Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 11:29:47 (5318)

1997-04-17 11:29:47# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[11:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að svara öllum rangtúlkunum hv. þm. á þessu máli. Ef hv. þm. ætlar að láta taka sig alvarlega í þessari umræðu verður hann a.m.k. að lesa textann rétt og vera ekki að gera mönnum upp skoðanir út og suður án þess að hafa nokkuð til að byggja á. Þó hann stundi slíkt í Alþýðublaðinu, þá held ég að hann ætti að endurskoða hvernig hann talar á Alþingi um alvarlegan málaflokk eins og utanríkismál.

Ég vil þá koma að einu mjög mikilvægu og alvarlegu máli sem er stækkun Atlantshafsbandalagsins. Og hvað stendur hér? Þó að hv. þm. geti hvergi lesið neina stefnu og neina niðurstöðu þá stendur hér: ,,... enda yfirlýst stefna okkar að styðja aðild þeirra í fyrstu umferð``, --- að það sé yfirlýst stefna Íslands að styðja Eystrasaltsríkin í fyrstu umferð. Það stendur ekkert annað hér. Síðan stendur: ,,Ef það verður ekki`` --- sem má vel vera --- ,,þá teljum við að það sé skynsamlegast að stækkunin verði mjög takmörkuð og einungis fáum ríkjum boðin aðild í fyrstu.`` Það liggur náttúrlega fyrir að þau ríki munu fyrst fá aðild sem best eru undir aðildina búin, bæði með lýðræðislegum stjórnarháttum og breytingum í sínu landi. Ég held að það sé óumdeilt að þau ríki sem best eru búin undir breytinguna eru Pólland, Tékkland og Ungverjaland. Og ég held að í sjálfu sér þurfi ekkert að deila um það. En þar með er ekki sagt að það verði einu ríkin sem koma inn í fyrstu umferð.

Að því er varðar Evrópumyntina þá vil ég minna hv. þm. á að málið stendur ekki um það að Íslendingar gerist aðilar að þessu myntbandalagi. Við verðum að gerast aðilar að Evrópusambandinu til þess, en við fylgjumst að sjálfsögðu mjög náið með þróuninni og ég skal gera betur grein fyrir því síðar. En ég bið hv. þm. að lesa textann betur.