Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 17:06:36 (5373)

1997-04-17 17:06:36# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að við þyrftum að geta tekið að okkur margvísleg verkefni. Við nefnum sem dæmi að við hefðum í reynd átt að taka sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á næsta ári. Við treystum okkur ekki til þess af því að við höfum ekki nægilegan mannafla til að sinna því. Það má segja að það sé gagnrýni vert en það er sannleikur og það þýðir ekkert fyrir okkur að reyna að sinna slíkum verkefnum nema við höfum burði til þess. Það sama á við um öryggisráðið. Það hefur verið nefnt sem dæmi að Grænhöfðaeyjar hafi átt sæti í öryggisráðinu. Það er rétt. En við þurfum líka að spyrja þeirrar spurningar: Sinntu þeir því með þeim hætti sem við hefðum viljað gera? Ég vil ekki gagnrýna það ríki á einn eða annan hátt. En ég segi einfaldlega: Ég er andvígur því að Ísland taki sæti í öryggisráðinu nema við höfum burði til þess og setjum til þess nauðsynlegan mannafla. Þar erum við ekki að tala um einn eða tvo menn. Það þýðir verulega fjölgun í New York og það þýðir líka allmikla fjölgun í utanrrn. vegna þess að þar verður í reynd að vera vakt allan sólarhringinn. Við verðum alltaf að vera tilbúnir til að svara okkar mönnum á staðnum. Það þýðir líka ábyrgð gagnvart öðrum þjóðum. Það þýðir upplýsingaskyldu gagnvart hinum Norðurlöndunum o.s.frv. Ég er ekki að segja með þessu að við ættum alls ekki að gera þetta. Ég er aðeins að nefna þetta sem dæmi um að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við getum ekki verið alls staðar. Við þurfum að forgangsraða og þar vil ég ekki síst nefna þróunarmál sem við höfum svo sannarlega vanrækt og þar þurfum að gera betur.