Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 20:00:19 (5496)

1997-04-18 20:00:19# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[20:00]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Uppruni lífeyrissjóðanna er alls ekki í kjarasamningum. Það er alger misskilningur. Uppruni þeirra felst í lagasetningu frá 1974. Ef menn skoða fjölda sjóðfélaga í einstökum lífeyrissjóðum þá var hann nánast enginn fyrir 1974 vegna þess að fólk vildi ekki borga í lífeyrissjóð almennt á þeim tíma nema til þess að fá lán. Menn gengu í lífeyrissjóð bara til þess að fá lán. En eftir lagasetninguna 1974 og sérstaklega eftir 1980, þá hrúgaðist fólk inn í lífeyrissjóðina, enda gat það ekki annað. Lífeyrissjóðirnir sendu bara lögfræðing í fyrirtækin til að innheimta. Það var ekkert einfaldara. Þetta er ekkert hlutverk kjarasamninga og alls ekki afrakstur kjarasamninga, þessi mikli vöxtur lífeyrissjóðanna. Það er afrakstur lagasetningar á Alþingi, lagasetningar sem olli því að iðgjaldið varð skattaígildi og þess vegna er það Alþingis að breyta því aftur ef því finnst að stjórnin á lífeyrissjóðunum sé þannig að sjóðfélagarnir hafi ekkert um hana að segja.

Ég er hjartanlega sammála því að lífeyrissjóðirnir taki við almannatryggingum. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þm. með það að þeir taki við almannatryggingum og ég meira að segja gat um það hér áðan. Ég held að það sé bara nauðsynlegt að finna samspil milli almannatrygginga og lífeyrissjóða þannig að mínar hugmyndir ganga eingöngu út á það hver á að stjórna. Er það fólkið í lífeyrissjóðunum? Eru það eigendurnir eða eitthvert fólk úti í bæ?