séu 45% starfsmanna á þessum sjúkrahúsum sem kvarta undan óbærilegri streitu og hægt sé að leiða að því rök að það hafi orðið slys vegna þess.`` --- Það hafi orðið slys vegna þess að álagið væri svo mikið. Þetta eru stór orð. Ég viðhafði ekki slík orð hér áðan.

Hv. þm. talaði mikið um biðlistana, taldi þá hafa aukist verulega og sérstaklega í aðgerðir eins og beinaaðgerðir. Síðan vék hv. þáv. þm., Ingibjörg Pálmadóttir, núv. ráðherra, að því hvernig farið væri með Ríkisspítalana. Það voru stór orð sem þá féllu um hvaða afleiðingar niðurskurðurinn á spítölunum hefði sem þá voru 200--300 millj. Hvað eru þær mörg hundruð, milljónirnar sem hæstv. heilbrrh. hefur nú staðið fyrir?

Þá sagði hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir, núv. hæstv. heilbrrh.: ,,Tökum bara Ríkisspítalana eina og sér. Þeir eiga að spara 250--300 millj. kr. og auk þess eiga þeir, bara Ríkisspítalarnir einir, að ná inn 50 millj. kr. í nýjar sértekjur, sem ég er búin að lýsa hér að er útilokað að ná.`` --- Hver hefur aukningin á sértekjunum orðið í tíð hennar sem ráðherra? Hæstv. ráðherra sagði að þar fyrir utan eigi þeir að spara 250--300 millj. kr. og hún talar um að það séu 337 legudagar bara á Ríkisspítölunum og þeir hafi sparað og dregið saman á öllum deildum eins og hægt er. Það er ekki nema eitt eftir, sem er að loka deildum, sagði hv. þm. þá. Og hv. þm. spyr: ,,Hvar í heila heiminum getur það gerst nema á Íslandi þar sem eru byggðar glæsilegar sjúkrastofnanir, þar sem er eitt langbest menntaða fólk í heilbrigðisstéttum í heiminum?`` Og áfram sagði þáv. þm., núv. heilbrrh.: ,,Við erum afskaplega vel tækjum búin en við getum ekki rekið þessar stofnanir. Og við rekum ekki þessar stofnanir, mörg stór og myndarleg sjúkrahús, nema á hálfum snúningi.``

Hvað erum við að gera núna? Erum við ekki að reka þessa spítala marga hverja þannig að við gætum nýtt þá miklu betur, til að mynda til þess að létta á spítölunum? Hæstv. ráðherra er auðvitað sjálf að kalla yfir sig svona umræðu, kannski stór orð sem hún hefur viðhaft sjálf undir svipuðum kringumstæðum. Og þegar ég hvessti mig nokkuð hér áðan, þá var það ekki vegna þess að ég væri að kenna hæstv. ráðherra um allan vandann á biðlistunum, síður en svo og langt í frá. Ég veit að þetta eru stór og mikil verkefni sem ráðherrann hefur með höndum og eitt stærsta ráðuneytið, en ég hvessti mig fyrst og fremst vegna þess að mér fannst ráðherrann ekki hafa skilning á að þarna væri við vandamál að etja. Ég hefði hagað orðum mínum allt öðruvísi ef ráðherrann hefði viðurkennt að hér væri við vandamál að etja, sem eru þessir löngu biðlistar. En ráðherrann kaus þegar þessi skýrsla kom fram að haga orðum sínum þannig að vísa því á bug að þessir biðlistar væru vandamál.

Ég held líka að þessi umræða sýni að við þurfum að móta heildstæða stefnu almennt í heilbrigðismálum sem taki til allra þátta sem snúa að heilbrigðisþjónustunni og líka biðlista, setja okkur þar markmið vegna þess að þar er ýmislegt sem kallar á slíka nýja stefnumörkun í heilbrigðismálum. Við þingmenn jafnaðarmanna höfum lagt fram þá framtíðarsýn sem við viljum sjá varðandi stefnumótun í heilbrigðismálum sem ég hef ekki tíma til að ræða hér. En þrjú atriði vil ég þó nefna sem ég tel mjög brýnt að setja reglur um. Það er varðandi það sem ég hef nefnt hér áður að mótaðar verði reglur og settar um hámarksbiðtíma eftir læknisaðgerðum. Síðan að mótuð verði samræmd stefna um kaup á nýjum lækningatækjum og lyfjum sem taki mið af þeirri þróun sem hefur orðið í hátækni og nýjum lyfjum. Ég tel alveg nauðsynlegt að þar þurfi að vera skipulag á hlutunum og þar séu mótaðar samræmdar reglur hvernig við viljum halda þar á málum. Eins tel ég að það þurfi, og það snertir óbeint biðlistana líka, að setja samræmda opinbera gæðastaðla í heilbrigðisþjónustunni sem ég tel að muni bæði bæta þjónustuna og gera hana skilvirkari.

