Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 11:14:34 (5317)

1997-04-17 11:14:34# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[11:14]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er nú varla hægt að segja að jörðin hafi bifast undir þessari ræðu hæstv. utanrrh. og framtíðarsýn, stefnufesta og framtíðarviðhorf eru ekki orðin sem spretta upp í hugann eftir að hafa hlýtt á þessa ræðu. Það má kannski gefa henni þá einkunn að hún hafi verið ágætt yfirlit yfir þau erindi sem ferðast annað slagið yfir skrifborð hæstv. utanrrh.

Stefna ráðherrans til þeirra mála sem hins vegar eru núna hvað efst á baugi utanríkismála --- ja, hún liggur óbætt hjá garði. Við stöndum frammi fyrir því að það eru að verða gerbreytingar á landslagi í Evrópu. Evrópusambandið stendur á þröskuldi nýrra tíma og Atlantshafsbandalagið líka. Hver er afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar til þessara mála? Hún kemur ekki fram, herra forseti. Það er alveg sama hvar er borið niður í þessari ágætlega fluttu og enn betur skrifuðu ræðu hæstv. ráðherra, stefna ráðuneytisins kemur ekki fram. Það er sama hvort það eru stór mál eða lítil mál, hæstv. ráðherra hefur tæpast borið fram stefnu í nokkru máli hér í sinni löngu ræðu áðan. Hvaða stefnu hefur t.d. íslenska ríkisstjórnin varðandi Evrópusambandið? Hvaða stefnu hefur ríkisstjórnin varðandi sameiginlegan gjaldmiðil í Evrópu? Hver er stefna íslensku ríkisstjórnarinnar varðandi stækkun NATO? Hvar er stefna hæstv. ráðherra í hafréttarmálum? Hvað vill hann varðandi úthafsveiðar? Og hvaða afstöðu ætlar hann að taka til hvalveiðanna? Og jafnvel mál sem e.t.v. í fljótu bragði virðast ekki skipta miklu eins og Kolbeinseyjarmálið --- hvaða stefnu vill íslenska ríkisstjórnin taka í þessum málum? Hvar eru vinnubrögðin sem hún ætlar að fylgja? Hvaða markmið hefur hún sett sér? Það er afskaplega erfitt, herra forseti, að henda reiður á þessu. Jafnaðarmenn munu fyrir sitt leyti hér í dag taka á ýmsum þessum málum.

Ég ætla að fara yfir þessa ræðu og þetta yfirlit hæstv. ráðherra og fjalla um það nokkrum orðum. Ég ætla byrja, herra forseti, að ræða hérna aðeins stefnuna varðandi Evrópusambandið. Nú fer það ekki á milli mála og liggur alveg ljóst fyrir að jafnaðarmenn eru þeirrar skoðunar að það eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu, það eigi að láta á það reyna. Það er auðvitað umdeilt og það er skiljanlegt að það sé umdeilt. En það er tæpast ásættanlegt þegar við blasir að það eru að verða miklar breytingar á hinu pólitíska landslagi í Evrópu að íslenska ríkisstjórnin hafi enga afstöðu til málsins en hér kemur nánast engin afstaða fram, herra forseti, í þessum örlitla kafla sem fjallar um Evrópusambandið.

Reynslan hefur sýnt það að Framsfl. er ekki lagið að móta heildstæða utanríkismálastefnu. Það þarf ekki annað en að líta aftur til síðasta kjörtímabils og bera saman viðhorf þeirra þá til Evrópska efnahagssvæðisins og afstöðu þeirra núna. Við munum það öll hvernig umræðan þróaðist hér af hálfu Framsfl. á síðasta kjörtímabili. Það var mjög erfitt að henda reiður á afstöðu Framsfl. Það var mjög erfitt að skilja afstöðu hæstv. utanrrh. Þegar hann var að vísu kominn í sitt núverandi embætti þá lét hann hafa það eftir sér á fundi með ungum framsóknarmönnum uppi í sveit í Hvalfirði að ef hann hefði verið í ríkisstjórn þá hefði hann haft aðra afstöðu. Afstaða hans núna dæmir hins vegar fyrri verk hans heldur illa.

