Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 14:19:48 (5430)

1997-04-18 14:19:48# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:19]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu mikið vegna þess að mér er ljóst að það liggur á að þetta mál komist til nefndar og verði tekið þar til umfjöllunar. En ég kemst ekki hjá því, miðað við þau orð sem féllu áðan hjá hæstv. fjmrh., að fara frekar nokkrum orðum um láglaunahópana, sem hann fagnar nú að verði sérstakir skattgreiðendur, því að orð hans koma mér nokkuð á óvart. Ég held að alveg ljóst sé að þótt hæstv. ráðherra mundi stuðla að þeim breytingum sem ég tala fyrir, sem eru ekki mín hugmynd heldur hugmynd ASÍ, þá muni enginn saka hæstv. ráðherra eða ríkisstjórn um að hún væri að ganga á bak orða sinna. Ég held að meginmarkmið verkalýðshreyfingarinnar sé að stuðla að því að skattar lækki á meðaltekjufólki og jaðaráhrifin sem það hefur búið við en ekki að verið sé að lækka skattana á hálaunahópana á sama tíma og verið er að hækka skatta á þeim sem eru með verstu kjörin. Það er akkúrat það sem við stöndum frammi fyrir miðað við þessar tillögur. Við höfum um mjög langan tíma þurft að búa við það óeðlilega ástand að ríkissjóður og ríkisvaldið hefur þurft að koma að lausn kjarasamninga sem er alls ekki æskilegt. Það hefur þurft að leggja fram umtalsverða fjármuni til að greiða fyrir lausn kjarasamninga.

Skattleysismörkin eru vissulega há hér á landi miðað við það sem þekkist í löndunum í kringum okkur, en á því er bara eðlileg skýring, herra forseti. Hún er sú að menn hafa verið sammála um að hafa skattleysismörkin nokkuð há vegna þess að lægstu taxtarnir duga ekki fyrir framfærslu fólks. Það held ég að sé almennt viðurkennt. Við fengum það nýlega fram frá Hagstofunni að framfærslukostnaður heimilanna miðað við könnunarúttekt sem gerð var var hjá fjögurra manna fjölskyldu um 200 þús. kr. Við erum að tala um að hækka lægstu taxtana um næstu aldamót upp í 70 þús. kr. Ég hefði haldið að við ættum að nýta skattkerfið til tekjujöfnunar eins og hægt væri. Ég tel það ekki að nota skattkerfið til tekjujöfnunar ef verulegur hluti þess sem nú fer úr ríkissjóði til skattalækkunar rennur til þess að gera enn betur fyrir hálaunahópana á kostnað þess að lægst launaða fólkið á núna að fara að greiða skatta, fólk með 70 þús. kr. tekjur. Ef þetta lægst launaða fólk væri eins sett og lægst launaða fólkið í Danmörku, sem er kannski með 140 þús. kr. á mánuði, þá mundi þetta fólk ekki kveinka sér undan að greiða sína skatta og skyldur til samfélagsins. En á meðan fólk býr við það að launatekjur þess eru ekki nema 70 þús. kr. þá getur enginn sanngjarn maður boðið því upp á að fara að greiða skatta af þeim tekjum. Boðið því upp á það nú þegar rofar til í efnahagslífinu og við erum í uppsveiflu og fólk hefur beðið lengi eftir því að hagur þess yrði nú réttur við. Það er ekki síst fólk með lágar og meðaltekjur sem hefur borið uppi hitann og þungann af því að vinna okkur út úr niðursveiflunni sem við vorum í og vinna okkur aftur upp þannig að við gætum náð jafnvægi. Þetta fólk hefur borið hitann og þungann af því. Það hefur auðvitað síst átt von á því að þegar það fengi einhverjar verulegar breytingar á sínum kjörum, þ.e. ef launin færu upp í 70 þús. kr., að góður hluti af þeim yrði síðan hirtur aftur í ríkissjóð. Þessu vildi ég koma á framfæri. Af því að gerð hefur verið úttekt á þessu og könnun af hálfu ASÍ, samanburður á þessari tillögu og tillögu hæstv. ríkisstjórnar, þá er alveg ljóst af því línuriti, sem ég er með fyrir framan mig, að fólk með bæði lágar tekjur og meðaltekjur kemur miklu betur út úr þeirri hugmynd sem ASÍ hefur lagt á borðið. Við getum tekið dæmi af fólki með 115 þús. kr. Það fær um 4 þús. kr. lækkun samkvæmt tillögu ríkisstjórnarinnar en ef tillaga ASÍ hefði orðið ofan á þá værum við að tala um helmingi meiri skattalækkun eða um 8 þús. kr. Þannig getum við rakið okkur koll af kolli yfir tekjubilið þar til við komum að 350 þús. kr. þá er útfærsla ASÍ betri fyrir fólk með tekjur undir 350 þús. kr. Þá skilja leiðir vegna þess að þá fer tillaga ríkisstjórnarinnar og hugmyndir hennar, sem við erum að ræða, að skila sér miklu betur en hugmynd ASÍ til hópanna með yfir 350 þús. kr. Það sýnir sig á línuritinu og ég tala ekki um þegar komið er upp fyrir 600 þús. kr. Ég held því að ljóst sé að ég er að tala fyrir því sjónarmiði sem ASÍ setti fram og Ögmundur Jónasson, hv. þm. og formaður BSRB, staðfesti áðan að markmiðið væri að skattinum yrði létt af láglaunafólki og fólki með meðaltekjur. Ég tel mig líka vera að tala fyrir sama sjónarmiði og hver og einn fulltrúi stjórnarandstöðunnar sem hefur komið í ræðustól í dag vegna þessa frv. Ég er að benda á að til sé önnur leið til að ná því markmiði. Ég hvet til þess að sú leið verði skoðuð í hv. efh.- og viðskn.

