Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 12:38:51 (5326)

1997-04-17 12:38:51# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SF
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[12:38]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. utanrrh. fyrir ræðu hans. Hún var mjög yfirgripsmikil og að sjálfsögðu er ekki hægt að taka á öllum málum þar í hnotskurn. En væntanlega mun hæstv. ráðherra svara þeim fyrirspurnum sem hafa komið hér fram síðar. Ég er afar ánægð með þá áherslu sem kemur fram í þessari ræðu á viðskiptaþjónustu utanrrn. Ég held að það sé gífurlega mikilvægt fyrir útrás fyrirtækja og það sé mjög jákvætt fyrir lítið land og fámennt eins og okkar að ráðuneytið hefur lagt svona mikla vinnu í þetta mál. Fyrirtæki hér á Íslandi eru mjög smá á alþjóðlega vísu. Þau eru míkróskópísk á heimsmælikvarða eins og við vitum og því þurfum við mjög mikla útsjónarsemi til þess að koma okkur á framfæri og til þess að keppa í æ minnkandi heimi. Þessum málum er komið í sérstakan farveg með því að opna viðskiptaþjónustu á vegum utanríkisþjónustunnar.

Við búum yfir sérþekkingu á ýmsum sviðum eins og fram kemur í ræðu hæstv. utanrrh. og þar á meðal á sviði sjávarútvegs. Við höfum haslað okkur völl víða um heim á þeim vettvangi en það eru fleiri tækifæri sem blasa við bæði í hörðum viðskiptaheimi, einnig getum við aðstoðað önnur ríki í sjávarútveginum. Þar er nærtækast að nefna nýtt tækifæri fyrir okkur sem utanrmn. hefur einmitt aðeins rætt. Nýlega var í heimsókn hjá okkur Horta, friðarverðlaunahafi Nóbels frá Austur-Tímor. Í heimsókn hans hér kom fram að Austur-Tímor er land sem við gætum aðstoðað varðandi sjávarútveg. Íbúar þar búa í fjalllendi í miðju landi, en þetta er eyja, og hafa ekkert nýtt sjávarafurðir sínar, og í máli Hortas kom fram að þar eru afar gjöful fiskimið og að við gætum aðstoðað þá á þeim vettvangi. Ég veit að Horta ræddi þetta við hv. utanrrh. sem ætlaði að skoða það mál nánar.

Varðandi Norðurlöndin og norræna samvinnu vil ég taka fram í ræðu minni að það hafa orðið talsverðar breytingar á norrænu samstarfi á síðustu missirum. Þær breytingar fólust aðallega í því að fagnefndir Norðurlandaráðs voru lagðar niður og komið var upp þremur stærri nefndum. Þær voru ekki fagnefndir, má segja, heldur var þeim skipt upp eftir landsvæðum og þar á ég við Evrópunefnd Norðurlandaráðs, nærsvæðanefnd Norðurlandaráðs og Norðurlandanefndina svokölluðu. Norrænt samstarf hefur þannig beinst meira inn á málefni Evrópu og grannsvæða Norðurlanda með þessari nýju skipan. Ég tel að þessi breyting hafi tekist betur en ég bjóst við í upphafi. Að vísu má segja að við séum enn á breytingaskeiðinu í þessari nýju skipan, en þetta lofar góðu. Breytingin fólst einnig í því að við tókum upp pólitíska skiptingu í Norðurlandaráði þar sem löndin eru ekki eins mikilvæg í stefnumótun heldur flokkahópar. En með þessari skiptingu hefur kastljósið beinst meira að Evrópu og að grannsvæðunum. Eins og allir vita er mjög mikilvægt fyrir öryggi á Norðurlöndunum og í Evrópu að vel takist til við að styðja lýðræðisþróun grannsvæða okkar og þá á ég við Eystrasaltsríkin. Þau eru að fara í gegnum miklar breytingar og mikilvægt er að þau fái alla mögulega hjálp okkar til þess að vel takist til. Norðurlöndin hafa sérstaklega beint sér að þessu verkefni með ýmiss konar beinum stuðningi svo sem í gegnum Norræna fjárfestingarbankann og stofnunum tengdum honum. Einnig með mórölskum stuðningi, með því að styðja t.d. ósk Eystrasaltsríkjanna um inngang í Evrópusambandið. Þá vil ég taka það fram að Ísland og Noregur, sem eru ekki aðilar að Evrópusambandinu eins og allir vita, styðja samt þessa ósk Eystrasaltsríkjanna um að ganga inn í Evrópusambandið. Sem dæmi um hvernig Norðurlandaráð hefur komið að þessum málum get ég nefnt hér að Norðurlandaráð stóð nýlega fyrir ráðstefnu í Lettlandi varðandi þessi mál. Þar voru nærsvæðanefnd Norðurlandaráðs og Evrópunefndin skipuleggjendur sameiginlega. Ráðstefnan var um það hvernig Norðurlöndin gætu aðstoðað Eystrasaltsríkin við að ganga farsællega í gegnum samningaviðræður sínar við Evrópusambandið, þ.e. um það hvernig þjóðþingin sjálf kæmu að þessu ferli og hvaða áhrif þjóðþingin gætu haft á samningaviðræðurnar. Það er til mjög mikil reynsla á þessu sviði á Norðurlöndunum þar sem öll Norðurlöndin hafa gengið, má segja, í gegnum þetta ferli. Noregur gekk í gegnum þetta ferli þó að þeir höfnuðu inngöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu og við Íslendingar höfum einnig ákveðna reynslu í þessum samskiptum vegna okkar EES-samninga.

