Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 13:53:01 (5425)

1997-04-18 13:53:01# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[13:53]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort mér endist tími til þess að svara öllum fyrirspurnunum, en skal reyna það þó.

Í fyrsta lagi verða áhrif skattalækkananna, þ.e. greiðslu\-áhrif þeirra, á árunum 1997--1999 þessar: Árið 1997 mun það kosta ríkissjóð í lækkuðum tekjum 950 millj. kr. Á næsta ári 2.950. Á þriðja árinu, 1999, 1.300 millj. kr., samtals 5.200 millj. kr.

Svigrúmið sem er í fjárlögum í ár vegna frystingarinnar sem hv. þm. nefndi er 800 millj. kr. Fjármögnun í samráði við sveitarfélögin, sem við gerum ráð fyrir að komi en höfum ekki í hendi, er 500 milljónir. Afnám hlutafjárafsláttar og fjármagnstekjuskatts sem kemur fyrst og fremst fram á næstu árum en ekki í ár er 1.500 millj. kr., samtals 2.800 millj. kr. á þessu tímabili, en það þýðir að fjárvöntun er samtals 2.400 millj. kr.

Þá spurði þingmaðurinn um hátekjuskattinn. Hann er talinn skila 375 millj. kr. í ár, á næsta ári 400 millj. kr., árið 1999 415 millj. kr. og árið 2000 420 millj. kr.

Vegna bótanna var gefin út yfirlýsing 24. mars, í tengslum við kjarasamningana og hún birt aðilum á vinnumarkaði. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Áréttuð er sú yfirlýsing forsrh. að bætur í tryggingakerfinu munu hækka um þá meðalhækkun launa sem verður í almennum kjarasamningum að mati ríkisstjórnarinnar.``

Hv. þm. ræddi um önnur atriði en það verður því miður að bíða síðari tíma eða koma fram síðar í andsvörum. En mér fannst vera athyglivert hve ólíkar skoðanir komu fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Ágústi Einarssyni, þar er um tvær gjörólíkar skattastefnur að ræða og það kalla ég vel af sér vikið í jafnlitlum flokki og Þjóðvaka.