Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 14:54:35 (5439)

1997-04-18 14:54:35# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:54]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst sjálfsagt að reynt sé að nálgast þær upplýsingar sem hv. þm. biður um þó að ég geti að sjálfsögðu ekki gefið þær hér. Það er nú svo að það er ekki einu sinni búið að semja alls staðar á milli launþega og vinnuveitenda. Það eru stórir hópar sem enn er ósamið við þannig að það er ekki nokkur leið t.d. að vita hvað kemur út úr þeim samningum jafnvel þótt hér hafi verið kallað á milli bekkja um þau atriði. Í öðru lagi verða menn að muna eftir því að allir sem eru með undir 70.000 kr. í laun og t.d. með barn á framfæri fá borgað út úr skattkerfinu miklu meira heldur en þeir borga í skatt o.s.frv.

Varðandi verkalýðshreyfinguna vil ég eingöngu segja að auðvitað eru þetta ekki tillögur hennar. Þetta eru tillögur sem ríkisstjórnin gerir og tilkynnir verkalýðshreyfingunni af því að verkalýðshreyfingin vildi fá að vita áður en hún samþykkti kjarasamninga hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera sem svar við tillögum ASÍ. Nefndin mun að sjálfsögðu kalla til ASÍ, VSÍ, BSRB væntanlega og fleiri slíka aðila og það verður auðvitað hlustað á sjónarmið þeirra. Ég get ekki sagt hér og nú hvort þetta tekur breytingum. Ég minni á að þetta er stjórnartillaga og ríkisstjórnin ber ábyrgð á henni. Það er hins vegar athygli vert að hér koma menn upp og gagnrýna ríkisstjórnina mjög harkalega fyrir að vera að lækka skatta sem framlag til kjarasamninganna, það megi bara alls ekki gera þegar svona stendur á í þjóðfélaginu. Svo kemur þetta sama fólk hér upp og segir: Við heimtum að verkalýðshreyfingin ráði öllu um það hvernig þessar breytingar verða. Þetta kemur nú ekki heim og saman hjá blessaðri stjórnarandstöðunni.