[12:45]

Þessi ráðstefna var haldin í Lettlandi og hana sóttu 15 þingmenn frá hverju Eystrasaltsríkjanna, þ.e. 45 þingmenn frá þeim. Þar kom fram að mjög mikil vinna er í gangi í Eystrasaltsríkjunum sem gengur út á að gera þessi samfélög hæfari til að ganga inn í Evrópusambandið. Þeir telja sig þurfa talsverða aðstoð í samningaviðræðunum. Það kom einnig fram að sú aðstoð gæti m.a. falist í formi aðstoðar við að þýða skjöl og túlka, að slíkt væri mjög brýnt. Þarna kom einnig fram mjög áhugavert verkefni sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir að væri svona öflugt, þ.e. það sem kallað var tvíburaverkefni. Það skilst mér að sé verkefni þar sem persónuleg samskipti milli embættismanna í Eystrasaltsríkjunum og embættismanna á Norðurlöndunum eiga sér stað. Danmörk var sérstaklega nefnd í þessu sambandi. Þessi samskipti eru mjög mikilvæg. Þeir geta haft beint samband við kollega sína á Norðurlöndunum.

Þetta var í fyrsta skipti sem ég hef komið til Eystrasaltsríkjanna og fyrir mér opnaðist má segja nýr heimur. Ég hef trú á að í framtíðinni muni samskipti okkar verða mjög mikil við Eystrasaltsríkin. Við Íslendingar finnum fyrir mikilli velvild í þessum ríkjum. Það kom mjög greinilega fram hjá þingmönnum sem sóttu þessa ráðstefnu að þeir þekkja vel til okkar og okkar hlutar í sambandi við að styðja þeirra sjálfstæðisbaráttu. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson er þekktur þarna og einnig er Halldór Ásgrímsson ágætlega þekktur meðal þingmanna þannig að þetta var ákaflega ánægjuleg upplifun.

En það eru önnur atriði í norrænu samstarfi sem að mínu mati eru ákaflega mikilvæg og ég ætla að drepa aðeins á þau. Það er m.a. Barentssamstarfið og hvernig það hefur komið, ásamt nærsvæðanefnd Norðurlandaráðs, að málefnum Kólaskaga. Aðeins hefur verið drepið á það í ræðum annarra þingmanna, en það er mjög mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að tekið verði á veru kjarnorkukafbáta í kringum Kólaskagann. Þar tifar tímasprengja og það verður að taka á því máli. Það er okkur mikið hagsmunamál og Norðmönnum sérstaklega að það verði samstillt átak gert til þess. Eins og allir vita er sjávarútvegur okkur mikilvægur og markaðirnir mjög viðkvæmir. Ég held að enginn hafi gleymt ormafárinu sem reið yfir okkar markaði fyrir nokkrum árum. Þá duttu niður viðskipti allverulega og nokkurn tíma tók að byggja þau upp aftur. Öll slys sem geta orðið þarna uppi í Barentshafinu geta því haft stórkostlegar afleiðingar fyrir okkur. Hvort sem það er réttmætt eða ekki. Þá á ég við að neytendur eru afar viðkvæmir. Ef þeir telja fiskafurðirnar ekki heilnæmar þá kaupa þeir þær ekki.