Á bls. 4 í ræðu hæstv. ráðherra kemur fram, með leyfi forseta, eftirfarandi viðhorf til Evrópska efnahagssambandsins:

,,EES-samningurinn felur ekki aðeins í sér viðskiptalegan ávinning. Hann færir íslenskum þegnum einnig umtalsverð réttindi. Má þar nefna réttinn til þess að starfa, stunda rannsóknir og nám eða þjálfun í öllum aðildarríkjunum á hinu Evrópska efnahagssvæði.``

Herra forseti. Hér kemur hæstv. utanrrh. og gefur aðildinni einkunnina 10. En þessi sami ráðherra treystir sér ekki til þess að greiða aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu atkvæði sitt. Þetta nefni ég hér, herra forseti, þó að þetta sé e.t.v. aðeins söguleg fótnóta, vegna þess að e.t.v. eru vinnubrögðin og skilningurinn sem birtist í þessum andstæðum í máli og fari hæstv. ráðherra lykillinn að þeim algjöra skorti á stefnumótun sem mér finnst birtast í ræðu hæstv. ráðherra, ef við, herra forseti, veltum því t.d. fyrir okkur hvaða afstöðu íslenska ríkisstjórnin hefur til sameiginlegs gjaldmiðils í Evrópu. Þetta er mál sem mjög ofarlega á baugi í viðskiptalífinu, margar ráðstefnur hafa verið haldnar um það og fyrir liggur að málsmetandi aðilar í viðskiptalífinu, í fjármálalífi Íslendinga, telja að það að standa utan við þetta gæti kostað íslenska efnahagslífið kannski fast að tugum milljarða á einu ári. Auðvitað er þetta umdeilanlegt en spurningin er, herra forseti, hvernig ætla íslensk stjórnvöld að bregðast við þessu? Ætla þau að reyna að meta hvað það kostar að standa utan við þetta eða er það þannig að þetta mál er einfaldlega eins og hæstv. forsrh. sagði á frægum landsfundi; ,,þessi mál eru ekki á dagskrá``. Jafnvel þetta mikilvæga mál virðist ekki vera á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Því þegar maður les það sem á að gera í þessu máli, ja, það kemur að vísu fram að utanrrn. og önnur ráðuneyti hyggjast fylgjast grannt með framvindunni. Það kemur fram að það á að skipa sérstaka nefnd og það er nú u.þ.b. lágmark. Maður skyldi ætla að þessari nefnd væri m.a. falið það verkefni að reyna að meta hver fórnarkostnaður er sem fylgir því að standa þarna fyrir utan og hvort hægt er að finna einhver ráð til þess, þrátt fyrir allt, að taka þátt í þessari framvindu og reyna að hagnast á henni. En það kemur í ljós, herra forseti, að nefndin á ekki að meta það. Hún á ekki að reyna að leggja mat á hvað það kostar okkur að standa þarna fyrir utan. Hún á að safna upplýsingum á einn stað. Það er aðalhlutverk þessarar nefndar, herra forseti.

Ég sagði það í upphafi máls míns að Atlantshafsbandalagið stendur á þröskuldi nýrra tíma. Hér höfum við oft átt orðastað, fulltrúar jafnaðarmanna og fulltrúar ríkisstjórnarinnar, um afstöðuna til stækkunar NATO. Og ég held að það blandist engum lengur hugur um að innan ríkisstjórnarinnr er ekki full sátt um hvaða leið á að fara. Jafnaðarmenn og Sjálfstfl. hafa átt samleið um það að við viljum eins og kostur er styðja málflutning Eystrasaltsríkjanna, styðja umsókn þeirra um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Við teljum að með því séum við að lyfta og virða sjálfsákvörðunarrétt smáþjóða. Það hefur aldrei tekist að draga út úr hæstv. utanrrh. afdráttarlaust fylgi við þessa stefnu. Við vitum, og það kemur fram í þessari ræðu hæstv. ráðherra, hvernig ríkisstjórnin hefur sópað þessum ágreiningi sínum undir teppið. Hún gerir það með því að það er lagt til að öllum umsóknarríkjunum verði boðin aðild á sama tíma og síðan á að láta framganginn ráðast í aðildarviðræðum. Hvað segir síðan hæstv. ráðherra: ,,Að öðrum kosti`` --- segir ráðherrann --- ,,tel ég skynsamlegt að stækkunin verði mjög takmörkuð og einungis fáum ríkjum boðin aðild í fyrstu``. Þetta er út af fyrir sig stefna en þá er auðvitað óhjákvæmilegt, miðað við forsögu málsins, að spyrja hæstv. utanrrh. hvaða ríki þetta eiga að vera? Það verður að koma fram sökum forsögu þessa máls og þeirra yfirlýsinga sem hafa gengið af munni hans og hæstv. forsrh. hvaða ríki þetta eru.

