Skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 22:27:43 (5231)

1997-04-15 22:27:43# 121. lþ. 102.12 fundur 534. mál: #A skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum# (sjónvarpsstöðvar, tölvuleikir) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[22:27]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Nú lengist óðum verkefnalisti hv. menntmn. Mér sýnist hún eiga að fá ein níu stjfrv. til meðferðar á þeim fáu vikum sem eftir lifa af þessu þingi ef farið verður eftir starfsáætlun þingsins. Svo eru reyndar allmörg mál frá þingmönnum sem mér sýnist nú örvænt um að komist til nokkurrar umfjöllunar í nefndinni á þessum stutta tíma.

En hér er á ferðinni frv. sem er svo sem ekki ýkja umfangsmikið og eitt af því sem ég teldi æskilegt og alveg mögulegt að afgreiða á þessu vori. Ég vil lýsa ánægju minni með að frv. sé hér fram komið og jafnvel þótt fyrr hefði verið. Ég held að þau ákvæði sem hér er að finna séu líkleg til að bæta eitthvað það ástand sem ríkir í þessum efnum og er svo sannarlega áhyggjuefni. Við kvennalistakonur höfum haft miklar áhyggjur af slæmum áhrifum myndmiðla á börn og óharðnaða unglinga og við fengum t.d. samþykkta tillögu, fyrir sjö árum ef ég man rétt, þess efnis að unnin yrði könnun á ofbeldi í myndmiðlum eins og hún hét, ef ég man rétt. En það er náttúrlega fyrst og fremst sá þáttur sem menn telja áhrifamikinn og skaðlegan. Því miður varð víst minna en til stóð úr framkvæmd þeirrar tillögu og er það enn eitt dæmið um það að framkvæmdarvaldið framkvæmir ekki alltaf vilja Alþingis. Hefði þó verið gagnlegt að hafa þær niðurstöður á borðinu sem slík könnun hefði veitt í þeirri umræðu sem hefur verið vaxandi, um slæm áhrif ofbeldis í myndmiðlum því til þess að geta tekið á vandamálinu þarf að þekkja það eins vel og unnt er.

Skaðleg áhrif ofbeldismynda, einkum í sjónvarpi, eru eins og ég segi, mörgum áhyggjuefni og það er einmitt í sjónvarpi sem við erum nánast berskjölduð fyrir þeim áhrifum sem slíkar ofbeldissýningar geta haft. Ég verð að segja alveg eins og er og hér hefur reyndar komið fram áður að manni ofbýður oft hversu hrottaleg atriði eru oft sýnd í þessum aðgangsharða fjölmiðli sem sjónvarpið er og sem heimilin eru svo berskjölduð fyrir. Ég er að minnsta kosti eindregið þeirrar skoðunar að allt þetta ofbeldisefni sem dembt er yfir landslýð, stundum undir einhverju listrænu yfirskyni, eigi sinn þátt í vaxandi hrottaskap í samskiptum unglinga. Ég tel að þetta frv., ef að lögum verður, sé af hinu góða og líklegt til að leiða til úrbóta. En ég vil taka undir með hv. 8. þm. Reykv., um að mér finnst nauðsynlegt að hv. menntmn. taki gaumgæfilega til athugunar hvort ákvæði 2. gr. gefa einhverja viðspyrnu í því efni að hamla gegn því auglýsingaflóði sem hér var til umræðu áðan. Og mér heyrðist hæstv. mennmrh. vera sammála því að það væri ekki hið æskilegasta sjónvarpsefni. Eins og flestir kannast við hefur það stórlega færst í vöxt að kvikmyndir séu auglýstar í sjónvarpi og ekki síst á þeim tímum þegar börn eru almennt vakandi og nálægt sjónvarpi og engin leið í rauninni fyrir foreldra að vita hvað yfir kann að dynja því það tíðkast ekki að vara fólk við efni auglýsinga þótt það gildi um kvikmyndir að varað sé við hrottalegum eða skelfilegum atriðum í þeim kvikmyndum sem á dagskrá eru. Þess vegna hafa margir látið í ljósi þá ósk eða skoðun að sjónvarpsstöðvum verði beinlínis bannað að sýna auglýsingar með ofbeldisfullum atriðum. Ég minni á athugasemdir eða ályktanir frá Barnaheillum og tilmæli frá umboðsmanni barna sem áreiðanlega hafa vonast til þess að breytingar á lögunum gætu tryggt einhverja vernd gegn þessu atriði. Þess vegna vildi ég koma og taka undir þær athugasemdir sem hér koma fram í máli hv. 8. þm. Reykv. og hvetja hv. menntmn. til að taka þetta atriði sérstaklega fyrir og reyna að tryggja að breytingar verði á þessu.