En fyrst ég er hér að ræða um málefni Norður-Skandinavíu þá ætla ég að halda mig á þessum norðlægu slóðum og lýsa þeirri skoðun minni að við Íslendingar eigum að skoða mjög alvarlega að opna sendiráð í Finnlandi. Ég hef drepið á þetta áður hér. Þessi skoðun mín byggist á því að með náinni samvinnu við þau ríki sem eru í Evrópusambandinu þá getum við komið okkar sjónarmiðum betur á framfæri þar. Finnland er aðili að Evrópusambandinu og þeir hafa ákveðna hagsmuni sem ég tel vera tengda okkur. Finnland er jaðarsvæði í Evrópu eins og Ísland. Þeir hafa mikla reynslu og þekkingu af samskiptum bæði við Rússa og Eystrasaltsríkin og ég tel að gott væri fyrir okkur að læra eitthvað af þeim og geta haft tengsl við þá í gegnum sendiráð, íslenska sendiráðið í Finnlandi þá væntanlega. Þeir eru ekki í samkeppni við okkur á sjávarútvegssviðinu þannig að ég tel að þeir gætu orðið afar vænlegur bandamaður fyrir okkur í framtíðinni. Ég tel því æskilegt að við skoðum þann möguleika mjög alvarlega að opna sendiráð í Finnlandi. Norræn samvinna er okkur nokkurs konar gluggi inn í Evrópu. Ég veit til þess að hæstv. utanrrh. er að vinna að því að við Íslendingar ásamt öðrum norrænum ríkjum stillum betur saman okkar strengi og komum upplýsingaflæði í betra horf á norrænum vettvangi og komum okkur upp tengiliðum í Evrópusambandinu, þ.e. í Brussel. Ég veit að hæstv. utanrrh. er að vinna mjög vel að þeim málum.

Evrópunefnd Norðurlandaráðs, sem ég á sæti í og þess vegna beinist mál mitt svolítið mikið að þeim þætti, hefur lagt mikla áherslu á að norræn ríki komi sjónarmiðum sínum vel á framfæri innan Evrópusambandsins og þá sérstaklega á ríkjaráðstefnunni. Þar hafa Norðurlöndin lagt áherslu á málaflokk eins og umhverfismál, neytendamál og lýðræði. Nefndin hefur staðið fyrir ráðstefnum um þessi mál á norrænum vettvangi þar sem norrænir þingmenn hafa komið saman ásamt Evrópuþingmönnum. Nefndin hefur einnig staðið fyrir svokallaðri yfirheyrslu eða ,,høring`` norrænna utanríkisráðherra þar sem þeir voru yfirheyrðir um framgöngu sinna ríkja á ríkjaráðstefnunni.

Evrópunefndin mun á næstunni beita sér meira að því að fara yfir Myntbandalagið svokallaða. Sú umræða hefur farið fram á Norðurlöndunum en hún hefur ekki verið í deiglunni hér. En ég býst við að hún muni verða meiri hér á næstunni en verið hefur.

Varðandi Ísland og Evrópubandalagið sérstaklega þá tel ég mjög æskilegt að við Íslendingar fylgjum þeirri stefnu að vera eins nærri Evrópusambandinu og við getum án þess að ganga inn í það. Við erum hluti af innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn og eigum því mjög mikið undir stefnu Evrópusambandsins og það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur að Evrópusambandið taki þá stefnu sem hentar okkur. Því verðum við að samþætta okkar starf sem mest að stefnu Evrópusambandsins, en ég undirstrika, án þess að ganga inn í það. Schengen-samstarfið er einn nýjasti flöturinn. Með því að taka þátt í Schengen-samstarfinu erum við innan ytri landamæra Schengen-svæðisins þar sem í verða langflest eða nánast öll Evrópusambandsríkin.

Varðandi aðkomu okkar að Evrópusambandinu vil ég líka koma þeirri skoðun minni á framfæri að ég tel að við Íslendingar ættum að skoða hvort ekki sé rétt að reyna að koma upp einhvers konar ferli þannig að þingmenn og aðrir sem hafa samskipti við þingmenn og önnur leiðandi öfl í Evrópu samræmi málflutning sinn reglulega einhvern veginn. Ég geri mér grein fyrir því að slíkt getur verið erfitt en ég tel að utanrrh. ætti að hugleiða hvort hægt sé að gera þetta. Norðmenn hafa samkvæmt mínum upplýsingum gert þetta og við gætum trúlega lært af þeirra reynslu. Ég tel þetta afar brýnt. Það vita allir að utanríkisþjónusta okkar er mjög fámenn. Við höfum ekki stóran hóp fólks sem við getum sent mjög oft erlendis. Það kostar allt peninga. Það er því mjög brýnt að málflutningurinn sé samræmdur til hins ýtrasta hvað varðar þau samskipti sem við þó höfum.