Suðurlandsskógar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 14:32:53 (5150)

1997-04-15 14:32:53# 121. lþ. 102.3 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:32]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Suðurlandsskóga sem flutt er á þskj. 876 og er 524. mál. Með frv. þessu er lagt til að næsta stórátak í skógrækt hér á landi verði á Suðurlandi.

Mikill áhugi er meðal hagsmunaaðila á Suðurlandi um þetta átak og hefur Skógrækt ríkisins, auk Félags skógarbænda á Suðurlandi, unnið að því skipulega síðan í ágúst 1995. Skilyrði til skógræktar á Suðurlandi eru víða góð. Uppsveitir Árnessýslu og efri hluti Landssveitar, Rangárvalla, Holta og Skaftártungu ásamt Síðu, teljast vera meðal vænlegustu svæða á Íslandi til nytjaskógræktar. Nýjustu mælingar sýna að vöxtur trjáa í lágsveitum á Suðurlandi er góður þar sem ungplöntur ná að vaxa upp í skjóli fyrir vindum. Víða á svæðinu finnast umfangsmiklar leifar birkiskóga sem þekja um 20 þús. hektara lands og eru um það bil 17% af flatarmáli birkiskóga landsins.

Löng hefð og mikil reynsla er af skógrækt á Suðurlandi. Skógrækt ríkisins hefur ræktað skóg þar í rúmlega 60 ár, fyrst í Múlakoti í Fljótshlíð og seinna í Þjórsárdal, Haukadal, á Tumastöðum, Laugarvatni og í Mosfelli í Grímsnesi. Enn fremur hafa skógræktarfélög, garðyrkjubændur og einstaklingar ræktað skógarreiti víða á svæðinu á síðustu áratugum. Mikil reynsla hefur því fengist af ræktun ýmissa tegunda og kvæma.

Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá hefur unnið mikið starf við skógræktarrannsóknir á síðustu þremur áratugum og fjölmargar þeirra eru nú í gangi á stöðum eins og t.d. í Haukadal, á Mosfelli, Snæfoksstöðum, Gunnarsholti, Sandlækjarmýri og Markarfljótsaurum. Niðurstöður vaxtarmælinga á Suðurlandi sýna að búast má við að hver hektari lands skili fjórum til fimm tengingsmetrum viðar árlega sé miðað við 80--100 ára vaxtarlotu. Þetta er sambærilegt við þær kröfur sem gerðar eru til nytjaskógræktar í norðanverðri Skandinavíu. Meðal tegunda sem reynst hafa vel á Suðurlandi eru stafafura, alaskaösp, lerki, birki, selja og alaskavíðir.

Verkefni um nytjaskógrækt á bújörðum undir umsjón Skógræktar ríkisins hóf göngu sína 1970 á Fljótsdalshéraði en síðar hafa jarðir í Skagafirði, Eyjafirði, Suður-Þingeyjarsýslu, Borgarfirði og á Suðurlandsundirlendinu bæst við. Til samans eru þetta í dag um það bil 147 jarðir og af þeim eru 77 jarðir hluti af Héraðsskógum sem er skógræktarátak til 40 ára á ofanverðu Fljótsdalshéraði og tók gildi með lögum nr. 32 frá 1991.

Segja má að með Héraðsskógum hafi verið riðið á vaðið með þróun umfangsmikillar nytjaskógræktar á Íslandi. Komin er sex ára reynsla á það verkefni og hefur það gefist vel. Nú er kominn tími á næstu skref í skógrækt á Íslandi og að þróa skógræktaráætlun sem geti náð til landsins alls og hafi að geyma þau markmið og leiðir sem henta hverjum landshluta fyrir sig. Það er því mín skoðun að á eftir Suðurlandsskógum, sem hér er mælt fyrir og gerð tillaga um að sé sérverkefni, komi ekki Vesturlandsskógar eða Norðurlandsskógar svo dæmi séu nefnd heldur að við taki ein heildstæð framkvæmdaáætlun fyrir landið allt.

Nytjaskógrækt á bújörðum hófst á Suðurlandi 1989 í Hrosshaga og á Spóastöðum í Biskupstungum. Núna er skógrækt stunduð á 30 lögbýlum og vel á annað hundrað landeigendur eru á biðlista um að bætast í hópinn. Land það sem nýtt er til skógræktar er fyrst og fremst úthagi. Af þeim trjátegundum sem notaðar eru má nefna íslenskt birki, lerki, sitkagreni, alaskaösp, ösp og stafafuru.

Árið 1994 var hleypt af stokkunum átaksverkefni í skjólbeltaræktun á Skeiðum. Á síðustu tveimur árum hefur verið plantað um 30 km að einföldum skjólbeltum. Þrjátíu og eitt lögbýli hefur tekið þátt í verkefninu, samsvarandi verkefni er í gangi í Eyjafirði. Í tvö ár hafa Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins og Garðyrkjuskóli ríkisins gengist fyrir námskeiðum í skógrækt. Bændur á Suðurlandi hafa sótt þessi námskeið mjög vel og eru ágætlega í stakk búnir til að takast á við skógrækt á jörðum sínum. Auk þess hefur Félag skógarbænda á Suðurlandi í samvinnu við skógarþjónustu Skógræktar ríkisins á Suðurlandi haldið fræðsludaga í skógrækt sem hafa einnig verið vel sóttir.

