Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 18:26:50 (5129)

1997-04-14 18:26:50# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[18:26]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram í þessari umræðu þá er ég prýðilega ánægður með þetta frv. Það er góð samstaða um það meðal stjórnarflokkanna. Ég er þakklátur fyrir það. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir minntist á vandamál sem getur skapast varðandi húsnæðiskaup námsmanna að loknu námi. Samkvæmt núverandi greiðslumati vegna afgreiðslu húsbréfa er miðað við 18% tekna. Það hefur verið tekin ákvörðun um að færa afgreiðslu húsbréfa, greiðslumat og veðmat, yfir til bankanna. Sú vinna er komin vel á veg. Í því sambandi hef ég sett á fót nefnd til að athuga greiðslumatið sérstaklega. Ég tel að það komi til greina að hugsa greiðslumatið upp á nýtt. Taka fyrst frá einhverja ákveðna upphæð sem þyrfti til framfærslu viðkomandi fjölskyldu miðað við fjölskyldustærð og síðan gæti það sem út af stæði þegar framfærslunni væri borgið farið til húsnæðiskaupa eða annarrar eyðslu. Þessi vinna er sem sagt komin í gang. En mér er alveg ljóst að ef 7% hefðu verið látin standa þá hefði verið mjög torvelt fyrir námsmenn sem koma úr dýru námi að komast yfir húsnæði að námi loknu.

Hv. þm. Svavar Gestsson, hélt hér gífuryrta ræðu að vanda. Þetta var sama gamla spólan og við erum búin að hlusta á nokkrum sinnum. Hlutur hv. þm. í þessu lánasjóðsmáli er nú þannig að í hans sporum mundi ég hafa þagað við þessa umræðu. Hann hefur það sem af er þessu kjörtímabili gert bókstaflega allt sem í hans valdi stendur til að reyna að koma í veg fyrir að stjórnarflokkarnir næðu samstöðu um breytingu á Lánasjóði ísl. námsmanna. Hann hefur ausið hv. menntmrh. svívirðingum í tíma og ótíma. Hann hefur ekki sparað brigslin við framsóknarmenn um að við séum alltaf að svíkja. En hann hefur ekki gert þetta með hagsmuni námsmanna fyrir augum, sem hafa augljósa hagsmuni af því að lögunum verði breytt sem fyrst. Hann hefur gert þetta í þeirri von að geta rekið einhvern fleyg á milli stjórnarflokkanna í þessu máli í þeirri von að Alþb. hefði pólitíska hagsmuni af því að lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna yrði ekki breytt.

[18:30]

Þegar lögin um LÍN voru til umræðu 1992, og það var reyndar áður en samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var til umræðu hér á þinginu, gagnrýndi hv. þm. Svavar Gestsson harðlega þá breytingu sem þáv. ríkisstjórn beitti sér fyrir á Lánasjóði ísl. námsmanna. Hann var óspar á það í síðustu kosningabaráttu að hann mundi beita sér fyrir breytingu á lögunum um LÍN. Hann efnir nú ekki það loforð á þessu kjörtímabili því það er ekki hann eða flokkur hans sem er að breyta þessum lögum. Það eru stjórnarflokkarnir. Það eina sem hann og hans flokkur hefur gert er að flytja frv. á þskj. 7 á þessu þingi, frv. til laga um breyting á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það er reyndar að mér sýnist allur þingflokkur Alþb. og meira að segja þingflokkur óháðra sem skrifar upp á þetta frv. svona lauslega talið. Það væri kannski ástæða til að skoða þetta frv. pínulítið, herra forseti, og bera saman við það frv. sem hér liggur fyrir til umræðu. 1. gr. er svona, með leyfi forseta:

,,Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:

1. Í stað 1.--3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:

Námslán skal greiða út mánaðarlega meðan námsmaður stundar nám.

