Stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 16:00:11 (5172)

1997-04-15 16:00:11# 121. lþ. 102.4 fundur 377. mál: #A stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði# þál., Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[16:00]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau ummæli að segjast vera sammála ýmsum atriðum sem fram koma í þessari þáltill. Ég er hins vegar ekki sammála honum um ýmislegt annað sem hann sagði.

Hann sagði að ýmislegt væri í gangi og ekki efa ég það nú að hæstv. landbrh. sé að vinna að þessum málum. Hins vegar eru mörg álitamál sem er velt upp í þessari tillögu. Af ásettu ráði tók ég ekki afstöðu til þeirra vegna þess að aðferðafræðin er sú að þarna er leiddur til verka hópur sérhæfðra aðila sem á að útfæra stefnumótun til langs tíma. Ég nefni nokkur atriði eins og það hvort sérskólarnir eigi að heyra undir menntmrn. eða landbrn. Ég nefni það vandamál sem ráðherra tók undir, blindgötuvandamálið, sem við þekkjum í landbúnaði. Ég nefni til að mynda hvernig haga eigi háskólakennslu í landbúnaðarfræðum. Á hún að vera innan búvísindadeildarinnar eingöngu með eflingu hennar eða á hún að vera í tengslum við aðra skóla á háskólastigi, hvort sem er Háskóla Íslands eða Háskólann á Akureyri?

Ég varpaði fram spurningu í framsögu minni um sérskólana, hvort þeir ættu að vera sem sérskólar eða í samvinnu við aðra framhaldsskóla, hvort rannsóknir sem núna eru innan Rala ættu heima innan búvísindadeildarinnar eins og menn hafa stundum talað um. Ég er í sjálfu sér ekki viss um það. En það sem ég er að draga fram hér eru nokkuð mörg atriði sem eru mikil álitamál. Það kom ekkert fram í ræðu hæstv. landbrh. hvað hann væri að gera til að svara þessum spurningum. Hann vitnaði hér í skýrslur sem hafa verið unnar, þ.e. skýrsluna um verkaskiptingu hinna þriggja skóla og skýrslu um starfsemi garðyrkjuskólans. Þessar skýrslur þekki ég líka og vitaskuld, og það segi ég af fullri einlægni, eru allar þessar skýrslur mjög góð innlegg inn í það verkefni sem lagt er upp með í þessari þáltill.

Herra forseti. Ég og hæstv. landbrh., og reyndar þeir flokkar sem við erum fulltrúar fyrir á Alþingi og margir aðrir, hafa tekist mjög harkalega á um landbúnaðarmál í mjög mörg ár. Hér er hins vegar fundið svið þar sem menn gætu hugsanlega sameinast um aðkomu sem gæti orðið atvinnugreininni til heilla. Nú veit ég að hæstv. landbrh. og fjölmargir aðrir hv. þm. munu ekki fallast á það að skoðanir mínar á framleiðslustýringu í landbúnaði væru landbúnaðinum mjög til hins góða. Sumir mundu segja að svo væri en aðrir mundu segja að það væri síður en svo. Það er einmitt það sem gert er hér með þessari tillögu, það er lagt upp af hálfu okkar þingmanna jafnaðarmanna, á sérstöku sviði þar sem við kunnum líka til verka sem menn sjá þegar þeir lesa þessa þáltill. Það er rétt út sáttarhönd til að taka saman við aðra aðila til að vinna að þessu máli sameiginlega. Þess vegna varð ég fyrir miklum vonbrigðum með yfirlýsingu hæstv. landbrh. sem sagði: Ja, ég er nú að gera svo mikið í ráðuneytinu, ætli þessi tillaga sé ekki óþörf. Því það er ekki svo, það er ekki verið að vinna í ráðuneytinu að neinni stefnumótun til 10 eða 30 ára eins og sagt er í tillögunni. Vitaskuld veit ég að landbrh. er að velta ýmsum hlutum fyrir sér sem tengjast menntamálum í landbúnaði --- fyrr má nú vera, það er hans starf að gera það. En ekki með því uppleggi sem hér er lagt til.

Það hefur verið gert mikið í menntamálum í landbúnaði, meira að segja hefur hæstv. landbrh. gert ýmislegt til að færa til betri vegar innan núverandi kerfis í landbúnaði. Ég get verið honum ósammála um ýmsa útfærslu í því efni en það breytir því ekki að að mati okkar er nauðsynlegt að taka menntamál í landbúnaði til ítarlegrar skoðunar án fordóma og einfaldlega út frá því sjónarmiði sem ég gerði grein fyrir áðan. Það hafa átt sér stað geysilegar breytingar í landbúnaði, meiri breytingar en í nokkurri annarri atvinnugrein hérlendis. Það kallar á endurmat á svo mikilvægum þáttum sem menntamálin eru. Það er beinlínis rangt ef menn halda að þeir geti haldið áfram gömlu fyrirkomulagi sem er og var vitaskuld barn síns tíma. Í tillögunni er lagt upp með aðferðafræði sem menn ættu að sameinast um. Og ég er nú ekki úrkula vonar um að í landbn. geti menn kannski komist að einhverju samkomulagi um að hrinda þessu verkefni af stað. Því nú hefur það verið svo, herra forseti, að innan landbn. hafa nefndarmenn, þótt þeir komi ekki úr mínum flokki, þeir koma ekki hvað síst úr flokki bæði hæstv. ráðherra og reyndar úr flokki sjálfstæðismanna, þ.e. bæði formaður og varaformaður landbn., sýnt menntamálum í landbúnaði alveg sérstakan áhuga. Þrátt fyrir að mér sýnist undirtektir hæstv. ráðherra ekki vera neitt sérstakar. Mér fannst málið og uppleggið eiga betri óskir skilið og vil ekki útiloka að í landbn. geti e.t.v. skapast meiri samstaða um að koma af stað einhverju skynsamlegu verki sem miðar að því að vinna að stefnumótun í menntamálum í landbúnaði og reyna að setja vinnu í gang til að endurmeta þann þátt landbúnaðarins faglega.