Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:58:09 (5103)

1997-04-14 15:58:09# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:58]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hér liggur loksins fyrir frv. stjórnarinnar um breyting á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Þessa frv. hefur verið beðið býsna lengi eða allt frá því að núv. ríkisstjórn tók við. Skyldi engan undra að frv. var flett með býsna mikilli eftirvæntingu því að eins og hæstv. ráðherra vitnaði í hér áðan, þá hafa stór orð verið látin falla um ranglæti gildandi laga og líklega hafa framsóknarmenn farið fremst í flokki gagnrýnenda. A.m.k. var það samróma álit þeirra sem á hlýddu að engir hefðu komist með tærnar þar sem þeir höfðu hælana fyrir síðustu kosningar hvað varðaði loforð og núna getum við sagt yfirboð varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna. Það var þess vegna, herra forseti, býsna áhugavert að lesa það frv. sem hér liggur fyrir.

Það var bæði áhugavert fyrir það sem er í frv. og þó ekki síður vegna þess sem það fjallar ekki um. Þetta frv. fjallar t.d. ekki um samtímagreiðslur. Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan, þá verður sama fyrirkomulag og er núna. Það kemur til vaxtastyrkur en hann beinist ekki sérstaklega að þeim sem þurfa að leita á náðir bankanna vegna þess að hann eiga allir að fá. Það skiptir sem sagt ekki máli hver er efnahagur eða hverjar eru aðstæður, allir fá vaxtastyrkinn. Það staðfesti hæstv. ráðherra líka í máli sínu hér áðan. Þannig liggur það nú fyrir, herra forseti, að það er ekki um samtímagreiðslur að ræða. Það er sama fyrirkomulag og áður og það verður greiddur svokallaður vaxtastyrkur sem allir fá.

Það er líka ljóst, herra forseti, að þetta frv. fjallar ekki um afnám ábyrgðarmanna. Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir því að jafnrétti til náms verði tryggt á Íslandi ef marka má niðurstöðu Ríkisendurskoðunar eftir að hún hafði skoðað fjárhagsstöðu sjóðsins og litið yfir gildandi lög.

Í 6. gr. laganna um Lánasjóð ísl. námsmanna er kveðið á um að þeir námsmenn sem fá lán úr sjóðnum skuli leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns sem taki á sig sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Og ef námsmaður ekki getur fengið slíkan ábyrgðarmann, þá getur svo farið að hann geti ekki hafið nám eða þurfi að hverfa frá námi. Slíkum einstaklingi, einstaklingi án ábyrgðarmanns, getur sjóðurinn ekki veitt tækifæri til náms án tillits til efnahags, eins og segir þó í lögunum.

Eins og ég gat um, herra forseti, þá tekur Ríkisendurskoðun þetta atriði sérstaklega fyrir í skýrslunni sem stofnunin gaf út um fjárhagsstöðu sjóðsins í nóvember 1995. Þar er einmitt á það bent að eðli námslána sé annað en eðli annarra lána vegna þess að námslán séu í rauninni það form á námsaðstoð sem stjórnvöld ákvarði á hverjum tíma og námsaðstoð getur ekki verið háð því skilyrði að sá sem aðstoðarinnar nýtur komi með ábyrgðarmann fyrir aðstoðinni. A.m.k. er það niðurstaða Ríkisendurskoðunar og ég held að flestir rétt þenkjandi menn hljóti að taka undir að það getur ekki samrýmst jafnrétti til náms.

Nú var það svo, herra forseti, að fyrstu fréttir af niðurstöðu Framsfl. og Sjálfstfl. um breytingar á lögunum um sjóðinn bentu raunar til þess að stjórnarflokkarnir hefðu líka áttað sig á þessum augljósu sannindum. En stórsigur Framsfl. í þessu máli fólst síðan einungis í því þegar betur var skoðað að einhverjir ráðherrar voru í viðræðum við banka um að bankarnir bæðu ekki um ábyrgðarmann á yfirdráttarheimildinni, en lánasjóðurinn átti samkvæmt lögunum áfram að krefja um ábyrgðarmenn. Ef ekki verður á önnur breyting en sú sem stjórnarflokkarnir leggja til í þessu frv., þá munu námsmenn því áfram þurfa að leita til foreldra og vina og biðja þá um að ábyrgjast lánin sín. Undir velvild þeirra aðila eða fjárhagsstöðu eftir atvikum verður það síðan komið hvort menn fá námslán í lánasjóðnum sem á að tryggja jafnrétti til náms án tillits til efnahags.

