Gjaldtaka lögmanna og fjármálastofnana

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 15:18:23 (5302)

1997-04-16 15:18:23# 121. lþ. 103.10 fundur 567. mál: #A gjaldtaka lögmanna og fjármálastofnana# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:18]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 926 er fyrirspurn frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um gjaldtöku lögmanna og fjármálastofnana. Fyrst spyr hv. þm. hvort ráðherra sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að settar verði reglur um gjaldtöku lögmanna, þannig að sett verði opinber gjaldskrá þar sem m.a. yrði sett þak á innheimtuþóknun lögmanna og aðra gjaldtöku hjá skuldurum í vanskilum.

Frá því snemma vors 1996 hefur verið unnið að því á vegum viðskrn. að semja frv. til innheimtulaga. Gert er ráð fyrir því að leggja megi það frv. fyrir Alþingi haustið 1997. Með frv. er stefnt að því að festa í sessi góða innheimtuhætti hér á landi. Verður reynt að tryggja að eftir gjalddaga peningakrafna, sem eru ekki innheimtar fyrir dómstólum eða utan réttar á grundvelli réttarfarslaga, sé skuldara send innheimtuviðvörun og gefinn kostur á að greiða skuld sína innan tiltekins frests með lágmarkskostnaði. Fær viðskrh. samkvæmt frv. heimild til að kveða á í reglugerð um hámark innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar. Er þannig stefnt að því að skapa hjá innheimtuaðilum almennt, þar á meðal lögmönnum, viðskiptabönkum og sparisjóðum, virkt aðhald við innheimtu peningakrafna fyrir aðra eða fyrir eigin starfsemi.

Í öðru lagi spyr hv. þm. hver sé skoðun mín á hárri gjaldtöku, þóknunum og dráttarvaxtatöku fjármálastofnana vegna vanskila skuldara. Ég vil fyrst nefna dráttarvaxtatöku fjármálastofnana en dráttarvextir eru sem kunnugt er ákveðnir af Seðlabankanum innan þeirra marka sem tiltekin eru í vaxtalögum. Í viðskrn. hefur um nokkurt skeið legið fyrir frv. nefndar sem hafði það hlutverk að endurskoða ákvæði vaxtalaganna. Nefndin lagði til þá meginbreytingu í vaxtamálum að dráttarvextir yrðu gefnir frjálsir þannig að þeir ráðist af samningum manna á milli. Þessi breyting sem vaxtalaganefndin lagði til felur í sér að dráttarvextir geti verið álag á samningsvexti eins og algengt er erlendis en nú er slíkt ekki heimilt hér á landi.

Þá fylgir þessari breytingu einnig að verðtryggð lán geta áfram verið verðtryggð eftir að taka dráttarvaxta hefst en breytist ekki í óverðtryggð lán eins og nú gildir. Vaxtalagafrv. er enn til skoðunar í viðskrn., fyrst og fremst lögfræðilegrar skoðunar, en ég hyggst leggja það frv. fyrir Alþingi næsta haust.

Hvað varðar aðra gjaldtöku banka vegna vanskila skuldara er rétt að geta þess hvernig hún er upp byggð. Að sjálfsögðu er munur á gjaldskránni eftir fjármálastofnunum, eins og á að vera hjá fjármálastofnunum í samkeppni, en í grófum dráttum má segja að gjaldtakan sé þrenns konar: Í fyrsta lagi bætist 400--450 kr. vanskilagjald við skuldina á 7. degi vanskila. Í öðru lagi bætist tvöfalt vanskilagjald eða 800--900 kr. við skuldina eftir mánaðarvanskil. Og í þriðja lagi bætist við 1.000--1.800 kr. kostnaður vegna milliinnheimtu, gjarnan eftir 2--3 mánaða vanskil. Kostnaður vegna milliinnheimtu leggst þó aðeins á einu sinni en ekki við hvern gjalddaga. Milliinnheimtan er eins konar millistig innheimtu skuldara hjá banka eða sparisjóði, þ.e. milli þess að vanskilatilkynningar eru sendar út og þess að krafa er sett í lögfræðiinnheimtu.

Með fyrirhuguðum innheimtulögum sem ég hef vikið að í svari við fyrri spurningunni væri unnt að taka á einstökum atriðum sem tengjast m.a. þeirri gjaldtöku fjármálastofnana sem ég hef hér rætt um.

Í þriðja lagi spyr hv. þm. hvort ég telji rétt að setja fjármálastofnunum reglur um hámarksgjaldtöku vegna vanskila skuldara og/eða að beita sér fyrir aðgerðum sem auðvelda þeim að greiða skuldir sínar sem af ófyrirsjáanlegum orsökum lenda í miklum vanskilum við innlánsstofnanir. Því er til að svara að samkvæmt gildandi lögum er gjaldskrá innlánsstofnana frjáls og óheimilt að hafa samráð á milli stofnana um gerðir hennar. Ég tel eðlilegt að ítreka þau sjónarmið gagnvart fjármálastofnunum að gjaldtaka þeirra sé ávallt rökstudd og endurgjald fyrir veitta almenna þjónustu eða þvingaðar sérhæfðar aðgerðir gagnvart skuldara séu í eðlilegu og rökréttu samhengi við þjónustu eða aðgerðir.

Í framangreindu frv. til innheimtulaga er gert ráð fyrir eins og ég hef greint frá að unnt sé að takmarka innheimtukostnað fjármálastofnana og annarra innheimtuaðila. Hvað varðar sérstakar reglur um viðráðanlega greiðsluaðlögun þegar gjaldþrot blasir við er það að segja að það er hagur fjármálastofnunarinnar fyrst og fremst að semja við viðskiptamenn sína um greiðslu skuldara ef líkur benda til að ella komi til gjaldþrots og ekkert fáist upp í kröfuna. Því tel ég ekki brýna nauðsyn á þessari stundu að setja sérstakar reglur um það gagnvart viðkomandi stofnunum. Hins vegar er ég enn þá þeirrar skoðunar að skynsamlegt væri að setja lög um greiðsluaðlögun sem ekki mundu einvörðungu taka til lánastofnana, bankastofnana og sparisjóða heldur almennt til greiðsluaðlögunar á heildarskuldaupphæðinni sem þá snýr líka að öðrum þáttum skuldanna. Hér höfum við fyrst og fremst verið að tala um afmarkaða þætti skulda einstaklinganna.