Frv. hefur að geyma ýmsar nýjungar fram yfir Héraðsskógaáætlunina. Af þeim vil ég nefna nokkrar sérstaklega. Í fyrsta lagi má nefna að Héraðsskógar eru eingöngu ræktun nytjaskóga sem svo hafa verið kallaðir og það á einu samfelldu svæði, en á Suðurlandi verður skógræktin dreifð. Til viðbótar við svokallaða nytjaskóga er gert ráð fyrir skjólbeltarækt og landbótaskógrækt en þar er fyrst og fremst lögð áhersla á verndar- og landbótamátt skógarins, fegurð hans og útivistargildi. Alls er stefnt að því að rækta um 20 þús. hektara skógar með þessu markmiði.

Í öðru lagi er ekki bundið í lög hver hlutfallsleg þátttaka ríkisins er í kostnaði. Greiðsla Suðurlandsskóga til stofnkostnaðar verður ákveðin í reglugerð settri af landbrh. að fengnum tillögum stjórnar Suðurlandsskóga. Það er talið betra að binda ekki kostnaðarhlutdeildina í lögum en eðlilegra að meta, t.d. á tíu ára fresti eða til tíu ára í senn, hver hún skuli vera. Ég tel líklegt að í upphafi verði tekið mið af þeirri kostnaðarhlutdeild sem er hjá Héraðsskógum en þar er greitt 97% af samþykktum kostnaði.

Í þriðja lagi er vert að geta þess að önnur leið er farin við endurgreiðslu ríkisframlagsins en hjá Héraðsskógum þar sem gert er ráð fyrir endurgreiðslu sem nemur 30% af hreinum hagnaði við skógarhögg. Í Suðurlandsskógum er einnig gert ráð fyrir endurgreiðslum til ríkissjóðs við skógarhögg en til ríkissjóðs skal greiða 15% af söluverðmæti hvers rúmmetra timburs á rót sem með öðrum orðum er greitt miðað við skráð söluverðmæti timburtrjáa á rót áður en skógarhögg og flutningar fara fram. Þessi aðferð er þekkt erlendis og talin bæði einfaldari og tryggari leið við innheimtu.

Til viðbótar þeim nýmælum sem hér hefur verið greint frá er vert að nefna nokkur atriði er varða undirbúning og skipulag Suðurlandsskóga. Skógrækt hefur afgerandi áhrif á vistkerfið og kemur þar margt til, t.d. skuggi, skjól, breytt snjóalög, þornun jarðvegs, blaðfall, breyttar efnahringrásir og landnám nýrra lífverutegunda. Margar lífverutegundir hverfa af svæðum en aðrar nema land. Ásýnd lands mun einnig breytast. Landslagsþættir eins og klettar, klappir, mannvistarleifar og fleira gætu hætt að sjást.

Ljóst er að skógræktarmenn bera mikla ábyrgð og því mikil nauðsyn að þeir séu meðvitaðir um ofangreind atriði og taki tillit til þeirra við skipulagningu og framkvæmd skógræktar. Mikil reynsla hefur fengist af Héraðsskógaverkefninu, m.a. í áætlanagerð og skipulagsvinnu. Skógræktin hefur nú sett sér sínar eigin vinnureglur þar sem m.a. er forðast einrækt, skógarjaðrar hannaðir með mörgum tegundum til fegrunar og skjóls, skógrækt felld að landslagi, sjaldgæf vistkerfi skilin eftir og svæðum með fornar mannvistarleifar haldið opnum.

Við allan undirbúning Suðurlandsskóga hefur þess verið gætt að taka tillit til sem flestra þátt og sjónarmiða. Í því sambandi vil ég nefna að skógarþjónusta Skógræktar ríkisins á Suðurlandi vinnur nú að gerð landgreiningarkerfis sem tekur á landnotum til skógræktar sem annarra þátta, svo sem ferðamennsku, hefðbundins landbúnaðar, náttúruverndar og fleiri þátta sem land kemur til með að nýtast til í framtíðinni. Stefnt er að frekara samstarfi við sveitarstjórnir, búnaðarsambönd, Skipulag ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins um frekari þróun þessa kerfis.

Í desember sl. ákvað ríkisstjórnin að fylgja eftir þeim hluta framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar sem landbrn. fer með vegna rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og gera átak í landgræðslu og skógrækt fram til aldamóta. Veitt var viðbótarfjármunum til þeirra verkefna og m.a. ákveðið að hefja ræktun fjölnytjaskógræktar á Suðurlandi. Suðurlandsskógar verða þannig fjármagnaðir af átaksfénu og verða liður í því að binda koldíoxíð í gróðri og að bindingin verði aukin frá því sem hún var árið 1990.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. þetta en vísa að öðru leyti til greinargerðarinnar og athugasemda við einstakar greinar svo og mikilla talnalegra upplýsinga sem frv. fylgja. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hæstv. landbn.