Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 16:41:37 (5052)

1997-04-04 16:41:37# 121. lþ. 99.23 fundur 482. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[16:41]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði það sjálfur hér rétt áðan að þetta kom mér mjög á óvart og þessi viðskipti eru mér ekki neitt sérstaklega að skapi. Og ég endurtek að sveitarfélögin eru eitthvað sem varanlegt er þó að við hin dauðlegu hverfum af vettvangi, sum fyrr en önnur síðar.

En virðulegi forseti. Ég skildi ekki alveg þetta andsvar hv. þm. því að auðvitað sagði ég það og stend við það að það er nákvæmlega fyrir skrifað í þessum gildandi lögum hver á þetta félag. Um það erum við ekkert að deila. Ég rakti það raunar eins og hv. þm. hvernig sú eign skiptist nákvæmlega upp á prósentu. Um það er ekki deilt. Ég hins vegar vek athygli á því að í 6. gr. stendur:

,,Eignarréttindi sameigenda eru óvirk nema til slita á félaginu komi, sbr. 16. gr.``

Og síðan segir í 9. gr.:

,,Fulltrúaráð eignarhaldsfélagsins er skipað fulltrúum sveitarfélaganna í landinu eftir nánari ákvæðum þessara laga. Fulltrúaráðið hefur æðsta vald í málefnum félagsins.``

Þetta getur því ekki skýrara verið. Stjórn félagsins eru sveitarfélögin í þessu landi og ég hef ekki heyrt annað, það eru þá algerlega nýjar fréttir fyrir mér en ég hlýt auðvitað að beygja mig undir þá ákvörðun verði hún tekin, hugsanlega í dag --- þeir eru að funda um þetta núna --- ef þeir taka ákvörðun um að slíta félaginu. Ég stend við þetta frv. og þessi lög sem ég fylgdi hér úr hlaði og kom hér í gegn. En það ætlar ekki hv. þm. að gera. Hann ætlar að gera breytingar á þeim. Hann ætlar að taka valdið úr höndum sveitarfélaganna sem hafa það fyrir fullt og fast samkvæmt 9. gr. þessara laga og brjóta upp félagið þvert á það sem lögin segja fyrir um. Það er lykilatriðið í þessu máli. (EOK: ... 16. gr.) Vitaskuld þarf að vera ákvæði þess efnis í þessum lögum eins og öllum. Komi til slita þarf auðvitað að gera það eftir ákveðnum tilteknum reglum. En það er líka nákvæmlega sagt fyrir um það hver eigi að taka ákvörðun um það. Og það er ekki hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem er kallaður til þeirra verka. Það eru þeir sem hafa forsjána með hendi samkvæmt gildandi lögum, samkvæmt því frv. sem hér er til staðar.