Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 21:25:25 (5510)

1997-04-18 21:25:25# 121. lþ. 106.19 fundur 552. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[21:25]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það er nú nokkuð liðið á þingfundinn. Samt sem áður get ég ekki látið hjá líða að koma aðeins inn í þessa umræðu.

Ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað líka við meðflm. hv. þm. Péturs H. Blöndals, hv. þm. Katrínu Fjeldsted, því mig grunar að sú stétt sem sá hv. þm. tilheyrir, læknastéttin, sé líklega ein þeirra stétta sem einna mestu ívilnanir hefur í sínum kjarasamningum hvað áhrærir reglulegar ferðir erlendis. Þar er meðfylgjandi orlof. Ég veit ekki hvernig skattaleg meðferð þessara ágætu kjara þeirra eru. Það heitir að þeir séu að endurmennta sig og ég ætla ekki að gera lítið úr því. Hins vegar veit ég vel að margar þessar ferðir eru farnar í persónulegum erindum. Líklega eru þær þá skattfríar. Auk þess eru fjölmargir starfsmenn fyrirtækja, eins og hv. flm. kom inn á, sem eru í ferðalögum erlendis mjög oft og njóta ýmissa skattfríðinda þess vegna. Við vitum líka að fjölmargir starfsmenn íslenska ríkisins njóta mikilla skattívilnana. Þeir eru starfsmenn sendiráða og ferðast vítt og breitt um heiminn og eru svo lengi fjarverandi frá hinu ísakalda landi og vegna þess að mikil röskun hefur orðið á þeirra högum vegna starfa erlendis. Það er tekið tilliti til fjölskyldunnar. Það er tekið tillit til barnanna. Eigendur fyrirtækja hafa ótal möguleika á að færa ýmsar persónulegar þarfir á fyrirtækið, á kostnað fyrirtækjanna. Í frammíkalli hér áðan viðurkenndi flm. að svo væri og þekkir hann það líklega mikið betur en ég. Hann þekkir þá stigu alla sem ég ætla ekki að fjölyrða hér um.

Þegar staðgreiðslukerfi skatta var sett á átti að ýta öllu þessu í burtu, dagpeningum, bifreiðastyrkjum og fleiru og fleiru, en flest af þessu er nú komið inn aftur, t.d. bifreiðastyrkir með alls kyns seremóníum. Hann hefur sjálfur nefnt að alþingismenn njóti ýmissa skattfríðinda og hefur gert það opinbert að eftir utanlandsferð hafi hann nánast haft óþolandi mikið fjármagn í sínum vösum þegar hann kom heim aftur. En auðvitað er alltaf persónubundið hvernig menn halda á málum. Það er eflaust hægt að koma með talsvert af dagpeningum erlendis frá ef maður borðar á hamborgarastöðum alla daga og býr í tjaldi eða kaupir enga gistingu, sefur í símaklefa, og allt frá því að búa á dýrustu hótelherbergjum.

Það kom fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni áðan að ríkið greiddi sínum starfsmönnum um 2.500 millj. vegna fæðispeninga. En ef menn ætla í sagnfræðina sem hér hefur aðeins verið komið inn á, þá væri nú ekki úr vegi að líta aðeins hvað það var sem sjómenn einir allra hér á landi greiddu á fyrri öldum. Við getum nefnt svokallað sætisgjald, skráningargjald, spítalagjald og læknagjald. En þessi tvö gjöld greiddu sjómenn einir í þrjár aldir. Þeir héldu uppi spítölum og þegar þeir aflögðust þá greiddu þeir læknastéttinni laun. En allt um það.

[21:30]

Flm. kom inn á það áðan að það yfirleitt gengju allar skattaívilnanir í þær áttir að þær yrðu rýmri en lög kvæðu á um. En því var einmitt öfugt farið fram til þess tíma að lögin voru endurskoðuð og sett ný 1991. Þá hafði það nefnilega gerst um allt land að skattstjórar ýmissa kjördæma túlkuðu lögin út og suður, yfirleitt þrengri úti á landsbyggðinni en hér í þéttbýlinu. En þegar lögunum var breytt að nýju með endurskoðunarákvæðunum þá gerðist það að eitt gekk jafnt yfir alla sjómenn á öllu landinu og er svo og var það til mikilla bóta.

