Hlutafélög

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 14:59:03 (5442)

1997-04-18 14:59:03# 121. lþ. 106.9 fundur 504. mál: #A hlutafélög# (hlutafélagaskrá) frv., 505. mál: #A einkahlutafélög# (hlutafélagaskrá) frv., 506. mál: #A samvinnufélög# (samvinnufélagaskrá) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:59]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þremur lagafrv. um breytingar á lögum um hlutafélög, einkahlutafélög og samvinnufélög. Fyrir þeim verður mælt í einu lagi með því að þau miða öll að sams konar breytingum og varða flutning hlutafélagaskrár og samvinnufélagaskrár til Hagstofu Íslands, en þær hafa hingað til heyrt undir viðskrn.

Opinber skráning upplýsinga um félög og fyrirtæki, almennur aðgangur að þeim og birting þeirra er talin vera ein meginforsenda viðskiptaöryggis í þjóðfélaginu. Á vegum hins opinbera eru því haldnar ýmsar skrár um þessi efni og með lögum lögð sú skylda á félög og fyrirtæki í atvinnurekstri að tilkynna til viðeigandi skrárhaldara um tiltekna þætti starfsemi sinnar. Könnun á tilhögun mála á þessu sviði leiddi í ljós að á fjórða tug opinberra aðila sem heyra undir fjögur ráðuneyti halda ýmsar skrár í þessu skyni. Auk hlutafélagaskrár og samvinnufélagaskrár eru firma- og verslunarskrár haldnar af sýslumönnum fyrir hvert umdæmi um sig. Félagaskrá samkvæmt lögum um ársreikninga er tímabundið haldin af ríkisskattstjóra og fyrirtækjaskrá af Hagstofunni. Jafnframt halda skattstjórar í hverju skattumdæmi og ríkisskattstjóri ýmsar skrár oft um sömu aðila þó í ólíkum tilgangi sé.

Flutningur frv. þessara er liður í heildarendurskoðun á fyrirkomulagi opinberrar skráningar á upplýsingum um félög og fyrirtæki. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hefur sú endurskoðun að markmiði að einfalda eins og kostur er allt opinbert eftirlit með atvinnulífinu og um leið að hagnýta í þess þágu þá öru þróun sem orðið hefur í upplýsinga- og tölvutækni hvers konar. Ein meginforsenda hagræðingar á þessu sviði, jafnt fyrir notendur sem stjórnvöld, er að haldin verði ein grunnskrá fyrir öll félög og fyrirtæki í landinu í stað fjölda skrárhaldara sem áður er getið.

Ákveðið hefur verið að hin sameinaða skrá verði haldin af Hagstofunni og er flutningur hlutafélagaskrár og samvinnufélagaskrár þangað fyrsti áfanginn á þeirri leið. Síðar bætist skráning annarra upplýsinga við svo sem þær sem haldnar eru í verslunar- og firmaskrám.

Skráning hlutafélaga og einkahlutafélaga hefur verið í höndum sérstakrar stofnunar, hlutafélagaskrár. Hefur hún jafnframt annast skráningu samvinnufélaga í umboði viðskrh. Verði frv. þessi að lögum verður sú stofnun lögð niður og starfsliði hennar boðin sams konar störf við skrárhald Hagstofunnar.

Ég ætla tímans vegna ekki að lýsa nákvæmlega hvers vegna í þessar breytingar er farið og hvað hefur komið fram en vitna í því sambandi til greinargerða sem liggja fyrir og einstakra ákvæða en þau eru mjög svipuð í öllum frv.

Loks gera öll frv. ráð fyrir að viðkomandi ráðherrar geti fært ákvæði laganna nánar út í reglugerð, hver á sínu sviði. Að því er skráningu hlutafélaga varðar eru þær efnisbreytingar einar lagðar til að heimilt er að taka þjónustugjald fyrir útgáfu vottorða og afnot af tölvuskrá en sams konar heimild er nú þegar í lögum um samvinnufélög.

Í athugasemdum með frv. kemur fram að ekki séu fastmótuð áform um þessa gjaldtöku í ljósi þess að tekjum af gjaldi þessu er ætlað að greiða niður rekstrarkostnað skránna að hluta. Þó er ástæða til að beina því til nefndar þeirrar sem frv. fær til meðferðar að kanna nánar hvaða kostnaðarliðum verði mætt með gjaldtöku og annaðhvort afmarka þá sérstaklega í lögunum eða ákveða hversu stórum hluta rekstrarkostnaðar megi mæta með gjaldtöku. Með því móti ætti skýring ákvæðisins ekki að þurfa að standa innheimtu gjaldanna fyrir þrifum. Jafnframt er lagt til að brott falli heimild til sektaálagninga fyrir brot á reglum settum samkvæmt lögunum. Að öðru leyti miða reglugerðarsetningarheimildirnar ekki að breytingum á gildandi ákvæðum. Þar á meðal um að veita skuli almennan aðgang að skránum enda þótt rétt þyki að útfæra tilhögun þessa nánar í reglugerð.

Að svo búnu leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að frv. þessum verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.