Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 15:43:15 (5356)

1997-04-17 15:43:15# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[15:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka það sem hér hefur m.a. komið fram, en það er nú svo að það efni sem hv. þm. hefur réttilega komið hér á framfæri og spurt mig um er það yfirgripsmikið að mér mundi ekki einu sinni nægja sá tími sem ég hef til svara, eða 15 mínútur síðar í þessari umræðu, bara til að svara henni. Það sýnir að nokkru leyti að við erum í vissum vanda með þessa umræðu. Hér hefur komið fram mjög hörð gagnrýni á utanrrh. fyrir að segja ekki miklu meira á 30 mínútum. Það má vel vera að hægt sé að fá utanrrh. sem getur lesið hraðar og ég sé ekki betur en það sé þá eina leiðin til þess að koma meiru á framfæri að gera það þannig því að ég þyrfti að sleppa ákveðnum köflum úr minni ræðu. Þetta er ekki vegna þess að utanrrh. sé ekki tilbúinn til að hafa um þetta miklu fleiri orð og gera þessu máli skil með miklu skýrari hætti. Ég segi fyrir mig að mér finnst mjög miður að þurfa að sitja undir ámælum þingsins ár eftir ár fyrir það að segja ekki meira í þinginu en síðan hafi ég ekki heimild til að tala hér. Ég bið því hv. forsætisnefnd að taka til umfjöllunar hvernig megi leysa úr þessu máli fyrir hönd þingsins þannig að bærileg sátt geti ríkt um það.

Ég er búinn með þann tíma sem ég ætlaði til svara hv. þm. í andsvörum. Ég vil þakka að hún hefur komið mjög inn á kjarnorkuvá í kringum landið, en það er mikill grundvallarmunur á okkar skoðunum vegna þess að ég tel að aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu tryggi það að við getum tekið á þessum málum og hjálpi okkur til þess að taka á þessum málum en ekki hið gagnstæða þannig að það að segja sig úr Atlantshafsbandalaginu þýddi að næsta vonlítið væri fyrir okkur að taka á þessum málum. En ég get kannski komið betur inn á það í síðara andsvari.