Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 17:41:44 (5116)

1997-04-14 17:41:44# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[17:41]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vitnaði í upphafi máls síns til nýuppkveðins dóms Héraðsdóms Reykjavíkur. Hann fór síðan í kjölfarið á því að tala um stofnanaþjónustuna. Ég skildi það af máli hans að hann væri a.m.k. að gefa í skyn að umræddur dómur væri áfellisdómur yfir stofnanaþjónustunni. Hann talaði um stofnanaþjónustuna annars vegar og nefndi þar dæmi um Húsnæðisstofnun og lánasjóðinn versus greiðslumatsþjónustu bankanna og notaði þetta sem rök með því að æskilegt væri að hafa lánamálin inni í bankakerfinu.

Ég leyfi mér að efast um að bankarnir hafi sinnt því hlutverki sem skyldi sem hv. þm. nefndi varðandi annars vegar greiðslumatsþjónustuna og einnig get ég nefnt reynslu námsmanna af því að hafa átt við bankakerfið eins og það hefur verið undanfarin ár.

Tilefni andsvarsins er kannski ekki þetta heldur miklu frekar það að ég vil vekja athygli á því að dómurinn sem hv. þm. vitnaði til --- um hvað ber hann vitni? Hann ber ekki vitni um þjónustu Lánasjóðs ísl. námsmanna. Hann snerist einmitt um úrskurð stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna, um túlkun þeirrar stjórnar á landslögum. Og þessi dómur er einmitt sönnun þess óréttar sem námsmenn hafa búið við með því að hafa ekki getað skotið máli sínu til úrskurðar æðra stjórnvalds eins og venjan hefur verið. Í stað þess að leiðrétta þetta fádæma óréttlæti gagnvart námsmönnum velur þessi hæstv. ríkisstjórn að festa óréttlætið í sessi og hælir sér síðan af því að námsmenn eigi rétt á að skjóta máli sínu til umboðsmanns Alþingis og til dómstóla eins og aðrir þegnar þjóðarinnar. Þó það nú væri. En ég vil bara minna á það hér að það eru talin ein af grundvallarmannréttindum í lýðræðisþjóðfélagi að fá líka að skjóta málum innan stjórnsýslunnar til æðra stjórnvalds og það er það sem þessi dómur ber vitni um fyrst og fremst. Hann hefur ekki neitt að segja um stofnanaþjónustuna, langt í frá.