Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:42:14 (5472)

1997-04-18 17:42:14# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:42]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 9. þm. Reykv. hefur jafnan áhyggjur af bændum en litla þekkingu á stöðu þeirra. Þeir eru nú um margt frjálsir menn. Þeir hafa á mjög mörgum sviðum valfrelsi og eru kannski enn þá frjálsari heldur en hv. þm. þó að auðvitað hafi sorfið að bændum í efnahagslegum kjörum. En enginn hefur farið meira offari gegn íslenskri bændastétt en hv. 9. þm. Reykv. og væri staða hans í íslenskri pólitík önnur ef hann hefði þar talað af meiri hógværð. (Gripið fram í.) Því hygg ég að margir menn hefðu fylgt honum að málum ef hann hefði gætt sín í þeirri umræðu. Verður það svartasti bletturinn á minningunni um þennan ágæta stjórnmálamann. (Gripið fram í: Þekkir þingmaðurinn ekki skoðanakannanirnar?)

Hvað valfrelsið varðar sem ég nefndi, þá rakti ég það að mér finnst oft að einstaklingurinn sé aukaatriði í þessari umræðu, að tröllin sem ætli að ráða sjóðunum fái sitt fram. Ég fór yfir það að mér þætti það hart ef ég stæði frammi fyrir því að greiða í illa rekinn sjóð og gæti alls ekki sagt mig úr honum. Það var þetta valfrelsi sem ég átti við, hv. þm.