Og enn einu sinni spyr ég fyrir hönd jafnaðarmanna: Mun íslenska ríkisstjórnin fara að þeirri stefnu sem hefur aftur og aftur birst, m.a. í ræðum, greinum og viðtölum við formann utanrmn., hv. þm. Geir Hilmar Haarde, sem skoðanabræður hans og -systur á Norðurlöndunum hafa aftur og aftur lyft upp? Ætlar íslenski utanrrh. að leggja það til að Eystrasaltsþjóðunum verði boðin aðild eða á það að ráðast af því --- er lykillinn að þessu kannski setningin sem hraut af munni hans áðan --- að það sem skipti öllu varðandi framtíðaröryggi Evrópu sé öflugt og farsælt samstarf við Rússland? Það hefur nefnilega komið fram í máli hæstv. ráðherra og í ræðum hv. þm. Jóns Kristjánssonar að Framsfl. er í rauninni búinn fyrir sitt leyti að fallast á það að Rússland hafi neitunarvald í þessu máli. Ég segi --- það er ekki hægt að fallast á það. Jafnaðarmenn geta ekki fallist á það, íslenska þingið getur ekki fallist á það. Við föllumst ekki á þessa finnlandíseringu skoðana, það kemur ekki til mála. Framsfl. getur haldið því fyrir sig en það er ekki hægt að bjóða Íslendingum upp á það. Við eigum samstarf við Eystrasaltsþjóðirnar. Við höfum heitið þeim stuðningi okkar og við höfum sýnt það í verki að við styðjum þá og við verðum að gera það með skeleggari hætti heldur en hér kemur fram. Og ég spyr aftur: Hvaða ríki eru það sem hæstv. utanrrh. telur að eigi að bjóða aðild í fyrstu fari svo að stækkunin verði einungis mjög takmörkuð?

Herra forseti. Eitt er það mál sem hefur aftur og aftur borið á góma í utanríkismálaumræðu síðustu ára og það er afstaðan til hvalveiðanna. Ég segi það líka að nú er mál að menn taki afstöðu í því máli. Hér hafa þingmenn stjórnarflokkanna og reyndar aðrir þingmenn aftur og aftur lýst afstöðu sinni til þess. Hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. hafa líka lýst því og það kemur fram hérna í þessari ræðu að þeir eru á bandi hvalveiða. Þeir vilja skynsamlega nýtingu auðlinda hafsins. En spurningin í þessu tiltekna máli er --- hvaða afstöðu hefur íslenska ríkisstjórnin? Og það er auðvitað hjákátlegt að eins og umræðan hefur þróast þá kemur ekki fram afstaða ríkisstjórnarinnar t.d. til þess hvort við eigum að sækja aftur um aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Nú er það, hygg ég, útbreidd skoðun fyrir utan mjög þröngan hóp innan ríkisstjórnarinnar að það hafi verið mikil mistök af okkur á sínum tíma að ganga úr ráðinu. Og það hafi verið enn meiri mistök að láta plata okkur til þess að taka þátt í því að stofna NAMMCO sem hefur ekkert haft í för með sér nema kostnað. Það er út af fyrir sig eitt atriði sem við þurfum að skoða, --- hvað hefur aðildin að NAMMCO kostað okkur í beinum fjárútlátum? En það þarf að koma hérna fram hver sé afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar til þess að Ísland gangi aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið. Ég fullyrði, herra forseti, að um þetta er ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar. Ég fullyrði það að forusta ríkisstjórnarinnar er ekki alveg sömu skoðunar og t.d. sjútvrh. Það er nauðsynlegt að þessi mál fari að kristallast og við þurfum að ná þessu fram.

