Sjóvarnir

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 15:00:12 (5618)

1997-04-22 15:00:12# 121. lþ. 109.15 fundur 115. mál: #A sjóvarnir# frv., 580. mál: #A Siglingastofnun Íslands# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[15:00]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var lagt fyrir hið háa Alþingi var gert ráð fyrir að um sjóvarnir væri sá háttur hafður á að sérstök þriggja manna matsnefnd væri starfandi Siglingastofnun til ráðgjafar um sjóvarnir vítt og breitt um landið. Í sjálfu sér er þetta hið besta mál. En þegar það sem fram kom í frv. var grannt skoðað þá er gert ráð fyrir að þessi þriggja manna sjóvarnanefnd væri framkvæmdastjóra Siglingastofnunar Íslands til ráðgjafar um þessar framkvæmdir. Nú sitja ellefu í siglingaráði. Fimm eru í hafnaráði og ef frv. hefði náð óbreytt fram að ganga hefðu þrír verið í sérstakri ráðgjafarnefnd um sjóvarnargarða þannig það hefði einfaldlega þýtt að alls hefðu 19 manns komið utan úr bæ til þess að stjórna Siglingastofnun. Þykir þó mönnum ærið að þeir skuli vera sextán. Ég tel að í þeim ágætu breytingum sem gerðar hafa verið á Siglingamálastofnun og samruna hennar við Vita- og hafnamálastofnun, þó ég hafi nokkuð á deilt á sínum tíma, að hér sé heldur langt gengið í því að kalla utanaðkomandi aðila til ráðgjafar eða til samstarfs um stjórnun þessarar ágætu Siglingastofnunar. Ég hefði talið eðlilegt og það væri ekki úr vegi að hafa þriggja eða fimm manna framkvæmdastjórn til að verkin væru á ábyrgð færri aðila og það sem gera þyrfti þyrfti ekki að fara fyrir jafnmarga og raunin er nú. Í allt of mörgum tilfellum hefur löggjafinn leiðst út á þá braut að of margir koma að stjórnun ríkisfyrirtækja, t.d. Siglingastofnunar, þar sem ákvarðanataka þarf oft að vera fljótvirk og fáir einir að bera ábyrgð á þeim hlutum sem gerðir eru. En með þessu fyrirkomulagi, með þessum breytingum á frv. um sjóvarnir, tel ég að mjög sé til réttrar áttar gengið þó ég hefði í upphafi, þegar Siglingastofnun var sett á laggirnar, talið að eðlilegt væri að hafa þar fámenna stjórn sem bæri ábyrgð á stofnuninni í hverju því verki sem henni væri falið. Hitt væri svo annað mál að hægt væri að hafa þar ekki fjarri fulltrúa hagsmunaaðila sem tengjast þessari stofnun á einn eða annan hátt. Þeir bæru þá minni ábyrgð, væru t.d. í hlutverki ráðgjafaraðila sem kæmu saman ársfjórðungslega. En ég fagna því að þessar breytingar hafi orðið á þessu frv. til laga um sjóvarnir og mun að sjálfsögðu styðja það.