Samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 17:30:59 (5377)

1997-04-17 17:30:59# 121. lþ. 105.3 fundur 555. mál: #A samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:30]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um fullgildingu samnings sem gerður var í París 22. september 1992. Samningi þessum er ætlað að koma í stað tveggja alþjóðasamninga, Óslóarsamningsins frá 15. febrúar 1972, um varnir gegn mengun sjávar vegna losunar úrgangsefna frá skipum og flugvélum, og Parísarsamnings frá 4. júní 1974, um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum.

Ísland er aðili að báðum þessum samningum. Tilmæli og allir aðrir samningar sem samþykktir hafa verið samkvæmt Óslóar- og Parísarsamningnum halda þó gildi sínu að því marki sem þeir samrýmast samningi þessum. Samningurinn um verndun Norðaustur-Atlantshafsins, sem nefndur hefur verið OSPAR-samningurinn, öðlast gildi þrjátíu dögum eftir að allir samningsaðilar Óslóar- og Parísarsamninganna hafa afhent skjöl um fullgildingu, samþykki, staðfestingu eða aðild til vörslu frönsku ríkisstjórnarinnar.

Óslóar- og Parísarsamningarnir höfðu það að markmiði að koma í veg fyrir mengun í Norðaustur-Atlantshafinu. OSPAR-samningurinn mun leysa þá af hólmi að þessu leyti en auk þess er honum ætlað að stuðla að því eftir því sem kostur er að mengun sem fyrir er verði útrýmt. Við gerð hans var byggt á þeirri reynslu sem fengist hafði við framkvæmd eldri samninganna tveggja og jafnframt tekið mið af breyttum viðhorfum í umhverfismálum. Samningnum er ætlað að stuðla að samvinnu samningsaðila til að ná framangreindum markmiðum og bæta stjórnun, umhverfisvöktun og mat á ástandi hafsins. Með samningnum er m.a. stefnt að því að koma í veg fyrir varp eiturefna í hafið. Samningurinn hefur að geyma ákvæði um beitingu ýmissa grundvallarreglna umhverfisréttar, svo sem varúðarreglunnar, mengunarbótareglunnar og reglunnar um bestu tiltæku tækni og bestu umhverfisvenjur.

OSPAR-samningurinn er rammasamningur sem skiptist í meginhluta, fjóra viðauka og tvo viðbæta.

Meginhlutinn hefur að geyma almenn ákvæði og í viðaukunum eru settar reglur um mengun frá landstöðvum, mengun af völdum varps eða brennslu, mengun frá uppsprettum á hafi og mat á ástandi hafsins. Viðbætarnir eru tæknilegs eðlis. Uppbygging samningsins miðast við að hann sé sveigjanlegur og geti rúmað ný svið sem ekki voru fyrirsjáanleg þegar samningurinn var gerður.

Hér á landi eru í gildi lög nr. 20/1972, um bann við losun hættulegra efna í sjó, og lög nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar. Síðarnefndu lögunum var breytt með lögum nr. 61 frá 3. júní 1996 m.a. í tilefni af væntanlegri fullgildinug á OSPAR-samningnum. Frekari lagabreytinga er ekki þörf til að unnt verði að standa við skuldbindingar Íslands verði samningurinn fullgiltur af Íslands hálfu.

Herra forseti. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða sem snertir hagsmuni Íslands og ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.