Það má margt segja um þann kafla þar sem farið er orðum um úthafsveiðar okkar. Þarna er sérstaklega hælst um það að við höfum náð miklum árangri við samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. Við skulum ekki gleyma því, herra forseti, að á síðasta ári galt stjórnarandstaðan varhug við þeim samningum sem þá voru í gangi. Við töldum að með því væri verið að gefa ákveðið fordæmi til framtíðar um þann hlut sem við eigum að fá úr þessum stofni. Upphaflega var fyrir hönd Íslands fallist á niðurstöðu sem gaf okkur u.þ.b. 17,2% af heildarkvótanum. Talsmenn jafnaðarmanna, talsmenn Alþb., talsmenn Kvennalistans, töldu allir að þarna væri fallist á allt of lítið og miðað við líffræðilega dreifingu og sögulega veiðireynslu ætti a.m.k. að falla í okkar skaut u.þ.b. þriðjungur af veiðunum. Nú með hinum síðasta samningi er þetta hlutfall enn þá lækkað. Það er lækkað niður í u.þ.b. 15%. Það er ekki hægt annað en að mótmæla þessu. En menn þurfa að skoða þetta mál í botn og kanna hvort í þessu felist einhver sóknarfæri á öðrum vígstöðvum. Á hverju byggðust rökin sem lágu því til grundvallar að Norðmenn féllust á og börðust fyrir því að Evrópusambandið fengi drjúgan veiðikvóta? Ekki á því að Evrópusambandið hefði nokkra sögulega veiðireynslu, ekki á líffræðilegri dreifingu síldarinnar, því samkvæmt útreikningum íslenskra vísindamanna hefði það átt að gefa þeim í hæsta lagi 22 þúsund tonn. Rökin byggðust fyrst og fremst á því að það var talið nauðsynlegt að koma stjórn á veiðarnar. Nú tel ég að það sé nauðsynlegt að við látum reyna til þrautar, einmitt á grundvelli þessara sömu röksemda, hvort ekki sé hægt að leiða til lykta deilu okkar um þorskveiðar í Barentshafi. Ég tel, herra forseti, að forseti Íslands í sinni vel heppnuðu heimsókn til Noregs fyrr á þessum vetri hafi opnað þar ákveðna glufu. Í kjölfar þeirrar heimsóknar og yfirlýsinga forseta lýðveldisins og norskra forustumanna hafi ákveðið lag verið til þess að leiða þetta til lykta, nota þær röksemdir sem Norðmenn sjálfir höfðu haft uppi í málflutningi sínum gagnvart norsk-íslenska síldarstofninum, til þess að láta þá fallast á kvóta okkur til handa og ljúka þessari deilu. En það kemur fram í þessari ræðu hæstv. utanrrh. að það er nákvæmlega ekkert að gerast í þessu máli, ekki neitt. Og þó voru tækifærin núna miklu betri heldur en þegar hæstv. ráðherra tók við embætti og hældist um af því að það yrði léttur vegur fyrir hann og ríkisstjórnina að ná samningum og lét að því liggja að það hefði einungis verið fyrir þrákelkni og óbilgirni fyrrverandi utanrrh. að það tókst ekki.

Það er nauðsynlegt að fá svör við þessu, herra forseti. Það er líka annað mál sem ég hefði gjarnan viljað ræða hérna og það er Kolbeinseyjardeilan og hvernig hæstv. utanrrh. hefur haldið á öðru deilumáli sem varðar einmitt einhliða útfærslu, sem ég kalla svo, Norðmanna á efnahagslögsögu sinni við Svalbarða en afstaða utanrrn. til þess máls var fordæmanleg. Mótmæli voru engin. Íslenski utanrrh. bugtaði sig fyrir norskum starfsbræðrum sínum og bauð Íslendingum upp á yfirgang þeirra. Hér í þessum sölum tók hann undir rök þeirra sem ég get með engu móti fallist á, það voru falsrök. En það sem skiptir miklu máli er að linkan sem birtist þar hlýtur að vera öðrum þjóðum fordæmi í deilum við okkur. Og við eigum í deilum við Dani um skiptingu hafsvæðanna milli Grænlands og Íslands. Við eigum í erfiðri deilu þar, og þar tel ég að allt önnur viðhorf séu að skapast heldur en áður og ég mun e.t.v. ræða það síðar í dag. En ég tel að það hvernig hæstv. utanrrh. tók á einhliða útfærslu Norðmanna í Barentshafi gefi öðrum það til kynna að hægt sé að fara að Íslendingum með hörku vegna þess að fordæmið er fyrir hendi --- við gefumst upp.