Setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 13:42:31 (5331)

1997-04-17 13:42:31# 121. lþ. 105.95 fundur 290#B setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[13:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Reglugerðin um tekjutryggingu sem hér er til umræðu á sér ekki stoð í lögum, eins og frummælandi kom inn á í ræðu sinni, og ég vil þakka henni fyrir að vekja máls á þessu sem hefur verið mikið óréttlætismál og ég hef bent á nokkrum sinnum í blaðagreinum.

Það er ekkert í lagagreinunum sem snúa að tekjutryggingunni sem heimilar þessa reglugerð og er hún í reynd gagnstæð lagagreininni. Reglugerðin er einnig andstæð og jafnvel brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar, sem minnst var á áðan, þar sem segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis o.s.frv. og stöðu að öðru leyti. Sá sem missir vinnuna og fær greiddar atvinnuleysisbætur fær þær greiddar án tillits til tekna maka sé hann í sambúð eða hjónabandi. Hann fær sínar 53.784 kr. óskertar á mánuði. Missi hann heilsuna þá byrja lífeyrisgreiðslur til hans að skerðast þegar laun maka fara yfir tæpar 37 þús. kr. Þá byrja greiðslurnar úr tryggingunum að skerðast hjá lífeyrisþeganum. Ungt fjölskyldufólk sem missir heilsuna fær því oft ekki nema grunnlífeyri greiddan úr tryggingunum, eða um það bil 13 þús. kr. Framfærslunni er kippt af þeim og þeir verða eins og þurfalingar á maka sínum. Þetta er niðurlægjandi og brýtur niður hinn sjúka bæði andlega og oft líkamlega einnig. Öryrkjum er þarna mismunað vegna hjúskaparstöðu og einnig eftir því hvort þeir eiga við atvinnuleysi eða heilsubrest að stríða. Slík mismunun er andstæð anda stjórnarskrárinnar. Reglugerðin er einnig að mínu mati brot á 11. gr. stjórnsýslulaganna sem segir að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti og sé beinlínis óheimilt að mismuna aðilum á grundvelli þjóðfélagsstöðu eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Hér er verið að brjóta lög ekki ein heldur fleiri á þeim sem síst skyldi og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Þessi reglugerð grefur undan hjónabandinu og möguleikum öryrkja til sambúðar. Þetta lögbrot og misrétti verður að leiðrétta.