Mig undrar það satt að segja, virðulegi forseti --- og ég skal fara að ljúka máli mínu --- að ríkisstjórnin skuli enga tilraun hafa gert í öllu því töfluverki sem fylgir þessu frv. að reyna að meta áhrifin fyrir hópana sem eru undir 75 þús. kr. tekjum. Það kemur mér satt að segja mjög á óvart. Hefur ríkisstjórnin þá engar áhyggjur af því hvaða áhrif þessar skattbreytingar hafa á kjör þessa fólks? Við erum að ræða um það sem er nýtt, að fólk með lægstu tekjurnar er að fara inn í skattkerfið með þessum breytingum. Þá viljum við auðvitað fá að skoða og meta og sjá hver áhrif þess eru fyrir ríkissjóð. Erum við að tala um verulegar fjárhæðir sem um munar fyrir ríkissjóð? Erum við að tala um verulegar fjárhæðir sem um munar fyrir láglaunafólk? Vegna þess að hver og einn þúsundkall í buddu láglaunafólks skiptir máli. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því sem nú eiga von á að laun þeirra hækki að einhverjum tíma liðnum, einhverjum árum liðnum, upp í 70 þús. kr., að þeir standi þá frammi fyrir því að ríkissjóður sé að taka einhverja þúsundkalla, einhvern hluta af laununum inn í ríkissjóð. Ég hélt satt að segja að þjóðarsátt væri um það að þessi laun væru svo lág, jafnvel þótt þau séu komin upp í 70 þús. kr., að ekki væri réttlætanlegt að taka af þeim skatta. Mér finnst það enn svo vera. Við stöndum þá kannski frammi fyrir því að sú sátt sem þar hefur verið sé rofin. Það er nokkur breyting. Ég verð að segja, herra forseti, að mér brá við það sem hæstv. ráðherra sagði, að á sama tíma og hann er að mæla fyrir frv. sem skilar fólki með 600 þús. kr. 16 þús. kr. í skattalækkun þá óskar hann þess heitt og innilega hér úr ræðustólnum að þeir verði nú sem flestir í hópi láglaunafólks með 70 þús. kr. sem fari að greiða skatta. Mér kemur þetta gjörsamlega á óvart.

Þetta vil ég ítreka og leggja áherslu á. Ég held að ljóst sé að frv., eins og það er, sé ekki gert í samráði við verkalýðshreyfinguna. Ég held að það sé heldur ekki gert í samráði við sveitarfélögin og spyr um það hvort liggi fyrir að sveitarfélögin hafi fallist á að útsvar lækki um 0,4% og hvort það hafi verið gert í samráði við sveitarfélögin að fara þessa leið. Var það t.d. gert í samráði við stærsta sveitarfélagið? Var einungis látið nægja að tala við formann Sambands ísl. sveitarfélaga? Hvernig var staðið að þessu samráði við sveitarfélögin?

Í lokin, herra forseti, þá tel ég óviðunandi að afgreiða þetta mál frá þinginu, sem ég ætla að ítreka að ég fyrir minn hatt ætla að greiða fyrir, án þess að við vitum hvaða áhrif þetta hefur á kjör lægst launuðu hópana.