Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 16:30:08 (5539)

1997-04-21 16:30:08# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:30]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Eftir að málið kom inn sem stórframkvæmd lít ég einfaldlega svo á að þetta sé sama framkvæmd eða jafnmikil framkvæmd inn á áætlun eins og hver önnur. Það er búið að vera að breyta þessum drögum að hafnaáætlunum sem hafa legið fyrir þinginu og reyndar aldrei komist inn í þingið heldur legið hér frammi á hverju einasta ári. Við þekkjum það. Það hafa komið upp áföll víða um land í kringum hafnir. Gripið hefur verið til þess að breyta áætlunum til þess að geta mætt þeim. Þingmenn hafa einnig, bæði á Vestfjörðum og annars staðar, undirritað yfirlýsingar í tengslum við tilteknar framkvæmdir sem ekki eru með fjármagn á áætlun, um að þeir muni beita sér fyrir því að fjármagn fáist á næstu áætlun til þess að ljúka því sem ekki hafði verið áætlað fjármagn fyrir. Ég geri alveg fastlega ráð fyrir því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi tekið þátt í slíku og það er einmitt kannski ein meginástæðan fyrir því að hægt sé að vinna samkvæmt hafnaáætlunum, eins og þeirri sem lögð er hér fram, að þær séu samþykktar á Alþingi. Og þá verður þessu ekki breytt með einu pennastriki ef við mættum orða það þannig þó ég sé alls ekkert að gagnrýna þær breytingar sem hafa verið gerðar. Þær hafa yfirleitt verið gerðar af brýnni nauðsyn. En mér finnst alveg óþarfi og í sjálfu sér ekki ástæða til þess að nefna sérstaklega að Grindavík væri að trufla þessa áætlun, öðru nær. Grindavík hefði í rauninni átt að vera löngu komin inn á þessa áætlun og þessi framkvæmd að vera komin af stað. En ég ítreka að ég þakka ráðherra fyrir að þetta skyldi komast á framkvæmdastig.