Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 16:23:41 (5536)

1997-04-21 16:23:41# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:23]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú kannski ekki við hæfi að ég sé að bera skilaboðin á milli samflokksþingmannanna, hæstv. samgrh. og hv. þm. Kristjáns Pálssonar, en það kom fram í framsöguræðu ráðherra að það að taka Grindavík inn á áætlun kæmi niður á framkvæmdum í öðrum höfnum. Ráðherrann sagði það skýrt og skorinort. (StG: Hvernig gæti annað verið?) Og ég spyr eins og hv. frammíkallandi, Stefán Guðmundsson: Hvernig gæti annað verið þegar heildarfjárveitingin er ekki aukin við það að taka inn nýtt verkefni sem gæti kostað um 700 millj. kr. og hlutur ríkisins af því 70--90% svona eftir því hvernig það vinnst eftir árum? Þannig að ég ber einfaldlega framsöguræðu hæstv. samgrh. fyrir mig sem heimild fyrir minni fullyrðingu og hv. þm. Kristján Pálsson verður svo að gera það upp við sig hvort honum finnst það merkileg heimild eða ómerkileg.

En ég vildi aðeins segja um höfnina í Grindavík til þess að árétta það sem fram kom í máli mínu að ég er ekki, það tók ég fram, að gagnrýna það að menn telji rétt að fara í framkvæmdina. Þeir hafa kynnt sína framkvæmd, m.a. fyrir fjárln., þannig að ég þykist vera sæmilega upplýstur um það verkefni sem á að ráðast í og vera sæmilega sannfærður um að það þurfi að ráðast í verkefnið en það verður ekki ráðist í það nema með því að setja mikla peninga í það og það verður þá tekið úr öðrum framkvæmdum fyrst ákvörðun var tekin eins og ríkisstjórnin stóð að málinu.

Ég vildi svo að lokum upplýsa hv. þm. um það að þrátt fyrir allt hefur, á síðustu 22 árum, verið varið langmestu fé til hafna á Suðurnesjum miðað við það sem gerist á landinu og er ég ekki að segja annað en að það sé gott og blessað og hafi verið gert verðskuldað. T.d. hefur verið varið 528 millj. kr. til hafnarinnar í Grindavík á þessu tímabili og er sú höfn ein af þeim höfnum landsins sem hafa fengið allra hæstu fjárveitingar þannig að ekki verður sagt að þessar hafnir hafi setið neitt út undan.