Í grg. er m.a. komið inn á hlífðarfatnað og segir svo, með leyfi forseta, í grg.: ,,Þegar störf gera kröfu um sérstakan hlífðar- eða öryggisfatnað er algengt að í samningum sé kveðið á um að vinnuveitandi leggi slíkan búnað til eða tekið sé tillit til þess í launum. Engin rök eru fyrir mismunandi skattalegri meðferð í þessu efni eftir því hvort þau störf, sem sérstaks búnaðar krefjast, séu í tengslum við sjósókn eða ekki. ... Að því leyti sem sjómönnum er nú látinn í té hlífðarfatnaður eru forsendur skattaívilnunarinnar brostnar.`` Ég spyr flm. hvaða hlífðarfatnaður er það sem sjómönnum er skaffaður. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það. Það er þá orðið meira en ég veit um. En hlífðarfatakostnaður sjómanna er mjög mikill á hverju ári. Sérstaklega hefur verið um það getið hvað áhrærir togarasjómenn.

Og svo, með leyfi forseta, segir hér áfram: ,,Um fæðiskostnað gildir í grundvallaratriðum hið sama og um hlífðarfötin. Að hluta til eru hinar upphaflegu forsendur þess efnis að sjómenn sjái sér sjálfir fyrir fæði brostnar og í annan stað er um að ræða kostnað sem er sambærilegur því sem fjöldi annarra launþega býr við.`` Stöldrum nú aðeins við hér. Hvað kostar fæðið sem þingmaðurinn er að kaupa hér á hinu háa Alþingi? Hann er að borga miklu minna fyrir það fæði en það raunverulega kostar og svo er almennt í hundruðum mötuneyta sem ríkið rekur eða stendur að. Enginn skattur er greiddur af muninum sem er á milli hins raunverulega kostnaðar og þess sem skattstjóri reiknar að fæðið kosti. Ef jafnt væri á komið milli sjómanna og þeirra sem njóta sérstakra hlunninda ríkisins í mötuneytum og eru að borga 200--300 kr. fyrir máltíð sem kostar 700 kr. þá ættu opinberir starfsmenn og alþingismenn að greiða skatta af þessum mismun. Svo hér er farið með rangt mál einnig.

Atriði eru fleiri en ég ætla ekki að tæpa á þeim öllum en kem þó að einu sem ég get ekki látið hjá líða að nefna. Það segir m.a. svo í grg.: ,,Áhafnir sumra fiskiskipa geta verið í landi stóran hluta ársins en njóta samt afsláttar eins og sjósókn og fjarvistir frá heimili væru alla daga ársins.`` Þetta er rangt. Þetta er svo mikil fullyrðing út í loftið að ég er hissa á því að svo kunnugur skattamálum sem flm. er skuli setja þetta á prent vegna þess að í breytingum sjómannalaganna 1991 er skýrt tekið fram um að það eru aðeins sjódagar sem gefa rétt til sjómannaafsláttar. Hafnardagar gefa ekki sjómannaafslátt og það var stærsta breytingin frá þeim lögum sem áður giltu varðandi sjómannaafsláttinn. Síðan kemur gullvæg setning: ,,Vinna að fiski um borð í frystitogurum á mjög góðum launum veitir rétt til afsláttar en sömu störf í frystihúsi á miklu lægri launum ekki.``