Námslán skal þó ekki greitt út fyrr en námsmaður hefur lokið einu missiri af námi sínu með tilskildum árangri. Þegar námsmaður hefur lokið einu missiri með tilskildum árangri fær hann lán fyrir það missiri og svo áfram mánaðarlega meðan hann stundar nám.``

Sú niðurstaða sem er hér í frv. er námsmanninum ekki jafnhagstæð, hún er betri fyrir námsmanninn heldur en lagt er til í frv. Alþb.

,,2. 7. mgr. fellur brott.``

Þessi 7. mgr. er uppfyllt að því leyti til að námsmenn fá styrk út á lántökukostnaðinn.

2. gr. frv. hv. þm. Alþb., með leyfi forseta:

,,Í stað 3. mgr. 8. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:

Viðbótargreiðslan miðast við ákveðinn hundraðshluta af útsvarsstofni ársins á undan endurgreiðsluári. Hundraðshluti þessi er 4,5%. Frá viðbótargreiðslunni samkvæmt þessari málsgrein dregst fasta greiðslan skv. 2. mgr.``

Hérna fór Alþb. að vísu aðeins lengra en niðurstaðan verður í því frv. sem hér er til reiðu. En Alþb. var þó tilbúið að leggja til að endurgreiðsluhlutfallið yrði 4,5%. Ég viðurkenni að það er dálítill munur á 4,75% og 4,5% en það er miklu meiri munur á 7% og 4,75%.

Síðan er ákvæði til bráðabirgða, herra forseti, þar sem lagt er til að sérstaklega verði tekið á eftirfarandi þáttum:

,,a. reglum um námsframvindukröfur.`` Það er nú hér í þessu frv.

,,b. ákvæðum um endurgreiðslubyrði.`` Það er hér í þessu frv.

,,c. kröfum um ábyrgðarmenn.`` Það eru góðar líkur á því að ábyrgðarmanna verði ekki krafist varðandi lánin í bönkunum. Ég kem síðar að þessu með ábyrgðarmenn við LÍN.

,,d. úthlutunarreglum og framsetningu þeirra.`` Það er líka tekið á þessu.

Þetta stjfrv. gerir nefnilega miklu betur en að uppfylla þær kröfur sem Alþb. setti fram í upphafi þings í haust.

Mér hefur satt að segja fundist tveir þingmenn Alþb. og einn frá hreyfingu fólksins, þ.e. Þjóðvaka, hreyfingu fólksins, vera dálítið veruleikafirrtir þegar þeir eru að tala um að 7% sé enginn raunveruleiki, það hafi enginn borgað 7%. En nú ætla ég, herra forseti, að lesa úr greinargerð þessa frv. á þskj. 7 frá Alþb. á liðnu hausti. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þegar lögunum um Lánasjóð íslenskra námsmanna var breytt árið 1992 var endurgreiðsluhlutfallið hækkað verulega. Tekjutengda afborgunin hækkaði úr 3,75% í 5% fyrstu fimm árin og er síðan 7% af tekjum þar til lánið er að fullu greitt.``

Þá kunnu þeir lögin þegar þeir voru að semja frv. á þskj. 7 og þá voru þeir ekkert í vafa um að 7% væru raunveruleiki.

Herra forseti. Loforð Framsfl. í síðustu kosningabaráttu og þau fyrirheit sem við gáfum við umræðurnar 1992, sem hér hefur verið margvitnað til, hafa verið efnd. Við lofuðum að beita okkur fyrir breytingum á lögunum um LÍN. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa orðið sammála um að breyta lögunum um LÍN. Við vildum lækka endurgreiðsluhlutfallið úr 7% og það hefur verið lækkað niður 4,75%. Það er alveg sama hvað hv. þm. ber höfðinu við steininn, samtímagreiðslur eru teknar upp. Námsmenn geta gengið að samtímagreiðslum og bankarnir lána námsmönnum jafnóðum og þeim vindur fram í náminu. Og meira en það. LÍN veitir námsmönnum styrk sem ber uppi alla vexti og lántökukostnað. Það stendur skýrum stöfum í 3. gr. frv., herra forseti:

