Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 11:05:28 (5313)

1997-04-17 11:05:28# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[11:05]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég neyðist til að lýsa ákveðnum efasemdum um að texti í ræðu hæstv. ráðherra þar sem fjallað er um stöðu Schengen-samkomulagsins og væntanleg tengsl þess við stofnanir eða sáttmála Evrópusambandsins sé að öllu leyti í takt við þær aðstæður sem nú blasa við í því máli. Hæstv. ráðherra fjallar um þetta á þann hátt að vaxandi líkur séu á að Schengen-samstarfið tengist stofnunum Evrópusambandsins nánar. Sömuleiðis er talað um að einn mögulegur kostur sé að starfslið ESB taki að sér að annast framkvæmd samningsins en jafnframt sé rætt um að það gæti orðið hluti af reglugerðarverki Evrópusambandsins. Ég hef undir höndum pappíra sem sýna það nokkuð afdráttarlaust að það er nú stefna forustu Evrópusambandsins að Schengen-samningurinn renni inn í Evrópusáttmálann sjálfan. Tillögur forustu Evrópusambandsins um þessar mundir ganga út á það. Afstaða Hollendinga sem á fyrri hluta þessa árs fara með forustu fyrir Evrópusambandinu, eru eindregnar í þessum efnum. Með leyfi, herra forseti, segir í skjali á enskri tungu sem ég hef undir höndum um þetta:

,,The presidency proposals are based on the logic underlying Schengen. They are made on the assumption that the acquis of Schengen will be incorporated into the European Union.`` Og síðan segir: ,,The presidency considers that such full integration of Schengen into the Union would have several positive effects.``

Það er að vísu talað um að gefa þurfi gaum að sérstakri stöðu eða ,,particular situation``, Íslands og Noregs en meira er ekki sagt um þau orð. Aðspurðir hafa talsmenn Evrópusambandsins sagt að það sé vandamál Íslendinga og Norðmanna en ekki Evrópusambandsins hvernig þeim tengslum verður háttað. Svipað orðalag hefur verið haft um Breta sem ekki eru aðilar að Schengen-samningnum eins og kunnugt er. Ég leyfi mér að lýsa þeirri skoðun að staða málsins sé talsvert önnur og miklu alvarlegri í raun fyrir Ísland og Noreg en gefið er í skyn í þessum texta.