Hver eru hin mjög góðu laun? Ef grannt er skoðað og tekin meðalveiðiferð frystitogara sem er á bilinu fimm til sex vikur og laun eru um 400 þús. kr. og menn reikna að meðaltali 14 stunda vinnudag þá eru þessir menn, án þess að hafa nokkurt vaktaálag, helgidagaálag, hátíðis- eða tyllidagaálag, eins og við þekkjum í landi, með í kringum 360 kr. á klukkustund í meðallaun miðað við 400 þús. kr. tekjur í milli fimm og sex vikna veiðiferð. Þetta eru hin mjög góðu laun. Það er líka hægt að fara upp í fjöll og vera þar í 360 daga og vinna allan sólarhringinn og koma með mikla peninga heim. Þá er sagt: Ja, hann var upp á fjöllum að vinna þessi maður í heilt ár og hann kom bara með 2, 3 milljónir til baka --- feiknarlega eru launin góð. En hver var vinnustundafjöldinn sem lá að baki þessum góðu tekjum? Hann gerir þá ekki tímakaupið hátt. Ég fullyrði að í fjölmörgum og miklu fleiri tilfellum en ekki er hallar heldur á sjómanninn þegar borið er saman tímavinnukaup með bónus í frystihúsi hjá konunni á móti tímavinnukaupi sjómannsins á hafi úti, sem eyðir 25% meiri orku við það að standa ölduna og hefur ekki fast land undir fótum.

Eitt er það svo líka sem enginn lítur á og það er fjarveran og menn gera lítið úr því. Það hlýtur að vera rosalega flott að vera um borð í frystitogara í fimm til sex vikur fjarri heimili sínu, hafa vídeótæki, sjónvarp og geta nánast lifað og leikið sér. Enda er ég ekkert hissa á því þó að (Gripið fram í: Fínt að vera í Smugunni.) --- fínt að vera í Smugunni --- menn sem tæplega hafa labbað niður á höfn, vita kannski hvað er fram eða aftur á skipi --- ég er ekki að tala til hv. þm. Péturs Blöndals því ég veit að hann hefur farið a.m.k. einn túr til sjós en það eimir þó ekki af seltu í hári eða bliku í augum, en ég er þó ekki hissa á því þó meiri hluti þjóðarinnar sé þannig þenkjandi að sjómenn hafi það of gott vegna þess að þegar fjölmiðlamenn með sjónvarpsmyndavélina sína fara um borð í þessi skip þá velja þeir alltaf góða daginn. Þeir velja gott veður, það er sléttur sjór og svo endar frásögnin af þessari miklu og skemmtilegu veiðiferð venjulega hvar áhöfnin er komin inn í matsalinn, kýraugað er opið, einhver hefur tekið upp harmoníkuna og sjónvarpsauganu er beint að þessari fínu stemningu í matsalnum og myndatökunni lýkur þar sem sjónvarpsauganu er beint út um kýraugað --- spegilsléttur sjór og fagurt sólarlag. Hvílík mynd. Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að sú slysatíðni sem við þekkjum hér er hvað mest á sjómönnum. 25% allra slysa sem tilkynnt eru Tryggingastofnun ríkisins eru slys á sjómönnum. Þeir eru þó innan við 5% þeirra sem eru á vinnumarkaðinum. Og menn segja: Það er of í lagt að láta þessa menn hafa sjómannaafslátt. Þeir hafa svo rosalega góð laun. Og það er skjalfest af tryggingafræðingnum sem hefur margsinnis skoðað Lífeyrissjóð sjómanna og veit allt um þetta mál.

Það er því miður nöturlegt að þurfa sí og æ að standa í varnarstöðu gagnvart þessum sjómannaafslætti, ekki það að ég telji það nokkurn hlut eftir mér. En þegar menn koma hér fram og ráðast á eina stétt, vitandi þó af öllu því sem er að gerast í kringum þessa stétt manna hvað áhrærir ýmsar skattaívilnanir þá finnst mér heldur langt gengið af manni sem boðar réttlæti og afneitar ranglæti. Ég tek undir það sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði áðan að það væri kannski full ástæða til þess að taka þetta mál allt upp og taka það allt upp á yfirborðið. Ég er hræddur um að ýmislegt kæmi þá í ljós.