,,Námsmaður fær greiddan vaxtastyrk sem ætlaður er til að bæta honum fjármagnskostnað vegna framfærslu í samræmi við rétt hans til námsláns á hverjum tíma. Styrkurinn greiðist við útborgun námsláns og miðast við meðaltal vaxta- og lántökukostnaðar banka og sparisjóða eins og hann er á hverjum tíma samkvæmt nánari reglum sem stjórn sjóðsins setur.``

Skilningur minn er sá, og ég vænti þess að það sé líka skilningur allra stjórnarliða, að hér sé um að ræða alla vextina og lántökukostnaðinn, allan þann fjármagnskostnað sem fellur á varðandi þessarar milligöngu bankanna. (Gripið fram í: Af hverju stendur ekki: ,,allan``?) Nú skal ég ekki segja. Ég skrifaði ekki þennan texta en ég tel að þetta sé bara alveg skýrt í textanum, bara alveg skýrt (Gripið fram í.) að hér sé átt við allan þann viðbótarkostnað sem verður af milligöngu bankanna. Ég tel að það sé engin spurning að námsmenn eru betur settir að þessu leyti en áður en lögunum um LÍN var breytt 1992.

Hv. þm. talaði fjálglega um yfirdráttarvextina sem námsmenn eru að borga núna þessa dagana og það var að vissu leyti alveg rétt hjá honum, merkilegt nokk. En hann gat ekki um að eftir breytingu á lögunum þurfa námsmenn ekki að greiða þessa yfirdráttarvexti sjálfir heldur greiðir Lánasjóður ísl. námsmanna þá fyrir þá.

Við lögðum til að harkalegum ákvæðum um námsframvindu yrði breytt og sveigjanleiki aukinn varðandi námsframvindu. Þetta er gert í frv.

Hv. þm. spurði um ábyrgðarmannakerfið. Það er ekki tekið sérstaklega á því í þessu frv. að afnema eða draga úr ábyrgðarmannakerfinu á námslánunum. Ég þekki dæmi þess að ábyrgðarmenn námslána hafa verið krafðir um endurgreiðslu og það er út af fyrir sig ekki gott. En við búum við það þjóðfélag þar sem persónulegar ábyrgðir hafa verið tíðkaðar í allt of ríkum mæli. Það er í gangi vinna á vegum félmrn. og viðskrn. með aðild lánastofnana að reyna að draga úr þessum ábyrgðum. Ég sé það fyrir mér í framtíðinni að hægt verði að milda þessa ábyrgðarmannakröfu og reyna að komast út úr þessu kerfi.

Hv. þm. spurði um hvað meint væri með þessu um fastagreiðsluna, af hverju þessi tala væri þarna. Ég tel ... (Gripið fram í.) Hún er uppreiknuð. (SvG: Já, hún er uppreiknuð.) Já. (Forseti hringir.) Herra forseti. Fastagreiðslan er uppreiknuð. Það var ekki verkefni þessa frv. að ákveða að námslánin skyldu hækka. Það var a.m.k. ekki það sem ég vildi sérstaklega heimta í þessu frv. Þar af leiðandi finnst mér ekki óeðlilegt að fastagreiðslan sé uppreiknuð.

Hv. þm. spurði um valdframsal í 7. gr. Ég átta mig ekki vel á hvað hann átti við en þar segir, með leyfi forseta:

,,Þá er stjórn sjóðsins heimilt að veita lán með sömu kjörum og almenn námslán vegna annarra áfalla en greinir í 1. mgr., svo sem ef námsmanni stendur ekki tímabundið til boða fullt nám samkvæmt skipulagi skóla eða veikindi valda því að námsmanni tekst ekki að standast prófkröfur.``

Þetta finnst mér bara aldeilis prýðileg viðbót við 12. gr. laganna. Og ég sé ekki neitt valdframsal í þessu út af fyrir sig.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira. Ég vona að ég hafi svarað þeim spurningum sem til mín var beint sérstaklega. Ég hef látið mig þetta mál miklu varða og ég er mjög ánægður með að það skuli vera leyst.