Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 11:34:49 (4997)

1997-04-04 11:34:49# 121. lþ. 99.10 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:34]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Síðan ég tók sæti á þingi hef ég oft hlýtt á hv. þm. Steingrím J. Sigfússon flytja hér mjög skynsamlegar ræður. En því miður held ég að honum hafi eitthvað orðið hált á svellinu í þessari ræðu því að hv. þm. leyfir sér að kalla gagnrýni Alþfl., eða jafnaðarmannaflokks heimsins eins og hann nefndi það, þreytuleg ónot út í landbúnaðinn eða kæk. En um leið hvatti hann hæstv. landbrh. til þess að láta fara fram úttekt á stöðu bænda í íslensku samfélagi. Með öðrum orðum, gagnrýni okkar á kerfi sem fyrir lifandi löngu er gengið sér til húðar og hefur leitt til þeirrar stöðu bænda sem er í dag. Þetta er mér gersamlega fyrirmunað að skilja. Ég held að í þessu hljóti að felast miklar þversagnir, annars vegar að krefjast þess að hæstv. ráðherra láti fara fram úttekt á stöðu bænda, sem hljóti að vera slæm, sem er eðlileg afleiðing af gersamlega vonlausu kerfi, en jafnframt að gagnrýni á þetta vonlausa kerfi sé ónotaleg og þreytt. Auðvitað er þetta kerfi orðið þreytt fyrir lifandi löngu. Og það er sama gagnrýni sem á við um þetta kerfi nú og fyrir 20--30 árum þegar Gylfi Þ. Gíslason hóf hana og vissulega er hún löng og ströng. En ég gat ekki betur heyrt á ræðu hæstv. ráðherra hér áðan en að þessi gagnrýni hafi náð í gegn í landbrn. Það er talsvert afrek. Hún verður því ekki talin þreytt eða orðin einhver kækur þegar hún er búin að ná í gegnum þann þykka skráp sem þar er að finna.