Hv. þm. kom inn á það áðan að hér væri um 1,6 milljarða að ræða og gat sérstaklega um það að þyrlan kostaði t.d. 800 millj. og sjómenn nytu þar góðs af. Ég vil benda hv. þm. á að biðja um skýrslu mörg ár aftur í tímann hjá Landhelgisgæslunni um það í hvaða tilvikum þyrlan hefur verið kölluð út undanfarin ár og hvernig útköllin skiptast. Það lætur nærri að um 60% útkalla þyrlunnar séu vegna slysa upp á fjöllum eða bifreiðaslysa ekki fjarri höfuðborginni o.s.frv. Það er í færri tilfellum sem þyrlan er kölluð út vegna sjómanna. Og hann og meginhluti þjóðarinnar segir: Þyrlan er fyrir sjómenn, það eru þeir sem eiga að borga. Það á að taka sjómannaafsláttinn af og láta þá borga þyrluna. Á sama tíma og menn eru uppi um fjöll og firnindi að leika sér í hvaða veðri sem er, ótryggðir, og við skattborgararnir eigum að greiða rekstur á þyrlunni. En sjómennirnir sem nota hana minna en landmennirnir --- þyrlan er þeirra vegna og þess vegna skal afnema sjómannaafslátt til þess að láta þá borga þyrluna. Dæmalaus málflutningur.

Herra forseti. Eitt er það sem komið er inn á hér líka sem ég má til með að gera aðeins að umræðuefni og vitna þá til grg., með leyfi forseta, þar segir m.a. svo: ,,Sjómannaafslátturinn gerir það að verkum að störf við frystingu í frystitogurum úti á sjó njóta skattfrelsis á meðan sambærileg störf í landi eru sköttuð að fullu. Hann virkar því sem eins konar niðurgreiðsla á vinnu um borð í frystitogurum og stuðlar þannig að því að frystingin flyst út á sjó og veldur atvinnuleysi í landi.`` Nú hlýt ég að spyrja hv. flm. að því: Ef þú rækir frystihús og ættir flökunarvél og hún gengi ekki nema þrjá til fjóra daga í viku, að meðaltali í sex tíma á dag, en þú kæmir henni um borð í togara sem væri í sex vikur í burtu og nýting vélarinnar væri 23 tíma á sólarhring --- mundir þú hugsa þig um? Teldir þú að það væri ekki m.a. þess vegna sem þú mundir flytja frystinguna út á sjó eða teldir þú að það væri bara eðlilega að gera það vegna þess að þessir menn sem vinna við flökun úti á sjó njóta sjómannaafsláttar? Eru það rökin?

,,Yfir 98% þeirra [segir í grg.] sem greiddu til Lífeyrissjóðs sjómanna á árinu 1995 voru karlar. Þannig má segja að sjómannaafslátturinn sé forréttindi karla og vinnur gegn launajafnrétti karla og kvenna þar sem yfirgnæfandi fjöldi starfsfólks í fiskvinnslunni eru konur. Launamunur milli sjómanna og fiskvinnslufólks er mikill. Sjómannaafslátturinn eykur enn frekar þann mun.`` Ég vitna til þess sem ég sagði áðan um útreikning tímavinnukaups og það erfiði sem fylgir sjómannsstarfinu, slysatíðni og það álag að menn eyða 25% meiri orku við að standa ölduna en að hafa fast land undir fótum.

Herra forseti. Nú er liðið mjög á tímann og ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri að svo stöddu. En ég ætla að endurtaka m.a. að það er engin smáfórn sem sjómaður færir að vera fjarverandi meginhluta áranna þegar hann er að efla fjölskyldu sína og hún er að dafna. Börnin eru að vaxa úr grasi og hann missir af frumsporum barna sinna á æskuárunum. Þetta er engin smáfórn. Hann er ekki að njóta þjónustunnar í landi, hann er ekki að aka hér um göturnar, hann nýtir ekki það sem kostar að lýsa hér upp göturnar og þess vegna m.a. og af þeim ástæðum sem ég hef komið inn á er eðlilegt að sjómannaafslátturinn verði til áfram.