Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 17:16:34 (5186)

1997-04-15 17:16:34# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[17:16]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það hefur auðvitað ekki veitt af að berja á stjórnarflokkunum í þessu máli. Það hafa allir reynt að gera sem hafa haft áhyggjur af þessu ástandi. Námsmannahreyfingin, ýmsir aðilar í þjóðfélaginu hafa ályktað um nauðsyn þess að lagfæra á nýjan leik lánasjóðskerfið og það hefur stjórnarandstaðan á þingi gert svikalaust. Í raun og veru held ég að stjórnarandstaðan hafi bæði á fyrra kjörtímabili og þessu haldið uppi tiltölulega snöfurmannlegri baráttu í lánasjóðsmálinu þó að ýmsir hafi haft hamskipti í þeim efnum eins og kunnugt er, eins og hæstv. félmrh. Þá var ágætur liðsstyrkur af framsóknarmönnum í gagnrýni á stjórnarflokkanna á fyrra kjörtímabili.

Það er að sjálfsögðu alveg ljóst að þessi 7% hafa verið í gildi í lögunum en þau áttu í fyrsta lagi ekki að koma til fyrr en fimm árum eftir að menn voru farnir að borga af námslánum sínum. Í öðru lagi, síðan það var lögfest, hafa verið gerðar breytingar í skattkerfinu hverra samhengi við endurgreiðslur námslána mönnum eru núna ljósar, vegna þess að menn hafa verið að skoða jaðarskattamál og dregnar hafa verið fram svo hrikalegar upplýsingar um hvernig útkoma þessa fólks yrði þegar búið er að auka tekjutengingu barnabóta og fleira sem gert var m.a. á síðasta kjörtímabili, að ég segi það alveg hiklaust að ég hef með sjálfum mér trúað því að þau 7% mundu aldrei verða látin koma til framkvæmda. Hvað hefðu menn verið tilbúnir til að láta lífskjör þessa fólks fara langt niður? Hafa menn skoðað hvernig staða ungs fólks með námslán yrði nýkomið úr námi. Til dæmis fjölskylda með þrjú börn, með húsnæðisskuldbindingar og skattkerfið eins og það er í dag. Hvað yrði eftir af hverjum 100 kr. á tekjubilinu 120--200 þús.? Dæmið er þannig að með 7% endurgreiðslu námslána sem yrðu 16--18% af ráðstöfunartekjunum vegna jaðaráhrifanna þegar þau eru orðin svona, þá yrði nánast ekkert eftir. Það fer næstum því hver einasta króna til baka. Og er einhver hér sem þorir (Forseti hringir.) að koma í ræðustólinn og fullyrða að menn hefðu einhern tímann látið þetta gilda? Ég spyr. (Forseti hringir.) Hafði Framsfl. það í huga að þetta yrði látið vera svona?