Setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 13:56:48 (5337)

1997-04-17 13:56:48# 121. lþ. 105.95 fundur 290#B setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[13:56]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið þá er ljóst að allir eru sammála um að jafnvel sé um stjórnarskrárbrot að ræða með þessari reglugerð og hún hafi greinilega ekki lagastoð. Við getum að sjálfsögðu látið heilbr.- og trn. skoða hvort um lagastoð sé að ræða en ég er sannfærð um að hún er ekki fyrir hendi og þetta er brot á þeim lögum sem ég nefndi hér á undan í máli mínu. Ég er með tilbúið lagafrv. sem breytir almannatryggingalögunum í þá veru að ekki verði unnt að brjóta á þessum hópi áfram eins og hefur verið gert hingað til. Það skiptir ekki máli hvenær reglugerðin var sett eða lögin, þetta er mannréttindabrot. Þetta er brot á þessum hópi og það þýðir lítið að tala um fjölskylduna sem hornstein samfélagsins því hún fer nú fyrir lítið hjá þeim fjölskyldum þar sem menn verða fyrir því að missa heilsuna. Ég þekki mörg dæmi þess að fjölskyldur hafa brotnað, hjónaböndin þola ekki það álag sem þau þurfa að bera þegar svona stendur á og þessar reglur koma til fullra framkvæmda. Það er staðreynd og mörg hjónabönd hafa brotnað vegna þessa. Við erum að brjóta mannréttindi á þessu fólki og við verðum að leiðrétta þetta. Ég tel að þetta sé bæði brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga. Ég hvet því menn til að vera með slíku frv. og við leggjum það hér fram og leiðréttum þetta óréttlæti því þessi reglugerð hefur farið illa með nógu margar fjölskyldur og tími er til kominn að því linni.