Breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 10:44:56 (5403)

1997-04-18 10:44:56# 121. lþ. 106.92 fundur 293#B breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[10:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hlýt auðvitað að taka undir það hér að röðun mála er afar sérkennileg í ljósi þess að það frv. sem við höfum nú verið að ræða um, breytingarnar á lögum um tekju- og eignarskatt í tengslum við gerð kjarasamninga, á að hafa efnisleg áhrif strax um næstu mánaðamót. Það hefur legið fyrir alveg frá því að niðurstaðan varð í þessari tillögugerð af hálfu ríkisstjórnar og samkomulag tókst um kjarasamninga svona að miklu leyti og þeim furðulegri er sú forgangsröð sem hefur t.d. verið á framlagningu og fyrirtöku mála hér síðustu dagana. Það er búið að taka fyrir fjöldann allan af stjórnarfrumvörpum sem sum á væntanlega að afgreiða, önnur jafnvel ekki, og hér hefur verið eytt tíma í þau síðustu vikuna og rúmlega það, en þetta forgangsmál hæstv. fjmrh. liggur hér eftir og er fyrst að komast að núna á þessum föstudagseftirmiðdegi sem átti ekki einu sinni að vera fundadagur samkvæmt starfsáætlun Alþingis. Og maður spyr sig auðvitað að því hvort hæstv. fjmrh. sé svona algjör hornreka að hann sé píndur til að vera með sín brýnustu mál aftast á listanum hjá hæstv. ríkisstjórn. Hver stjórnar þessu? Er það forseti þingsins eða er það forsrh. eða hver er með puttana í þessu? Hver er að kvelja hæstv. fjmrh. svona?

Vegna þess sem hér kom fram um gildistöku hluta af þessu frv. þá sýnist mér eftir fljóta athugun á því að það séu fyrst og fremst tvö ákvæði til bráðabirgða, þ.e. ákvæði til bráðabirgða I og hluti af ákvæði til bráðabirgða III sem þurfa helst að öðlast gildi fyrir 1. maí. Ég held að það liggi þannig að eigi þessar breytingar á annað borð að verða, þá sé öllum fyrir bestu að reyna að gera þær strax. Hitt er hálfgert klúður þó að vissulega væri hægt að leiðrétta þetta eftir á.

Ég vil svo nefna einn annan hlut, herra forseti, um þinghaldið hér sem er auðvitað orðið með miklum endemum af ýmsum ástæðum. Þennan föstudag átti samkvæmt starfs\-áætlun Alþingis ekki að vera þingfundur. (Forseti hringir.) Þennan föstudag eru ekki færri en tvær stórar ráðstefnur í gangi, önnur í Háskólabíói, norræn ráðstefna um konur, atvinnumál og efnahagsmál þar sem fjöldi þingmanna er boðaður, (Forseti hringir.) hin norður á Akureyri þar sem hæstv. landbrh. eða umhvrh. stendur fyrir málum. Það er neðan við allar hellur að setja menn í þessar aðstæður að þeir ættu að vera að lágmarki á þremur stöðum samtímis, hér að gegna þingskyldum sínum, uppi í Háskólabíói og á ráðstefnu norður á Akureyri. Þetta er ekki hægt.