Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 11:12:12 (5316)

1997-04-17 11:12:12# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[11:12]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað hefðum við getað gert mun betur grein fyrir þessu máli, en hér er um að ræða tiltölulega stutta ræðu, 30 mín. ræðu þar sem utanrrh. ber að gera grein fyrir stöðu helstu utanríkismála. Það er skýringin á því af hverju kaflinn um Schengen-málið er ekki lengri. Það hefði í sjálfu sér þurft mun lengri ræðu til að gera því ítarleg skil. Ég veit að hv. þm. skilur það, en það er væntanlega tilgangurinn m.a. með þeirri umræðu sem hér fer fram í dag að ræða ítarlegar um ýmis mál eins og t.d. þessi og ég er að sjálfsögðu tilbúinn til þess.

Ég vil taka það sérstaklega fram vegna þess sem hv. þm. sagði að við hefðum farið inn í þetta samstarf undir því yfirskini að vernda Norræna vegabréfasambandið. Það er ekkert yfirskin. Það liggur ljóst fyrir að ef Ísland og Noregur taka ekki þátt í þessu samstarfi, mun Norræna vegabréfasambandið líða undir lok hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Það er blekking að halda öðru fram. Það er miklu betra að ganga þá bara hreint til verks og lýsa því yfir, bæði af hv. þm. og öðrum, að þeir vilji rústa Norræna vegabréfasambandið. (SJS: Var ekki lagt þannig af stað í upphafi?) Var ekki lagt þannig af stað í upphafi? Það var lagt þannig af stað í upphafi --- og það á ekki að vera með þessa eilífu útúrsnúninga í þessu máli --- að við héldum saman þar til að því væri komið að Ísland og Noregur fengju viðunandi lausn. Það er komið að því. Halda menn að Svíþjóð, Finnland og Danmörk hafi ætlað að gefa Íslandi og Noregi neitunarvald í þessu máli? Nei. Þeir ætluðu að tryggja að við fengjum viðhlítandi niðurstöðu. Það hafa þeir gert. Þannig að hér er ekki um neitt yfirskin að ræða heldur blákaldar staðreyndir.