[17:00]

Ég held, herra forseti, að við sem stundum státum okkur af góðu og traustu heilbrigðiskerfi getum varla tekið okkur þau orð í munn nema við gerum eitthvað í þessu vandamáli sem hefur skapast vegna biðlistanna. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún haldi því fram og ætli aftur að fullyrða úr ræðustól, sem hún gerði áðan, að enginn af þeim 3.400 sjúklingum sem eru á biðlistunum séu í bráðavanda, séu bráðasjúklingar vegna þess að öðru er haldið fram í þeirri skýrslu sem ráðherrann ber fyrir þingið þar sem talað er um að bráðasjúklingar á bæklunardeildum séu um helmingur.

Mér finnst líka hafa staðið upp úr þessari umræðu, og sem betur fer fannst mér hæstv. ráðherra hafa góð orð um að bæta þar úr, hve ófullkomnar upplýsingar biðlistarnir veita og að skráning þeirra gefi alls ekki nægjanlegar upplýsingar til þess að við getum metið hvort yfirleitt sé nokkur sparnaður fólginn í því að láta fólk bíða á biðlistum, loka deildum o.s.frv. Við höfum farið yfir alla þá mörgu þætti sem að þessu snúa.

Hv. 10. þm. Reykn., Kristján Pálsson, sem talaði hér áðan og þekkir nokkuð til mála sem varamaður í stjórn Ríkisspítalanna, sagði að þetta mál hefði oft verið rætt innan Ríkisspítala, skortur á skipulegri skráningu á biðlistunum, þannig að það gæti gefið til að mynda ráðherra og þingi nauðsynlegar upplýsingar sem gætu auðveldað ákvarðanatöku í þessu máli. Ég býst við að það kosti nokkuð, a.m.k. aukna vinnu, að koma þessum upplýsingum í nauðsynlegt og eðlilegt horf og ég hvet ráðherra til að setja þá vinnu strax í gang vegna þess að ég held að það hljóti líka að auðvelda hæstv. ráðherra sjálfum öll vinnubrögð og alla ákvarðanatöku um það sem sífellt er uppi á þinginu. Það eru hinir löngu biðlistar á heilbrigðisstofnunum sem er árlegur viðburður að við fjöllum hér á þinginu og urðu ekki til í tíð hæstv. ráðherra. Það er alveg ljóst.

Það hefur ýmislegt athyglisvert komið fram í þessari umræðu, t.d. það sem kom fram hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, sem mér fannst mjög athyglisvert, að það séu helst verkamenn 30--34 ára sem þurfa að gangast undir bæklunaraðgerðirnar og tengdar aðgerðir, það sé langstærsti hópurinn. Mér finnst það athyglisverðar upplýsingar að mikið vinnuslit sem fylgir verkamannavinnu leiði til þessara sjúkdóma og það er svo sannarlega ekki, eins og við heyrum þessa dagana, verið að meta það neitt til launa þó að þetta fylgi þessari vinnu.

Það er líka til skammar, eins og fram kom hjá hv. 18. þm. Reykv., að þeim sem eru á biðlista og verða af launum sé gert að búa við það að hafa 17 þús. kr. sér til framfærslu á mánuði gegnum sjúkradagpeninga. Ég spyr ráðherra: Getur verið að þeir sem eru á biðlistum, eins og hv. þm. upplýsti, þurfi að borga allt upp í 100 þús. kr. í lyfjakostnað á mánuði? Mér finnst að það þurfi sérstaklega að taka upp þetta með lyfjakostnaðinn ef ofan á allt sem þessir sjúklingar þurfa að búa við sem bíða eftir aðgerðum verði þeir fyrir svona miklum útgjöldum. Ég vissi að útgjöldin væru mikil en ekki þær tölur sem hér voru nefndar, að við værum að tala um kannski 100 þús. kr. að því er varðar lyfjakaup.

Ég spyr ráðherrann um það og spyr hvort hún ætli ekki að kanna það nánar sem fram kemur í þessari skýrslu þannig að hægt sé að taka á því og a.m.k. taka þá sjúklinga út af listum og þeir fái aðgerð sem þurfa að búa við það að vera langtímum saman á ávanabindandi lyfjum. Það er dýrt og kemur út í öðrum útgjöldum hjá hæstv. ráðherra ef þessir sömu sjúklingar þurfa svo að fara í meðferð á eftir, sem vissulega eru dæmi um.

Ég sé að tíma mínum er lokið og ég ítreka spurningar mínar til hæstv. ráðherra.