Lánasjóður ísl. námsmanna er mikilvægt tæki til námsaðstoðar. Það er mikilvægt tæki til þess að tryggja jafnrétti til náms. Þess vegna er brýnt að það verði tekið á þessu máli. En lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna segja ekki alla söguna um það hver lánapólitíkin er í landinu. Lögin segja reyndar tiltölulega lítið um það hvaða lánapólitík er við lýði vegna þess að lögin eru þannig upp byggð að í þeim eru mjög miklar heimildir þar sem stjórn sjóðsins eða ráðherra er falið að taka afdrifaríkar og veigamiklar ákvarðanir um það með hvaða hætti farið er með. Í raun er það ráðherra og stjórn sjóðsins sem móta lánapólitíkina á hverjum tíma. Og þannig hefur Sjálfstfl. í menntmrn. og meiri hluti hans í stjórn lánasjóðsins í rauninni getað mótað þá lánapólitík sem rekin hefur verið. Þeir hafa haft nánast sjálfdæmi um ýmis mikilvæg atriði eins og t.d. til hvaða sérnáms skuli lánað, hvaða skilyrðum námsmenn og ábyrgðarmenn skuli fullnægja, hvað beri að telja námslok, hvað sé hæfilegur námstími og það að stjórninni sé heimilt að fela bankastofnunum útborgun lána, innheimtu og aðra daglega afgreiðslu svo að fátt eitt sé talið. Ég hygg að einhverja rámi nú í það að einhver af þessum atriðum hafi þótt gagnrýni verð, en það er þó greinilegt að nú þykir Framsfl. að framkvæmd Sjálfstfl. á þessum ákvæðum á mótun lánapólitíkurinnar í landinu hafi verið með ágætum því að það er frekar bætt í ef eitthvað er með þessu nýja frv.

Þannig er lagt til í þessu frv. að úrskurðir stjórnar sjóðsins verði endanlegir, þeir verði ekki kærðir til æðra stjórnvalds verði frv. að lögum. Stjórn sjóðsins á að semja reglurnar, stjórnin á síðan að rannsaka kvartanir sem upp kunna að koma og stjórnin dæmir síðan. Hún dæmir um réttmæti og sá dómur er endanlegur og verður ekki áfrýjað til æðra stjórnvalds. Er ekki eitthvað bogið við það, herra forseti, að sami aðili skuli semja reglur, skuli rannsaka mál samkvæmt þeim og fella síðan endanlegan úrskurð? Skyldi ekki þurfa að skoða þetta ákvæði ögn betur?

Það er fleira sem stjórnin fær sjálfdæmi um og hlýtur að stinga í augu þegar frv. er lesið. Þannig stendur í 6. gr. frv. að ef einstaklingur sem hefur fengið lán úr lánasjóðnum starfar síðan erlendis skuli stjórnin, og ég ætla nú að vitna beint, herra forseti, því að orðalagið er svo ótrúlegt, en það er svo vitnað sé beint: ,,skal stjórnin áætla honum ríflegan útsvarsstofn.``

Ríflegan útsvarsstofn. Menn hljóta að velta því fyrir sér ef stjórnin fær heimild til þess í lögum að áætla mönnum sem starfa erlendis ríflegan útsvarsstofn án þess að nokkuð sé skilgreint nánar að hér sé eða geti verið um brot á jafnræðisreglu að ræða. Hvernig er það tryggt að þeir aðilar sem kjósa að hasla sér völl erlendis eða verða að gera það af einhverjum ástæðum fái notið jafnræðis ef stjórnin hefur það í hendi sér hvernig hún áætlar þeim útsvarsstofn og hefur þau ein fyrirmæli að gera það ríflega? Ég held, herra forseti, að hér sé farið offari og þetta verði svo sannarlega að skoða betur.

Þegar farið er yfir lögin og síðan þetta frv. þá sýnist manni að það sé á um það bil 20 stöðum þar sem stjórnin hefur heimildir til þess að taka ákvarðanir um ýmislegt sem, eins og menn heyra af því sem þegar hefur verið nefnt hér, skipta verulegu máli varðandi það hvernig mönnum reiðir af í námi. Við getum nefnt bæði hvað varðar lengd náms og hver eru talin lok náms, hvað varðar ábyrgðarmenn, hvað varðar þær kröfur sem gerðar eru bæði til ábyrgðarmanna og einstaklinga og margt fleira.

Það er hins vegar, herra forseti, margt sem þarf að skoða einnig nákvæmlega. Það er þannig að samkvæmt þessu frv. munu endurgreiðslur áfram hefjast tveimur árum eftir að námi lýkur og eins og ég gat um, þá er það stjórn sjóðsins sem skilgreinir hvenær námslok eru. Það þarf líka að skoða mjög nákvæmlega hvort það að breyta endurgreiðsluhlutfalli úr 5% og niður í 4,75% sé nægjanlegt þegar menn skoða möguleika fólks sem tekur námslán til íbúðaröflunar. Menn hafa skoðað þessi mál og komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem taka lán og þurfa að sæta þeim endurgreiðslureglum sem eru í núgildandi lögum þurfi að hafa allt að 30% hærra kaup en aðrir eigi þeir að geta staðið þeim jafnfætis þegar kemur að umsóknum um húsnæðislán. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að þessi þáttur sérstaklega verði skoðaður, hvort þessi breyting sem ekki getur kallast stórvægileg hafi þau áhrif að staða þessa fólks til þess að eignast þak yfir höfuðið sé orðin viðunandi. Ég held að nauðsynlegt sé, herra forseti, að það sé skoðað alveg sérstaklega.

Eins og ég gat um áðan, þá eru ekki teknar upp svokallaðar samtímagreiðslur, hér er um óbreytt ástand að ræða. En það væri fróðlegt að vita hvort ráðherra hefur hugsað sér að endurskoða grunnframfærsluna, hvort námsmenn geta átt von á einhverjum breytingum hvað það varðar. Það var eitt af því sem kom í ljós þegar könnun Félagsvísindastofnunar, samnorræna könnunin um fátækt á Íslandi, var birt að námsmenn voru jafnoft undir fátækramörkum og atvinnulausir þannig að greinilegt er að þar þarf að athuga hvað er að gerast. Ég held að það þurfi líka að skoða hvort þær breytingar einar og sér sem hér er verið að gera á lögunum verði til þess að sametning námsmannahópsins breytist aftur, en það varð niðurstaða þeirra námsmanna sem skoðuðu það mál að breytingarnar sem gerðar voru 1992 og ákvarðanir stjórnarinnar, sú lánapólitík sem hún mótaði í framhaldinu, hafi helst til bitnað á þeim sem helst þurftu á lánum að halda, þ.e. að barnafólk og einstæðir foreldrar hafi orðið verst úti og einnig hitt að lánþegum hafi fækkað og þá fækkun megi rekja eftir kjördæmum, þ.e. eftir búsetu í landinu. Það er alveg ljóst að ef ekki er hægt að breyta þessum hlutum, þá erum við ekki með lánasjóð sem við getum flokkað sem jöfnunarsjóð, lánasjóð sem tryggir jafnrétti til náms.

Þá er hér líka atriði sem ég held að sé mjög mikilvægt að tekið verði á en það er atriði sem lýtur að heyrnarlausum. Nú er það svo að í 2. gr. laganna segir að lánasjóðnum sé heimilt að veita öðrum námsmönnum námslán eins og þar stendur, með leyfi forseta: ,,öðrum námsmönnum námslán en þeim sem falla undir skilgreiningu 2. mgr. 1. gr. enda stundi þeir sérnám.`` Nú er það spurning hvort hægt er að flokka það nám sem heyrnarlausir eru að reyna að stunda í framhaldsskólum landsins sem sérnám en það er alla vega alveg ljóst að þeir fáu sem treysta sér til þess þurfa að stunda framhaldsnám í mjög mörg ár, mun fleiri ár heldur en aðrir þeir sem geta notið þeirrar kennslu sem fer fram án aðstoðar því að það er svo í málefnum heyrnarlausra að þessir einstaklingar þurfa að sæta því að njóta kennslu í kannski 1--2 námsgreinum á vetri eftir því hvar þeir geta fengið táknmálstúlka. Þess vegna er eins og ég segi að þeir örfáu sem í þetta ráðast eru komnir hátt á þrítugsaldur þegar þeir ljúka framhaldsskólaprófi eða eru enn að baksa í framhaldsskóla komnir hátt á þrítugsaldur. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort hægt er með einhverjum ráðum að nýta lánasjóðinn til þess að mæta þessum einstaklingum. Eins og lögin eru í dag, þá hefur stjórn sjóðsins metið það svo að því er virðist að til þess væri ekki svigrúm, en ég held að þarna sé atriði sem verði að taka á.

[16:15]

Ég gat um það hér áðan að þeir vaxtastyrkir sem menn hyggjast koma á núna verða greiddir öllum án tillits til efnahags, án tillits til aðstæðna. Það væri forvitnilegt að heyra hvort ráðherra og ríkisstjórnin hefur hugsað það mál þannig að hér séum við að stíga fyrsta skrefið í átt til formlegra námsstyrkja, þ.e. hvort við séum ef til vill að stíga fyrsta skrefið í átt að gerbreyttu kerfi. Kerfi sem yrði ekki lánakerfi heldur styrkjakerfi. Ég held að það væri upplýsandi og eðlilegt að það væri rætt í menntmn. hvort við erum ef til vill að stíga fyrstu skrefin í þá veru að breyta eðli sjóðsins. Það væri forvitnilegt ef hæstv. ráðherra vildi leggja orð í belg á eftir og upplýsa okkur um það.

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan sýnist mér þetta frv. vera rýrara í ýmsu tilliti en sumir höfðu vænst og að hv. menntmn. bíði heilmikil vinna vegna þess að ég hygg að ýmsir fulltrúar í menntmn. muni reyna að koma fram ákveðnum breytingum og menn muni reyna til þrautar að ná fram ákveðnum réttlætismálum sem verði þá hluti af lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna í framtíðinni. Ég held að ljóst sé að sum atriðin sem ég var að spyrja um ættu að vera hluti af lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það sé jafnframt alveg ljóst að við verðum að skoða hið væntanlega hlutverk stjórnarinnar varðandi endanlegan úrskurðaraðila og sömuleiðis möguleika stjórnarinnar til að áætla mönnum ríflegan útsvarsstofn út frá því að við búum í réttarríki þar sem menn eiga að njóta jafnræðis og menn eiga líka að fá notið þess að það sé ekki sama stjórnvaldið sem semur reglurnar, sem þeir eiga að lifa eftir í þessu tilfelli, og dæmir um hvort réttlátlega er unnið og rannsakar mál.